Fara í efni

Hrútadagur rann upp bjartur og fagur í kjölfar góðra menningardaga

Myndir má finna hér, fleirum verður bætt við :) 

Líkt og undanfarin ár hafa Raufarhafnarbúar staðið fyrir Menningardögum og Hrútadegi. Þetta árið var ekki undantekning og líkt og í fyrra var Hrútadagur í kjölfar Menningardaga. Byrjuðu herlegheitin á fyrirtækjabarsvari þar sem grunnskóli Raufarhafnar kom, sá og sigraði og fór heim með farandbikarinn. Dagana þar á eftir var unnið í að kynnast sagnahefðinni með námskeiði og sagnakvöldi þar sem sérstaklega var beint sjónum að Raufarhafnarsögum.

Þessu var fylgt eftir með bíókvöldi, spilakvöldi og skrínukosti. Sigurvegarar spilakvöldsins voru Friðrik Björnsson og Vigdís Reynisdóttir sem voru stigahæst og Birna Björnsdóttir sem hlaut setuverðlaunin.

Á fimmtudagskvöldið var hin árlegi Skrínukostur þar sem veisluborð var dekkað og íbúar bæjarins mættu með veislurétti. Yfir réttunum var svo hlegið að gömlum myndbrotum frá Skrínukosti og Þorrablóti.

Föstudagskvöldið mætti svo hinn eini sanni Bjartmar Guðlaugsson á svæðið og hélt uppi þrusustuði. Vel var mætt og gleðin var mikil.

Hrútadagurinn rann svo upp bjartur og fagur. Um tvöleytið fór fólk að flykkjast að og hrútar að mæta í hús með eigendur í eftirdragi.  Rúningur var sýndur svo og ullarmat og í framhaldi var spunnið úr ullinni. Einnig var drifið með börnin í leiki að sveitasið og var dagurinn í alla staði vel heppnaður. Þegar leið á daginn fór að færast hiti í leikinn og að lokum voru um átta hrútar boðnir upp og 20 seldir. Eggert Stefánsson úr Laxárdal fékk verðlaun fyrir kótilettuhrútinn en Kótilettufélagið mætti á staðinn í gulum vestum og með bros á vör. Friðgeir Gunnarsson hlaut verðlaun fyrir best skreytta húsið en skreytingakeppni var haldin á menningardögum og var Friðgeir þar fremstur meðal jafningja. Ragnar Skúla vann stígvélakastið og Ágúst Marinó átti hrútinn sem vann hrútahlaupið. Klukkan 18:00 vaknaði Drekinn en þá afhjúpaði Helgi Ólafsson listaverkið sitt Drekann sem nú stendur á Hafnargarðinum. Dagurinn allt í allt afar vel heppnaður.

Um kvöldið veitti Búvís skjöld og verðlaunagrip fyrir afurðahæstu ána og það voru hún Fura frá Svalbarði sem var afurðahæsta áin þetta árið.  Einnig um kvöldið var Hagyrðingasamkoma þar sem hagyrðingar nýttu skáldasnilli sína til að draga dár að flestu í umhverfi þeirra og gerðu það afar vel. Fór mæting fram úr vonum og allir kátir og glaðir með daginn og kvöldið

Nefndin þakkar öllum sem komu að skipulagningu og vinnu þessa dagana ásamt því að þakka þeim fjölmörgu gestum sem lögðu leið sína á svæðið.

Menningardaganefnd og Hrútadaganefnd:
Silja Jóhannesdóttir
Ingibjörg Hanna Sigurðardóttir
Nanna Steina Höskuldsdóttir

Í Hrútadaganefnd að auki voru:
Árni Gunnarsson
Ragnar Skúlason