Fara í efni

Íris Erlingsdóttir gefur út bók



Íris fann réttu leiðina í nýja heimabænum. Skrifin urðu lækning eftir að hafa "rekist á vegginn". Íris Erlingsdóttir rakst á vegginn fyrir fimm árum en fann lækninguna í Falkenberg þegar hún byrjaði að skrifa um reynslu sína. Eins og nafnið gefur til kynna fæddist Íris á Íslandi, nánar tiltekið á Raufarhöfn; litlum bæ sem er raunverulega eins langt frá höfuðborginni og hægt er, í um 600 kílómetra fjarlægð frá Reykjavík.

Ástin bar hana til Svíþjóðar. Pierre er frá Östersund en fór til Íslands til að vinna í fiskverkun. Þau hittust árið 1989 og Íris fylgdi honum heim til Jämtland. Árið 1996 lést pabbi hennar og þar sem Íris og Pierre voru bæði án atvinnu flutti fjölskyldan aftur í heimabæinn hennar.

Tímarnir urðu erfiðari og árið 2001 fluttu þau aftur til Svíþjóðar. Íris fór í viðskiptanám og vonaðist eftir góðri vinnu. Hlutirnir urðu ekki alveg eins og hún hafði hugsað sér en hún fékk þó að minnsta kosti fast starf. Það var starf í eldhúsi sjúkrahússins í Östersund.  

„Einhverra hluta vegna byrjaði ég að virka svo illa í vinnunni eftir nokkur ár og var stöðugt með slæma samvisku yfir að ég væri ekki að skila frá mér vinnunni og þeim verkefnum sem ég bar ábyrgð á.“

Íris bað um flutning innan vinnustaðarins, en fékk ekki og afleiðingarnar urðu persónulegt hrun hennar í atvinnulífinu.

„Allt varð svo yfirþyrmandi ógnvekjandi. Ég fékk ranghugmyndir og var lögð inn á lokaða geðdeild og sett á lyf. Í þrjá hræðilega sólhringa var ég svipt frelsinu.
Maðurinn minn bjargaði mér þaðan.“

Pierre varð atvinnulaus aftur og þau ákváðu að flytja til Halland. „Ég á tvo bræður í Danmörku, en að flytja á Skán stóð aldrei til þar sem mér fannst ég þá þurfa að læra sænskuna upp á nýtt. Það var tilviljun að við enduðum í Falkenberg í lok ársins 2009. Ég er búin að vera mjög heppin alla leið. Maður þarf að finna rétt fólk innan hjúkrunar, atvinnumiðlunar og í tryggingakerfinu.“

Í endurhæfingunni byrjaði Íris að vinna úr sjúkdómnum með því að skrifa. Í sumar hóf hún að blogga um reynsluna. Afraksturinn varð bókin "Kæri Mentor - ég virka ekki eins vel án þín", sem gefin var út af Recito forlagi í lok síðasta árs.

 „Ég fann lækningu í skrifunum. Nú vantar bara vinnu og tekjur. Svo verð ég ánægð,“ segir Íris brosandi.

Hún hefur í hyggju að sækja um nám í samskiptum í haust. „Ég vil gjarnan vinna við markaðssetningu og samskipti af öllum toga.“

Meðan hún bíður eftir vinnu og námi þýðir hún bókina yfir á íslensku. Hún er sammála slagorði Falkenberg hrepps sem er: Finndu það hér.

„Það er nákvæmlega þannig sem ég upplifi þetta. Að ég fann það hér. Mæli svo sannarlega með Falkenberg.“