Fara í efni

Karítas ~ Heimsreisa


Ég ákvað að fljúga fyrst til London og eyða viku þar ein og hafði ég þrjár góðar ástæður fyrir því; ég hafði aldrei komið til London áður, né nokkurrar annarar stórborgar á ævinni ef frá er talin dagsferð sem ég fór í til Barcelona með mömmu og Brynjari þegar ég var 10 ára, og fannst vera kominn tími til. Jólin voru farin að nálgast og mig langaði að versla jólagjafir, bæði handa fjölskyldunni minni í Kosta Ríka og heima á Íslandi, í spennandi búðum eða verslunargötum, og svo býr Ósk frænka mín líka í London með kærastanum sínum og börnunum sínum tveimur og mig langaði mjög að heimsækja þau.

Ég lenti á Heathrow þann 8.desember og kom mér beint til Óskar. Fyrsta daginn útskýrði Ósk fyrir mér bæði lestar- og strætókerfi borgarinnar og síðan lék ég lausum hala í London í heila viku, en Ósk og kærastinn hennar, Toby, vinna bæði og börnin eru í leik- og grunnskóla svo ég skoðaði London ein á daginn.

Allir helstu túristastaðirnir í London voru teknir út líkt og Big Ben turninn, London Eye, Buckingham Palace, Trafalgar Square og London Bridge. Bretar hafa ótrúlegar gersemar að geyma á söfnum en í National Gallery skoðaði ég meðal annars verk eftir Monet, Van Gogh og DaVinci.

Annars fór meiri tími en ég þori að viðurkenna í búðir á Oxford Street og spennandi kaffihús í Soho.

Þann 15. desember hélt ég svo af stað til Kosta Ríka en ferðin tók mig vel á annan sólarhring, með millilendingum í Þýskalandi og Dóminikanska Lýðveldinu. Á flugvellinum í San Jose beið ég svo í 12 tíma eftir vinkonu minni, Sigríði, en við ferðumst svo saman þad sem eftir er af reisunni.

Kosta Ríka er mér sérstaklega kær, þar sem ég bjó þar í ár sem skiptinemi árið 2011 og á þar skiptinemafjölskyldu og marga vini.

Við héldum til hjá skiptinemafjölskyldu minni, en skruppum í styttri ferðir med litla bakpoka.  Sú fyrsta var til lítils strandþorps sem heitir Puerto Viejo.

Jólin héldum við hátíðleg á heimili fjölskyldunnar, en jólin i Kosta Ríka eru mikið hógværari en á Íslandi; notaleg kvöldstund þar sem þeir nánustu skiptast á gjöfum. Við Sigríður ákváðum nú samt að kynna foreldrum mínum fyrir möndlugrautarhefðinni og skelltum í einn slíkan að hádegi aðfangadags, en það sem eftir lifði dags vorum við einar heima að baka og horfa á sjónvarpið.

Eldsnemma á jóladagsmorgun tókum við rútu yfir landamærin til Nicaragua, ásamt vini mínum. Við eyddum nokkrum dögum í fallegri borg þar í landi sem heitir Granada og sigldum um stærsta stöðuvatn í Mið-Ameríku, en flýttum okkur aftur til Kosta Ríka þann 29. desember til að mæta í brúðkaup vinkonu minnar.  

Áramótunum fögnuðum við í fjallþorpi í Monteverde, en það er með betri stöðum til að fara í zip lining.

Fyrir þá sem vita ekki hvað það er, þá ertu festur í vír sem er strengdur á milli trjáa, jafnvel yfir gil, og rennir þér á milli, stundum fleiri hundruð metra á miklum hraða. Á leiðinni heim komum við við í heimabæ Maríu vinkonu minnar sem var skiptinemi á sama tíma og ég og var að heimsækja fjölskylduna sína á sama tíma. Þegar kom að því að kveðja Kosta Ríka og byrja að pakka niður fyrir Los Angeles beið mín skemmtilegur glaðningur í bakpokanum mínum. En það var risastór könguló sem við höfðum enga löngun til að hafa með okkur  sem laumufarþega.

Frá Kosta Ríka héldum við til Los Angeles, með stuttri millilendingu í El Salvador.


Við gistum í miðbæ LA, en eyddum mestum tíma í að skoða Hollywood. Við vorum aðeins í fjóra daga í  LA en komumst yfir að skoða allt það helsta svo sem Walk of fame, Hollywood skiltið, TCL Chinese Theatre, Santa Monica og Venice strendurnar. Fjórir stuttir dagar voru fljótir að líða og áður en við vissum af vorum við í flugvél á leiðinni til Fiji eyja. Meira síðar. . .