Fara í efni

Málefni fólks með sérþarfir.


Í þessum litla pistli langar mig að skrifa aðeins um hvernig það var að koma heim í þetta litla samfélag okkar, eftir að líf mitt og allra í kringum mig, tók ansi miklum breytingum. Þann 24.janúar 2010, (á afmælisdegi yngri sonar míns) datt ég ofan í frystilest á skipinu sem ég var á, með þeim afleiðingum að ég hálsbrotnaði, sem varð til þess að ég lamaðist, og varð að allskonar aumingja.

Eftir að hafa verið fimm mánuði á spítala í mjög svo vernduðu umhverfi var komið að því að taka ákvörðum um næstu skref. Allt það fólk sem hafði verið mér innan handar í þessu langa bataferli, læknar, hjúkrunarfræðingar, sálfræðingar, geðlæknar, sjúkraþjálfarar og fleiri og fleiri, fóru að reyna að telja mér trú um að lífið yrði miklu auðveldara ef ég kæmi mér og fjölskyldu minni fyrir í Reykjavík.

En ég er bjartsýnn að eðlisfari og í mínum huga kom það aldrei til greina, ég ætlaði heim í mitt yndislega Lúpínu verndaða samfélag ! Og ég get sagt ykkur það með góðri samvisku að ég sé ekki eftir því.

Fyrstu vikurnar fóru í að ná áttum, en þegar ég frétti af því að það væri komið eitthvað sem kallast VIRK og Gústi (á verkalýðsskrifstofunni) var að vinna við það verkefni, hófst ferli sem er enn þann dag í dag að mótast hægt og rólega. Í framhaldi af því komst ég í samband við fólkið hjá Þekkingarneti Þingeyinga. Þar var ég í tvö ár og útskrifaðist með hugann fullan af hugmyndum og sjálfstrausti og þegar þetta er skrifað er ég að klára mitt fyrsta ár á félagsfræðibraut frá FSH. Starfið sem þar er unnið er stórkostlegt, og vona ég svo sannarlega að það starf fái að dafna og eflast, og ég kem til með að gera mitt allra besta til að svo verði.

Það er rosalega gott starf sem er unnið fyrir fólk með sérþarfir í okkar samfélagi og við þurfum að standa vörð um það starf og ef þetta samfélag á að stækka og blómstra, þurfum við að sjá til þess að fólk með sérþarfir lendi ekki aftur úr, heldur þurfum við að efla það starf og reyna að laða til okkar fólk með sérfræðikunnáttu.

Hreiðar Másson.

Greinarhöfundur er frambjóðandi í 13.sæti á lista Samfylkingar og annars félagshyggjufólks.