Fara í efni

Nokkrar Sveina vísur eftir Jónas Friðrik

Fyrsti sveinn

Í dag er hann Stekkjastaur mættur,
stirðfættur, úfinn og tættur.
Á ferilskrá sést 
að hann fílar sig best 
á kindum – og er ekkert hættur.

 

Annar sveinn

Þó glaðar þær láti sig gilja 
samt Grýluson engan þær vilja. 
Þennan jafnréttisskort 
af sverustu sort 
hann Giljagaur er ekki að skilja.

 

Þriðji sveinn

Þó lipur hann virðist og ljúfur 
er leiðir hann mey bak við þúfur, 
um vonbrigðin þar 
er vitað eitt svar: 
Hann verður og er alltaf Stúfur.

 

Fjórði sveinn

Finnast þeim ljúfastir leikir, 
sem lítt eru í stúlkurnar veikir, 
ef mega í leyni 
leika með sveini 
og það er hann Þvörusleikir.

 

Fimmti sveinn

Sumir þeir verða svo veikir 
í vibbann, að hreinlega kveikir 
velgju í hrinum 
í velflestum hinum, 
eins og naglinn hann Náttpottasleikir.

 

Sjötti sveinn

Fúlustu farsóttir kveikir, 
fólkið í stórhópum veikir, 
svo kærulaus er 
með kjaftinn á sér 
aulinn hann Askasleikir.

 

Jólakisi

Af öllum þeim óhræsis fressum 
er út af við sálina stressum 
er klárlega víst, 
sé ketti rétt lýst, 
að innræti er alverst hjá þessum.

 

Sjöundi sveinn

Kátustu konur oft hrellir 
og karlana onaf þeim fellir, 
með skarki og dyn 
og skrölti og hvin, 
hálfvitinn Hurðaskellir.

 

Leppalúði

Að vera sá lúðinn sem leppar 
lítið upp glaðlyndið peppar. 
Í sífelldri törn 
þig taka í görn 
svikulir fjármálaseppar.

 

 

Áttundi sveinn

 

Skyrgámur er skítlega með hrekki.
Skálka honum líka marga þekki, 
sem ábyrgð ekki bera 
og einkum þetta gera: 
Sletta skyri sem þeir eiga ekki.


 

Níundi sveinn

 

Út í reykhús ráfar Bjúgnakrækir 
í rökkrinu og vænan sperðil sækir. 
Best skal að því gá 
að börn ei nái að sjá 
er tappa þeim sig treður í og skrækir.


Grýla

„Gamlan sauð, þegar gestum við bjóðum, 
geit og kú, oft við steikjum og sjóðum“ 
mælti Grýla og hló, 
„mesta gottið er þó, 
léttsteikt fillet af frekjuskjóðum,“ 

Tíundi sveinn

 

Úti í stiga er perri að príla 
og píur, sem ná ekki að skýla 
gluggum sér hjá, 
gægist hann á. 
Hvurslags uppeldi er þetta, Grýla?


Ellefti sveinn

Hann telur sig meiri þeim mestu 
í mati á listverki flestu. 
Við gátt hverja að þef 
leitar gagnrýnisnef 
og skítalykt finnur af flestu.


 

„Tólfti sveinn

 

Ef fréttir af brúklegum bita 
hann brýst gegn um kafreyk og hita, 
með krók sinn af stað 
til að komast í það, 
sem eigendur ei mega vita.“

 

Þrettándi sveinn

Hann klárlega er kvalinn af því, 
að kerti, jafnt gömul sem ný, 
þráir hann trylltur 
og þágufalls spilltur, 
mjálmandi: „Mér langar í.“