Fara í efni

Rannsóknastöðin Rif, miðstöð vísinda á Melrakkasléttu

Rannsóknastöðin Rif á Raufarhöfn, hefur vaxið og dafnað undafarin ár.  Rif nýtur stuðnings Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis Íslands og sveitarfélagsins Norðurþings, en rekstur hennar er í höndum Náttúrustofu Norðausturlands. Rif er hluti af nærsamfélaginu, og samspil innviða á Raufarhöfn og einstaks náttúrufars Melrakkasléttu skapar mikla möguleika á rannsóknum á vistkerfi norðurslóða og áhrifum þess, t.d. vegna loftslagsbreytinga. Melrakkaslétta er skilgreint heimskautssvæði, það eina í veröldinni sem akstursfært er á. 

Rannsóknastöðin Rif hefur þrjú meginmarkmið:

  • Að stuðla að og efla rannsóknir á náttúrufari Melrakkasléttu, sérstaklega í ljósi skuldbindinga Íslands í samstarfi á norðurslóðum.
  • Að þróa menntaverkefni til að auka þekkingu nærsamfélagsins, sérstaklega ungra nemenda á svæðinu, ásamt því að taka á móti innlendum og erlendum háskólanemum sem hafa áhuga á norðurslóðum og styðja við þróun meistaraverkefna og doktorsritgerða þeirra.
  • Að styðja nærsamfélagið með því að safna og miðla upplýsingum um náttúrufar svæðisins og styðja við náttúrutengda ferðaþjónustu.

Á þessu ári (2025) mun Rannsóknastöðin Rif vinna að meira en 20 mismunandi verkefnum, sum þeirra í samstarfi við innlendar og alþjóðlegar stofnanir, og er áætlað að tæplega 200 manns (rannsakendur, nemendur, gestir) muni heimsækja stöðina og stuðla að efnahagslegri þróun á svæðinu.
Á línuriti hér að neðan má sjá fjölda gesta sem hafa heimsótt Rif frá stofnun hennar árið 2014. 

Rif er þátttakandi í nýju Evrópuverkefni sem kallast POLARIN (Polar Research Infrastructure Network), sem miðar að því að tengja vísindamenn við rannsóknarstöðvar á norðurslóðum og suðurskautslandi, þar á meðal Rif.

Pedro Rodrigues, forstöðumaður Rifs hefur verið búsettur á Raufarhöfn síðan 2021.  Pedro sem er frá Portúgal og er uppalinn á Asoreyjum er menntaður sjávarlíffræðingur og með doktorspróf í erfðarannsóknum og þróun fugla. 

Að sögn Pedro, er eitt áhugaverðasta verkefnið, samstarfi við grunnskólann á Raufarhöfn. Framundan eru vettvangsferðir með nemendum til að skoða og skilja náttúruna og vistfræðilegt mikilvægi Melrakkasléttu.

Áhugasamir eru hvattir til að fylgjast með facebooksíðu Rifs hér: 
Fyrir þá sem vilja kynnast Pedro betur er hér skemmtilegt viðtal við kappann í þættinum Vegur að heiman á RÚV