Fara í efni

Raufarhöfn og framtíðin- veittir styrkir

Á dögunum voru veittir styrkir til verkefna á Raufarhöfn og voru verkefnin fjölbreytt og skemmtileg. 

Verkefnisstjórn bárust tíu umsóknir um styrki vegna jafn margra verkefna í kjölfar auglýsingar á vegum Raufarhafnar og framtíðarinnar. Til ráðstöfunar voru fimm milljónir og úthlutunarreglur í samræmi við verkefnislýsingu Brothættra byggða og verkefnisáætlun Rof. Umsóknir voru metnar útfrá eftirfarandi viðmiðum á skalanum 1-5 og hæsta mögulega einkunn er 100;

  • Fellur vel að skilaboðum íbúaþings og meginmarkmiðum og starfsmarkmiðum verkefnisins
  • Útkoma nýtist sem flestum
  • Trufli ekki samkeppni
  • Leiði til atvinnusköpunar, helst á heilsársgrundvelli
  • Sé líkleg til árangurs og þekking/reynsla sé til staðar
  • Að markaðslegar og/eða rekstrarlegar forsendur séu trúverðugar
  • Áhrifa gæti fyrst og fremst á Raufarhöfn
  • Hvetji til samstarfs og samstöðu
  • Styrkveiting hafi mikil áhrif á framgang verkefnis

Verkefnin sem hlutu styrk eru eftirfarandi og ekki í neinni sérstakri röð.

Óskarsbragginn- Snorri Hilmarsson hlaut styrk til að halda áfram að byggja upp og hanna íverustað fyrir listamenn. Hann er að gera upp gamla síldarverbúð og með þessu fær hann styrk til að halda áfram því góða verki, halda í sögu Raufarhafnar og um leið skapa nýjan flöt fyrir listamenn á svæðinu.
Markmið verkefnis- „Að bjarga sögulega mikilvægu húsi, Óskarsstöð á Raufarhöfn , gera það að staðarprýði og fá því nýtt hlutverk og tilgang. Þar verður komið á fót í hæfilegum skrefum listamiðstöð, gestavinnustofum á alþjóða vísu og aðstöðu til námskeiða og sýningahalds. Eins opið hús og unnt er svo samfélagið nær og fjær njóti góðs af“
Úthlutunarnefnd metur sem svo að um sé að ræða áframhald á vel ígrundaðri og metnaðarfullri vinnu við endurgerð hússins. Verkefnið skoraði yfir meðallagi í samanburði verkefna að þessu sinni.

Hnitbjörg_félagsheimili- Íbúasamtök Raufarhafnar fengu styrk til að styðja við afmælishátíð Hnitbjarga sem verður hálfrar aldar gamalt á árinu.
Markmið verkefnis-„Að halda menningarviðburð á Raufarhöfn í tengslum við 50 ára afmæli Hnitbjarga“, umsækjandi er Íbúasamtök Raufarnafnar“. Að mati úthlutunarnefndar er verkefnið líklegt til að auka samstöðu meðal íbúa og lífga upp á mannlífið. Verkefnið skoraði enn fremur hátt í samanburði verkefna. 

Þjónustusmáforrit- Karítas Ríkharðsdóttir fékk styrk til að þróa smáforrit til að nota í verslunum og annarri þjónustu til að meta þjónustustig. Þetta er til undirbúnings forritsins og vonin er að veita inn í samfélagið meiri breidd þegar kemur að því að nýta tölvutæknina.
Markmið verkefnis-  „Markmiðið er að greina og teikna upp smáforrit fyrir örþjónustuaðila.“. Úthlutunarnefnd fagnar frumkvæði og framtaki umsækjanda er varðar nýsköpun.

Hoppað um Heimskautsbaug- Einar Skúlason sem rekur Wapp smáforritið hlaut styrk til útbúa gönguleið með hnitum sem heimskautsbaugur hefur hoppað á. Búið var að vinna hnitin og setja upp í aðgengilegt form. Þetta verkefni verður til þess að fleiri geta komist að því hvert ferðalag  heimskautsbaugs hefur verið og vonandi opnað á möguleika í nýtingu í ferðaþjónustu.
Markmið verkefnis-  „....að velja tuttugu ártöl fyrir staðsetningu norðurheimsskautsbaugsins á mismunandi tímum og útbúa fróðleik um hvert og eitt ártal með gagnasöfnun og viðtölum. Tengja svo á milli fyrrnefndra ártala og útbúa GPS leið til útgáfu í Wappinu sem hægt er að fara með bíl, á hestbaki, reiðhjóli eða á tveimur jafnfljótum. Velja þær tíu staðsetningar sem sem henta best fyrir skilti og skilgreina þann fróðleik sem fer á þau. Fullklára texta á íslensku og þýða á ensku – bæði fyrir Wapp leið og fyrir skiltin. Gefa út leiðina í Wappinu.“
Að mati úthlutunarnefndar fellur verkefnið vel að fyrri hugmyndum um nýtingu heimskautsbaugsins og jafnframt að markmiðum um uppbyggingu Raufarhafnar sem áfangastaðar.

Rif Rannsóknarmiðstöð- Fengu styrk til að byggja upp aðstöðu í Grunnskólanum á Raufarhöfn sem bæði vísindafólk og nemendur geta nýtt.
Markmið verkefnis- „... er að byggja upp rannsóknaaðstöðu til grunnúrvinnslu sýna og gagna sem nýtast mun fyrir þá vísindamenn sem leggja stund á rannsóknir á Melrakkasléttu á vegum Rannsóknastöðvarinnar Rifs. Afraksturinn styrkir starfsemi Rifs og eykur fjölbreytni og gæði þeirra rannsókna- og vöktunarverkefna er stunda má á rannsóknasvæði stöðvarinnar. Ætlunin er að byggja aðstöðuna upp í Grunnskóla Raufarhafnar í samráði við skólastjórnendur og fræðslunefnd Norðurþings. Aðstaðan mun því einnig nýtast kennurum og nemendum innan og utan skólans við kennslu í umhverfisfræði, náttúruvísindum og raungreinum. Þá mun verkefnið greiða fyrir auknu samstarfi stöðvarinnar og Þekkingarnets Þingeyinga sem hefur aðstöðu í sama húsi.“.
Spennandi verkefni sem þykir hafa mikið gildi fyrir framtíðaruppbyggingu samfélagsins á Raufarhöfn. 

Höfði_Heimasíða- Ábúendur á Höfða fengu styrk til að setja af stað heimasíðu í tengslum við heimavinnslu sem fór af stað í fyrra. Svona framtak ýtir undir fjölbreyttari atvinnu á svæðinu en nýtir um leið það sem er til staðar.
„Markmiðið er að vinna kjötafurðir heima og selja beint frá býli. Þetta er upphafið en í komandi framtíð sjáum við fyrir okkur að vinna heima stóran hluta af okkar kjöti og selja það sjálf. Til stendur að byggja íbúðarhús og hafa hluta þess húsnæði fyrir heima-vinnslu. Einnig ætlum við að smíða reykhús sem uppfyllir staðla og gefur okkur leyfi til að vinna sjálf og reykja hangikjöt sem við ætlum okkur að selja. Til að byrja með ætlum við okkur að láta hanna og gera heimasíðu þar sem hægt verður að fylgjast með öllu sem fram fer í búskapnum, fræðast um heimilisfólkið og panta kjöt.“.
Úthlutunarnefnd fagnar framtaki í atvinnusköpun.

Ferðafélagið Norðurslóð- Félagið hlaut styrk til að stika gönguleið frá Heimskautsgerðinu og út þorpið upp á hæðinni. Það er afar brýnt verkefni þar sem það er hluti af ferðaþjónustu að efla aðgengi íbúa og gesta að gönguleiðum.
Markmið verkefnis- „Ætlunin er að merkja og bæta gönguleið frá Heimskautsgerðinu á Melrakkaási yfir á stíg fyrir ofan þorpið á Raufarhöfn. Einnig frá þeim stað þar sem göngustígurinn endar við aðalveg sunnan við þorpið, áfram niður að sjó og aftur inn í þorpið. Þannig verði til góður hringur eða hringir sem tengir saman göngu upp að vitanum, hring um höfðann, þaðan að Heimskautsgerði, yfir á ásinn yfir þorpinu, yfir veginn alveg niður að sjó og meðfram sjónum inn í þorpið aftur“.
Vel afmarkað verkefni sem uppfyllir vel skilyrðin. 

Örnefni á Raufarhöfn- Menningarfélagið Urðarbrunnur hefur verið á síðustu árum verið að vinna að því að setja örnefni inn í grunn Landmælinga, http://ornefnasja.lmi.is/ í Þingeyjarsýslum. Sett eru nn örnefni á réttum hnitum og lýsing með hverju og einu. Unnið er í miklu samstarfi við heimamenn til að bjarga sögum og skýrinum tengdum örnefnunum.
Markmið verkefnis- „Staðsetning á örnefnum í gagnagrunn Landmælinga Ísland og bjarga með því ómetanlegum menningarverðmætum frá glötun, ásamt því að skapa ný tækifæri til þess að mæta eftirspurn eftir menningartengdri ferða-þjónustu.“
Fordæmi eru fyrir því í Brothættum byggðum að styrkja sambærileg verkefni. Munu aðstandendur verkefnis vinna náið með Níels Lund sem öllum Raufarhafnarbúum er vel kunnugur en hann hefur nú þegar staðsett mörg örnefni.

Þjóðlist og dans frá Noregi - Þjóðlist  ehf. sótti um styrk til að kynna norska tónlist og dans fyrir Raufarhafnarbúum. „Markmið verkefnisins er að kynna norska þjóðlagatónlist og þjóðdansa fyrir skólakrökkum og almenningi í Þingeyjarsýslu með sérstaka áherslu á danstónlist fyrir fiðlu og harmoniku í Noregi. Það er von verkefnisstjóra að heimsókn Norsku listamannanna dragi fram í dagsljósið frændsemi þjóðanna með því að benda á sameiginlegan tónlistararf og verði lyftistöng fyrir þessa gamalgrónu tónlist í Þingeyjarsýslu“.
Úthlutunarnefnd telur verkefnið líklegt til að auðga menningarstarf á Raufarhöfn.

Raufarhöfn.net (ROF-2017-010)- Jónas  Hreinsson hefur í mörg ár safnað saman myndum og greinum frá Raufarhöfn og er safnið orðið ómælanleg uppspretta sögu og er mikils virði.
Markmið: „Verkefnið felst í því að nota næstu þrjá mánuði til að skrá betur og skipuleggja myndasafn sem umsækjandi hefur verið að safna saman á raufarhofn.net undanfarin tíu ár. Mikilvægt er að þetta sé aðgengilegt og í dag er hægt að leita eftir viðfangi en umsækjandi vill gera þetta enn aðgengilegra og er það gert með betri skráningu. Það hefur gríðarlega þýðingu fyrir svæðið að eiga aðgengilegt og viðamikið ljósmyndsafn bæði upp á sögu svæðisins sem og heimildir um fyrri tíma“.
Að mati úthlutunarnefndar er verkefnið metnaðarfullt skref og framlag til að varðveita menningararf Raufarhafnar.

 

Óskar verkefnastjórn og verkefnastjóri styrkhöfum innilega til lukku og við hlökkum til að fylgjast með verkefnunum þróast 😊

 

Góðar stundir,

Silja