Fara í efni

Samgönguráðstefna Norðurhjara

Samgönguráðstefna Norðurhjara:

Samskipti, samfélag og þróun

Mikilvægi bættra samgangna kom skýrt fram í máli frummælenda og gesta á samgönguráðstefnu Norðurhjara, ferðaþjónustusamtaka nú í lok september. Ráðstefnan, var haldin í Skúlagarði í Kelduhverfi og var fjölsótt af ferðaþjónustuaðilum, sveitarstjórnarfólki, íbúum svæðisins og aðliggjandi svæða, þingmönnum kjördæmisins, starfsfólki stoðkerfisins og fleirum. Starfssvæði Norðurhjara er frá Kelduhverfi austur á Bakkafjörð.

Allir lögðu þunga áherslu á og viðurkenndu nauðsyn þess að vegi 862 frá Ásbyrgi upp að Dettifossi yrði lokið og þannig komið á tengingu við þjóðveg 1 ogMývatnssveit. Það gerir svokallaðan Demantshring greiðfæran, en slíkar hringleiðir eru  mjög mikilvægar í ferðamennsku. Vegurinn er líka öryggismál fyrir ferðamenn og íbúa, og um leið byggðaþróunarmál. Ávinningurinn af veginum verður mikill og margþættur, en óvissa ríkir um síðasta kaflann í tengingunni.

Á sama hátt er mikilvægt að leggja bundið slitlag á veginn yfir Brekknaheiði og á Langanesströnd en það eru einu kaflarnir á norðausturvegi 85 sem vantar bundið slitlag. Auk þess að tengja saman byggðirnar á Þórshöfn og Bakkafjörð liggja miklir möguleikar í þeirri hringleið (Mývatn, Vopnafjörður, Þórshöfn, (Raufarhöfn), Hófaskarð, Kópasker, Húsavík).

Þá má nefna veginn út að Rauðanúpi og fyrir Sléttu sem ferðamenn nota í vaxandi mæli, en er afar slæmur af viðhaldsleysi.

Einnig var rætt um efnahagslegan ávinning samgangna, forgangsröðun, ódýrari hönnun í vegagerð, viðhald, snjómokstur, rannsóknir ferðamála, flugsamgöngur, netsamband og jafnvel rafmagn á svæðinu, og margt fleira.

Framsögumenn voru Gunnar Jóhannesson formaður Norðurhjara, Kristján Þór Magnússon sveitarstjóri Norðurþings, Jón Þorvaldur Heiðarsson lektor við Háskólann á Akureyri, Hreinn Haraldsson forstjóri Vegagerðarinnar og Höskuldur Þórhallsson formaður umhverfis- og samgöngunefndar.

Norðurhjari þakkar frummlendum og ráðstefnugestum fyrir komuna og góðar umræður. Með ráðstefnunni og aukinni umræðu um samgöngur á svæðinu vonast Norðurhjari til að vekja athygli á nauðsyn úrbóta í þessum efnum, þar sem samgöngur hafa mikil áhrif á þróun byggðar og atvinnuvega. 

Sú mikla fjölgun ferðamanna sem orðið hefur á landinu síðustu  ár hefur ekki skilað sér í sama mæli á svæði Norðurhjara. Rannsóknir sýna hrópandi mismun á milli staða innan Þingeyjarsýslu í aðsókn ferðamanna, þar sem Norðurhjarasvæðið fer halloka. Þar hafa samgöngur mikið að segja.