Fara í efni

Síðasta kvöldmáltíðin á Raufarhöfn

Síðasta kvöldmáltíðin á Raufarhöfn

Fyrir nokkrum mánuðum fékk ég furðulegt símtal. Þar var kona á hinum endanum að reyna að útskýra fyrir ómenningarvitanum mér eitthvað um þátttökulistaverk. Hún og ein önnur hefðu fengið styrk til að útbúa listaverk sem felst í upplifun þátttakandans. Þetta yrði framkvæmt á fjórum stöðum á landinu á sama tíma, á skírdag. Einhverra hluta vegna höfðu þær valið Raufarhöfn.

Í fyrstu var ég með augastað á styrknum enda alltaf gott að fá pening í verkefni á svæðinu. Því næst hugsaði ég um jákvæða umfjöllun sem Raufarhöfn myndi fá með því að taka þátt í verkefninu.

Aldrei hefði mig órað fyrir öllu hinu sem þetta myndi færa mér. Að upplifa það þegar hópur tekur sig saman og lætur eitthvað verða að veruleika. Að sjá gesti koma úr verkinu greinilega hrærða og uppnumda af því. Að fá að kynnast þessu frábæra listafólki sem að þessu stóð. Miklu stærra en allt annað sem ég hélt ég hugsanlega fengi út úr þessu.

Steinunn Knútsdóttir, Rebekka Ingimundardóttir og Hallur Ingólfsson voru listrænir stjórnendur og Gréta Kristín Ómarsdóttir aðstoðaði þau við alla framkvæmd. Þetta fólk á hrós skilið fyrir að ýta á fólk að fara út fyrir rammann og upplifa listaverk af svona tagi.

Þau mættu á Raufarhöfn fyrir nokkrum vikum, skimuðu bæinn og tóku viðtal við nokkra Raufarhafnarbúa, bæði gamla, unga og nýja. Úr þessu urðu þrettán stöðvar víðsvegar um þorpið sem að gestir verksins fóru í gegnum. Stöðvarnar tóku mið af því sem kom út úr viðtölum en einnig var ákveðinn rammi sem var fylgt á öllum fjórum stöðunum. Það skráðu sig 15 gestir og virtist almenn ánægja með verkið.

Hægt er að sjá ferðalagið í myndum hér.

Ég vil þakka öllum sem aðstoðuðu við að þetta yrði að veruleika og þó sérstaklega leiðsögumönnunum, Helga Óla, Ásdís Thoroddsen, Pétri hennar manni og Sigrúnu Árnadóttur. Þetta hefði klárlega ekki gerst án ykkar. Áfram Raufarhöfn.  

Takk fyrir mig, það var heiður að fá að verkefnastýra þessu hér á Raufarhöfn. Silja Jóhannesdóttir