Fara í efni

Tækifærin á Bakka eru tækifæri fyrir landið allt !

Þrátt fyrir að við höfum fengið slæmar fréttir af atvinnumálum í Norðurþingi nýverið vegna brott-flutnings Vísis frá Húsavík tel ég að ástæða sé til bjartsýni í atvinnumálum sveitarfélagsins þegar horft er til lengri tíma. Á Bakka eru framundan talsverðar framkvæmdir sem munu skila fjölda starfa inn í samfélagið. Verkefnið á sér langan aðdraganda með aðkomu margra sem er að skila okkur góðri niðurstöðu.

 

Ferlið opnað

Þegar okkur varð ljóst í tíð minni sem iðnaðarráðherra að Alcoa væri ekki að fara að hefja upp-byggingu á Bakka í nánustu framtíð ákváðum við að breyta ferlinu. Breytingin fólst í því að í stað þess að eitt fyrirtæki hefði einkasamning við ríkið um uppbyggingu á Bakka þá var ferlið opnað þannig að aðrir fengju sama tækifæri til að nýta orkuna sem í nágrenninu finnst til að skapa störf í sveitarfélaginu og nágrenni þess. Ferlið var opnað uppá gátt en staðreyndin er engu að síður sú að Alcoa hafði talsvert forskot á önnur fyrirtæki vegna stöðu sinnar á svæðinu eftir margra ára einkasamning við ríki og sveitarfélag. Þannig var ekki brugðið fyrir þá fæti heldur þeim gerð grein fyrir óþoli okkar gagnvart áralangri biðstöðu. Ég tel þessa ákvörðun hafa verið rétta því skömmu síðar staðfesti forstjóri Landsvirkjunar að fyrirtækið ætti ekki í viðræðum við Alcoa um orkukaup. Alls óvíst var því hvort þeir myndu byggja atvinnustarfsemi á svæðinu yfirleitt.

 

Ríkið tilbúið

Eftir að ferlið var opnað kom í ljós að þónokkur fyrirtæki höfðu áhuga á að byggja upp atvinnu-starfsemi á svæðinu. Landsvirkjun hefur jafnframt lagt aðaláherslu á orkusölusamninga inn á þetta svæði. Við settum af stað samráðsnefnd sveitarfélaganna fyrir norðan og ríkis sem skilaði okkur mikilvægri niðurstöðu. Í framhaldi af því var samþykkt frumvarp um stuðning ríkisins við uppbyggingu hafnaraðstöðu og vegalagningar í tengslum við atvinnuuppbyggingu. Ríkið er því tilbúið áður en framkvæmdir hefjast sem má segja að sé nokkuð nýmæli því oftar en ekki hefur í gegnum tíðina þurft að bíða eftir ríkisvaldinu. Þá sögu þekkja margir og verður hún ekki rakin hér.

 

Samstaða um framhaldið

Framundan er því langþráð uppbygging. Ekki bara langþráð fyrir sveitarfélögin á svæðinu heldur landið allt. Bakki hefur alla burði til að stækka sem iðnaðarsvæði á næstu árum. Það er nefnilega gott fyrir landið allt því í fyrsta lagi þarfnast þjóðarbúskapurinn aukinna fjárfestinga og í öðru lagi vegna þess að það er óskemmtilegt og óspennandi að horfa uppá landið sitt sporðreisast og verða að borgríki. Við þurfum sterka atvinnukjarna víðar um land en í nágrenni höfuðborgarsvæðisins og Bakki er tilvalinn sem einn slíkra. Samhliða nýrri atvinnuuppbyggingu verður jafnframt að huga að vexti þeirra atvinnugreina sem fyrir eru líkt og ferðaþjónustunni sem og nýrra tækifæra á sviði nýsköpunar Öflug atvinnuuppbygging í Norðurþingi er frábær fyrir sveitarfélagið um leið og það gerir Ísland allt sterkar. Verk okkar Samfylkingarmanna sýna að við höfum af einlægni stutt þessa uppbyggingu hingað til og munum við áfram leggja okkar af mörkum til hennar.

 

 

Katrín Júlíusdóttir,

varaformaður Samfylkingarinnar og fv. iðnaðarráðherra