Fara í efni

Við þurfum á öllu okkar fólki að halda

Ég er íbúi í Norðurþingi og vermi jafnframt 10. sæti hjá Samfylkingunni og öðru félagshyggjufólki í komandi sveitastjórnarkosningum. Af hverju? Jú, hér vil ég vera og leggja mitt af mörkum til að byggja upp gott og frambærilegt samfélag sem eftirsóknarvert er að búa í. Það eru sjö ár síðan ég flutti aftur heim eftir námsárin mín í Reykjavík. Ég flutti heim af því að ég fékk tækifæri hjá Þekkingarneti Þingeyinga til að starfa við það sem ég menntaði mig við og  hef unnið þar í sjö ánægjuleg og lærdómsrík ár með frábæru fólki.

Með þessum pistli vil ég vekja athygli á mikilvægi Þekkingarnets Þingeyinga í samfélagi okkar. Ekki bara af því að það er vinnustaðurinn minn og mér þykir vænt um hann, heldur líka vegna þess að Þekkingarnetið hefur gert íbúum sveitarfélagsins kleift að stunda nám í heimabyggð.

Þekkingarnetið hefur á síðustu 10 árum unnið markvisst að því að skapa aðstæður fyrir einstaklinga í samfélaginu sem vilja ná sér í aukna þekkingu á hvaða sviði sem er. Þar fer fram ýmisskonar óformleg menntun á sviði námskeiða og vottaðra námsleiða frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins sem margir nýta sér til að bæta þekkingu og hæfni  á ákveðnum sviðum. Slík menntun styrkir einstaklingana og sam-félagið í heild sinni  og eykur jafnframt menntunarstigið á svæðinu. Með góðri samvinnu við íbúa í sveitarfélaginu hefur tekist að halda uppi fjölbreyttu og skemmtilegu námskeiðahaldi yfir vetrar-tímann og fer fjöldi nemenda ört vaxandi ár frá ári.

Þekkingarnetið hefur einnig byggt upp öflug námsver sem dreifast um sveitarfélagið og gera einstaklingum kleift að stunda nám í heimabyggð. Námsverin eru útbúin fjarfundabúnaði og net-tengingu sem nemendur geta nýtt sér á meðan námi stendur auk þess sem þeir geta tekið þar öll próf, bæði miðannar- og lokapróf. Nemendum sem stunda háskólanám í fjarnámi fer ört fjölgandi  og er það mjög ánægjuleg þróun fyrir svona lítið sveitarfélag eins og Norðurþing þar sem hver einstaklingur skiptir máli.  Námsverin eru því mjög dýrmæt samfélaginu og ber að standa vörð um, því við getum ekki gert ráð fyrir því að allt það fólk sem við missum frá okkur í nám flytji aftur til baka. Við þurfum á öllu okkar fólki að halda.

Erla Dögg Ásgeirsdóttir,

höfundur skipar 10.sæti á lista Samfylkingar og annars félagshyggjufólks í Norðurþingi.