Fara í efni

Háskólanemar í tónlist ljúka tónleikaröðinni Sumarklassík í Safnahúsinu

Sumarklassík í Safnahúsinu á Húsavík er ný tónleikaröð sem tónlistarkonan Lára Sóley Jóhannsdóttir hefur staðið fyrir í sumar í samstarfi við Menningarmiðstöð Þingeyinga. Á síðustu tónleikum tónleikaraðarinnar þetta sumarið koma fram harmóníkuleikarinn Ásta Soffía Þorgeirsdóttir og gítarleikarinn Brynjar Friðrik Pétursson, en þau eru bæði frá Húsavík. Tónleikarnir fara fram miðvikudaginn 17. ágúst og hefjast kl. 20.00.

Ásta og Brynjar stunda um þessar mundir tónlistarnám á háskólastigi, Ásta í Noregi, en Brynjar í Reykjavík. Á tónleikunum flytja þau verk eftir tónskáldin Lohse, Tobe, Siemionow, Villa-Lobos, Tárrega, Torroba og Bach.

Ásta Soffía Þorgeirsdóttir hóf nám á harmóníku átta ára gömul við Tónlistarskóla Húsavíkur. Eftir grunnskóla fór hún til náms til Reykjavíkur þar sem hún var einn vetur í námi við Tónlistarskóla FÍH. Seinni tvo veturna stundaði hún tónlistarnám við Listaháskóla Íslands og útskrifaðist þaðan með diplómagráðu vorið 2014. Frá haustinu 2014 hefur Ásta Soffía stundað Bachelornám í klassískum harmóníkuleik við Norges musikkhøgskole undir leiðsögn Erik Bergene og Frode Haltli.

Brynjar Friðrik Pétursson hóf nám í Tónlistarskólanum á Húsavík átta ára gamall og kláraði þar miðpróf. Eftir miðprófið færði Brynjar sig um set yfir í Tónlistarskólann á Akureyri og kláraði þar framhaldspróf í klassískum gítarleik vorið 2015. Hann stundar nú nám í Listaháskóla Íslands og stefnir á að klára Bachelor gráðuna vorið 2018. 

Miðaverð er kr. 2000  og er tónleikaröðin er styrkt af Uppbyggingasjóði Norðurlands Eystra og Norðurþingi.