Fara í efni

Orðsending til ungmenna í Vinnuskóla á Húsavík

Sú breyting verður á að við verðum ekki lengur með aldursskipt vinnutímabil fyrir þá nemendur sem sækja vinnuskólann á Húsavík heldur bjóðum við öllum nemendum upp á að skipta sínum vinnutíma eins og þeim hentar. Boðið verður upp á vinnu frá 08:00-12:00 alla virka daga á tímabilinu 20. júní - 29. júlí. Krakkarnir hafa þó mismikinn vinnukvóta sem þeim stendur til boða, líkt og fyrri ár.
Eldri hópurinn, fæddur 2001, getur unnið allt að 100 klst á þessu tímabili (samsvarar 5 vikum) á meðan sá yngri, fæddur 2002, getur unnið allt að 80 klst (samsvarar 4 vikum).

 

Ástæðan fyrir þessum breytingum frá fyrra skipulagi er tvíþætt. Annarsvegar erum við að bregðast við fækkun nemenda í vinnuskólanum miðað við fyrri ár og viljum þá frekar halda í stærri hóp heldur en tvo minni. Það er vegna fræðslu- og félagsþátta en vinnuskólinn, eða skapandi sumarstörf eins og við höfum frekar viljað kalla hann, er fyrst og fremst hluti af uppbyggilegu æskulýðs- og félagsstarfi og viljum við halda honum sem slíkum. Hinsvegar þá viljum við með þessu móti koma til móts við mismunandi óskir nemenda og foreldra um sveigjanlegt vinnutímabil (t.d. vegna sumarleyfa) og teljum að með þessu þá geti nemendur skipulagt vinnutíma sinn eins og þeim hentar í samráði við foreldra og flokkstjóra. Því var ákveðið að fresta opnun vinnuskólans um viku og við vonum svo sannarlega að það komi engum illa. Tilkynna þarf um frí með minnst dagsfyrirvara en annars gerum við ráð fyrir að nemandi ætli að mæta í vinnu, nema þá að sjálfsögðu að um veikindi sé að ræða. Það er auðvelt fyrir krakkana og ykkur að tilkynna hvenær þeir ætla að nýta sér vinnuréttinn sinn: hægt er að senda tölvupóst, hringja, senda sms eða hafa samband við flokkstjóra á samfélagsmiðlum. Ykkur er svo að sjálfsögðu alltaf velkomið að hafa samband með spurningar eða athugasemdir!

Varðandi þá nemendur sem koma til með að vera í öðrum störfum í samstarfi við vinnuskólann þá mun starfsmaður Túns hafa samband við þá eða forráðamenn þeirra sérstaklega varðandi vinnusamkomulag, tímaskýrslur og fræðsluskyldu.

Við starfsmenn Túns erum gríðarlega spenntir fyrir sumrinu og hlökkum mikið til að vinna með krökkunum ykkar. Eftir að hafa sent út könnun meðal krakka á aldrinum 14-18 ára þá kom í ljós mikill vilji til þess að hafa Tún opið sem félagsmiðstöð í sumar og munum við reyna að koma til móts við það af fremsta megni. Listamenn verða virkir við vinnu í húsinu, fyrirlesarar og fræðarar bíða í röðum eftir að fá að kynna sitt efni fyrir bæjarbúum og svo er alltaf huggulegt þegar heimamenn mæta í lautartúr í garðinum okkar. Það er allavega klárt mál að þetta sumar verður stórskemmtilegt.

Hlökkum til að sjá krakkana frá 20. júní. 
Með kærri kveðju og von um gott samstarf,
Aðalbjörn og Kári,

Flokkstjórar