Fara í efni

Heimskautsgerðið gríðarlegur segull.

Árið 2016 hófst samstaf, Heimskautsgerðisins, Norðurþings og SSNE (áður Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga) við Rögnvald Ólafsson og Gyðu Þórhallsdóttur (Háskóla Íslands) á talningu gesta við Heimskautsgerðið. Sú talning varði þá bara nokkra mánuði en hófst að nýju í júní 2019 og hefur haldist síðan.
Búnaðurinn sem notaður er er sjálfvirkur og telur bíla sem keyra framhjá, sérstök reikningsformúla er notuð til að áætla fjölda gesta og því eru tölurnar ekki 100 % en gefa góða mynd. Samskonar búnaður er notaður á mörgum ferðamannastöðum íslands, sem og erlendis. Hér má sjá helstu tölur um gesti: notast er við tölur um fjölda gesta í stað fjölda bifreiða.

Heimskautsgerðið á Raufarhöfn hefur verið í byggingarferli um árabil, auk sýnilegrar vinnu við gerðið sjálft hefur verið unnið gríðarmikið með hugmyndarfræðina, deiliskipulag og allt umhverfi í kringum Heimskautsgerðið. Stjórn Heimskautsgerðisins á miklar þakkir skilið fyrir sína gríðarlegu vinnu síðastliðin áratug og hefur hún í samstarfi við fleiri séð til þess að Gerðið heldur áfram að byggjast upp sem mikilvægur áfangastaður á svæðinu.

Heimskautsgerðið er einstakt á heimsvísu, stórbrotið nútímaverk sem sprottið er upp úr vangaveltum Erlings Thoroddsen um hvernig hægt er að virkja endalausa víðáttu, þar sem ekkert skyggir á sjóndeildarhringinn, heimskautsbirtuna og miðnætursólina. Inn í þessar vangaveltur kom upp hugmyndin að nota dvergatal Völuspár og Snorra Eddu og dusta rykið af fornum sagnaheimi og færa til nútíðar. Utan um þennan hugarheim rís Heimskautsgerðið á Melrakkaási við Raufarhöfn. Haukur Halldórsson listamaður kom að málum árið 2000 og saman unnu þeir Erlingur að hugmyndinni þar til hún tók á sig endanlega mynd og var kynnt á Menningardögum á Raufarhöfn árið 2003. Haukur gerði m.a. skissur og líkan sem stuðst er við.

Heimskautsgerðið er byggt þannig að sex metra há hlið vísa til höfuðáttanna og verða fjórir skúlptúrar inni í gerðinu, hver með sínu sniði og að lokum er árhringur dverganna sem er 50 m í þvermál. Jónas Friðrik Guðnason var fengin til að útbúa vísur um dverganna og getur hver og einn fundið sinn dverg út frá vikutali.

Mikið verk er að baki en miklu er ennþá ólokið. Í dag er að störfum starfshópur, en í honum eru Nanna Höskuldsdóttir starfsmaður SSNE, Katrín Sigurjónsdóttir sveitastjóri Norðurþings, Reynir Þorsteinsson íbúi á Raufarhöfn og Gunnar Jóhannsson úr stjórn Heimskautsgerðisins, markmið þessa hóps er að einblína á fjármögnun og allt kapp lagt á að klára verkið á næstu 2-3 árum

Fullklárað Heimskautsgerði með tilheyrandi umfjöllun og auknum ferðamannastraum inn á svæðið munu hafa gríðarlega jákvæð áhrif fyrir Raufarhöfn og allt Norð-austurland, sér í lagi svæðið frá Kelduhverfi og austur á Vopnafjörð sem munu án efa eflast.

Fjöldi ferðamanna, sem kemur gagngert til að skoða verkið, eykst ár frá ári, þrátt fyrir að verkefnið sé enn óklárað. Í áfangastaðaáætlun Norðurlands er Heimskautsgerðið á forgangslista, það er því mat tengdra aðila á svæðinu að það eigi að leggja áherslu á að klára uppbyggingu Heimskautsgerðis. Verkefnið hefur fengið styrki úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða, frá sveitarfélaginu Norðurþingi, úr Uppbyggingarsjóði Norðurlands-eystra og fleirum opinberum sjóðum. Nú í lok árs 2022 fékkst framlag á fjárlögum 2023 að upphæð 20.000.000 kr. Beðið er svara úr öðrum sjóðum fyrir úthlutun 2023.