Fara í efni

Sumarkveðja frá sveitarstjóra

Vorið kom með látum hér í Norðurþingi um síðustu helgi, snjórinn á hröðu undanhaldi og vonandi að góða veðrið sé komið til að vera. Við eigum það inni að fá ekta norðlenskt sumar þar sem hitatölurnar eru hæstar í Þingeyjarsýslu.

Það er margt að gerast í Norðurþingi þessa dagana. Framkvæmdasviðið og Orkuveitan eru að undirbúa framkvæmdir sumarsins. Í eignasjóði fer mikið fé í gatnaframkvæmdir og viðhald gatna, ný slökkvibifreið er væntanleg í maí, verið er að hanna nýtt hús fyrir Frístund barna og félagsmiðstöð, standsetja endurvinnslustöðvar á austursvæðinu, málning grunnskólans á Raufarhöfn, uppbygging tjaldsvæðisaðstöðu á Húsavík, viðhald leikvalla, körfuboltavöllur við Borgarhólsskóla og viðgerðir á snjóbræðslukerfi svo einhver dæmi séu tekin. Þá er gert ráð fyrir að Hafnasjóður fjárfesti í nýjum dráttarbát, Orkuveitan er m.a. með endurnýjun á lögn í Reykjahverfi, nýlagnir í Reitnum, endurnýjun lagna í Höfðanum og jarðhitaleit í Húsavíkurlandi.

Ársreikningur 2023 fer í síðari umræðu í sveitarstjórn 2. maí. Niðurstaðan er vel ásættanleg m.v. síðustu ár. Heilt yfir er reksturinn heldur betri og skilar ívið meiri rekstrarafgangi en árið 2022. Aðalsjóður skilar rúmlega 190 m.kr. jákvæðri rekstrarniðurstöðu og samstæðan, A- og B- hluti saman, skilar tæplega 195 m.kr. Ársreikningurinn verður birtur að lokinni síðari umræðu.

Mannlíf og menningarlíf er í miklum blóma. Tónlistarhátíðin HnoðRi var haldin um páskana og tókst með ágætum. Leikfélagið hefur lokið sýningum á Óvitum og var aðsókn prýðileg. Unnsteinn læknir er með skemmtilega mánaðarlega tónleika með gestum. Í Safnahúsinu er mjög flott sýning í gangi með handverkskonum úr heimabyggð, Huldulönd. Sala á stórtónleika í Heimskautsgerðinu með Skálmöld 7. september er í fullum gangi. Opið er fyrir umsóknir um nafnbótina Listamaður Norðurþings til 15. maí nk. Listamaður Norðurþings skal vera reiðubúinn að vinna með menningarfulltrúa sveitarfélagsins að því að efla áhuga á list og listsköpun í sveitarfélaginu og taka þátt í viðburðum samfélagsins með það að leiðarljósi. Verið er að undirbúa hátíð á 17. júní en í ár eru 80 ár liðin frá stofnun lýðveldisins Íslands.

Atvinnulífið er að mestu leyti í góðum gír, þó berast fréttir af skertum flugsamgöngum og breyttri eða skertri þjónustu nokkurra fyrirtækja, það er miður. Það minnir okkur á mikilvægi þess að versla í heimabyggð. Ef við erum ekki til staðar fyrir fyrirtækin okkar þá verða þau ekki til staðar fyrir okkur þegar á þarf að halda. PCC hefur verið að keyra á fullum afköstum frá áramótum og það skiptir miklu máli fyrir sveitarfélagið. GPG er í mikilli uppbyggingu og gaman að fylgjast með framkvæmdum þar. Nýja blokkin í Útgarði er að taka á sig endanlega mynd.

Ferðaþjónustan er komin á fullt, mikil aðsókn í hvalaskoðun og veitingastaðirnir eru að opna einn af öðrum eftir mismunandi miklar lokanir í vetur. Sjóböðin eru vel sótt þessa dagana enda einstakt að upplifa sólsetur í sæ í því dásamlega umhverfi. Mikil uppbygging er í landeldinu í Öxarfirði og styrkjaverkefnið um nýtt hlutverk fyrir Lýsistankana á Raufarhöfn er á góðri siglingu. Helst hefur skort á íbúðarhúsnæði en sveitarfélagið er að vinna deiliskipulög fyrir ný og breytt íbúðasvæði til að standa sína plikt við að útvega lóðir til uppbyggingar.

Heilt yfir má segja að við hér í Norðurþingi búum við velsæld, öryggi og hamingju. Því horfum við björtum augum fram á veg á sumardaginn fyrsta.

Gleðilegt sumar!

Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri