Fara í efni

Byggðarráð Norðurþings

268. fundur 17. október 2018 kl. 08:35 - 12:13 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Nefndarmenn
  • Óli Halldórsson formaður
  • Kristján Þór Magnússon
  • Helena Eydís Ingólfsdóttir varaformaður
  • Bergur Elías Ágústsson aðalmaður
  • Silja Jóhannesdóttir áheyrnarfulltrúi
  • Guðbjartur Ellert Jónsson áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Drífa Valdimarsdóttir
Fundargerð ritaði: Drífa Valdimarsdóttir fjármálastjóri
Dagskrá
Guðbjartur Ellert Jónsson tók þátt í fundinum í gegnum síma.

1.Vegagerðin, áframhaldandi þjónusta vegna Húsavíkurhöfðagagna

Málsnúmer 201810064Vakta málsnúmer

Þann 8. október barst sveitarstjóra tölvupóstur frá forstjóra Vegagerðarinnar þess efnis að hennar stofnun væri það óheimilt að þjónusta Húsavíkurhöfðagöng af opinberu fé þar sem þau væru ekki á forræði Vegagerðarinnar, ekki hefði verið áætlað fyrir þjónustunni á fjárlögum og þessvegna yrði afskiptum af göngunum hætt frá og með 1. nóvember n.k.
Að mati byggðarráðs er uppi alvarleg staða þar sem ekki er búið að tryggja rekstrarframlag til jarðganganna gegnum Húsavíkurhöfða, sem mun hafa ófyrirséðar afleiðingar í för með sér gagnvart þeim fyrirtækjum sem um þau þurfa að ferðast með hráefni til og frá iðnaðarsvæðinu á Bakka. Ljóst má þykja að sveitarfélagið Norðurþing mun ekki taka að sér rekstur og viðhald jarðganga gegnum Húsavíkurhöfða, enda er það ekki hlutverk sveitarfélagsins, heldur ríkisins skv. því uppleggi sem legið hefur fyrir frá því ákvörðun um framkvæmd þeirra var tekin. Byggðarráð Norðurþings skorar á atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og fjármálaráðuneytið að ganga frá málinu hið snarsta svo íslenskt vetrarveður fari ekki að hamla nauðsynlegum samgöngum gegnum göngin með ærnum kostnaði fyrir fyrirtæki á svæðinu.

2.Auglýsing umsóknar um byggðakvóta fiskiveiðiársins 2018/2019

Málsnúmer 201810035Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur bréf frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu er varðar auglýsingu umsókna um byggðakvóta fiskveiðiársins 2018/2019. Umsóknarfrestur er til 1. nóvember 2018.

Að fengnum umsóknum sveitarfélaga tekur ráðuneytið ákvörðun um hversu mikill byggðakvóti kemur í hlut einstakra byggðarlaga og tilkynnir bæjar-/sveitarstjórnum niðurstöðuna.

Ráðuneytið hefur gefið út reglugerð um úthlutun byggðakvóta til byggðarlaga á fiskveðiárinu 2018/2019, nr 648, 5. júlí 2018 og reglugerð um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveðiárinu 2018/2019, nr 685, 5. júlí 2018 og eru bæjar- og sveitarstjórnarmenn kvattir til að kynna sér innihald þeirra.
Byggðarráð felur sveitarstjóra að senda inn umsókn um byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2018-2019.

3.Aflið - samtök gegn kynferðis- og heimilisofbeldi - styrkbeiðni 2019

Málsnúmer 201810052Vakta málsnúmer

Erindi barst sveitarfélaginu þann 4. október frá Aflinu, samtökum gegn kynferðis- og heimilisofbeldi. Samtökin leita eftir stuðningi sveitarfélagsins í formi styrks fyrir rekstur ársins 2019.

Aflið hefur starfað frá árinu 2002. Þjónusta Aflsins er fyrir öll þau sem beitt hafa verið kynferðis- og/eða heimilisofbeldi í sinni víðustu mynd. Til Aflsins hafa leitað margir þolendur eineltis og vanrækslu. Aflið býður jafnframt uppá ráðgjöf fyrir aðstandendur þolenda.

Samtökin leggja sig fram um að ýta undir og efla umræðu um málefni þolenda ásamt því að taka virkan þátt í fjölbreyttu samstarfi við önnur félög og stofnanir sem að málaflokknum koma sem og að aðstoða nemendur við upplýsingaöflun um efni sem málaflokkinn varðar.
Byggðarráð samþykkir að styrkja Aflið um 100.000 krónur vegna ársins 2019.

4.Skýrsla flugklasans Air 66N 2018

Málsnúmer 201804042Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur til kynningar skýrsla flugklasans Air 66N um stöðuna í oktbóber 2018. Í skýrslunni er gerð grein fyrir markaðssetningu Akureyrirflugvallar, áframhaldandi samstarfi við Super Break sem býður aftur beinar flugferðir til Akureyrar í vetur, nú alls 29 brottfarir auk þess sem um er að ræða 13 fleiri sæti í hverri ferð samanborið við í fyrra sem þá voru 189. Fyrsta flugið verður 10. desember og er flogið tvisvar í viku fram í mars 2019.

Í skýrslunni er sömuleiðis gerð grein fyrir stöðu mála er varða mikilvæga uppbyggingu aðstöðunnar á Akureyrarflugvelli bæði er varðar brautir, flughlöð og búnað sem og bætta aðstöðu fyrir flugfarþega innandyra í flugstöðinni.

Framundan í starfi Flugklasans er m.a. áframhaldandi barátta fyrir heildaruppbyggingu vallarins, viðræður við hollenska ferðaskrifstofu um beint flug til Akureyrar og fleiri verkefni sem miða að því að auka ferðamannastrauminn beint inn á Norðurland.

Lagt fram til kynningar.

5.Fundargerðir svæðisráðs norðursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs

Málsnúmer 201510113Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur til kynningar fundargerð 54. fundar svæðisráðs norðursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs.
Lagt fram til kynningar.

6.Fundargerðir Eyþings 2016-2018

Málsnúmer 201603019Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur fundargerð 311. fundar stjórnar Eyþings.
Lagt fram til kynningar.

7.Fundagerðir 2018 - Samband íslenskra sveitarfélaga

Málsnúmer 201802023Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur fundargerð 864. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Lagt fram til kynningar.

8.Umhverfis- og samgöngunefnd: Til umsagnar 172. mál tillaga til þingsályktunar um fimm ára samgönguáætlun fyrir árin 2019 - 2023.

Málsnúmer 201810060Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur til umsagnar tillaga til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árið 2019 - 2023.
Byggðarráð lýsir yfir ánægju með að sjái fyrir endann á uppbyggingu Dettifossvegar í samgönguáætlun. Fyrir liggur að Dettifossvegur kemur til með að verða eitt af mikilvægustu skrefum í framþróun byggðar og atvinnulífs á norðausturhorni Íslands. Byggðarráð bendir á nauðsyn þess að halda áfram uppbyggingu á samgöngum í landshlutanum, sérstaklega með tilliti til flugsamgangna.

9.Umhverfis- og samgöngunefnd: til umsagnar 173. mál, tillaga til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2019 -2033.

Málsnúmer 201810061Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur til umsagnar tillaga til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árið 2019 - 2033.
Lagt fram til kynningar.

10.Héraðsnefnd Þingeyinga bs. - fundargerðir

Málsnúmer 201810087Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur fundargerð 9. fundar framkvæmdastjórnar Héraðsnefndar Þingeyinga bs. sem fram fór 1. október 2018. Fundinn sátu skv. venju framkvæmdastjórar sveitarfélaganna í Þingeyjarsýslu.
Lagt fram til kynningar.

11.Styrkbeiðni vegna malbiksframkvæmda

Málsnúmer 201810071Vakta málsnúmer

Heimskautsgerðið hefur lagt inn beiðni um fjárhagsaðstoð vegna malbikunarframkvæmda við gerðið í ljósi þess að malbikunarverktakar eru staddir á Raufarhöfn.
Skv. samkomulagi Norðurþings og Heimskautsgerðisins á sveitarfélagið eftir að leggja fram hluta mótframlags vegna styrks sem sótt var um til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða fyrir árið 2017.
Það mál sem hér um ræðir kemur fram með óvenjulegum hætti og litlum fyrirvara. Skipulags- og framkvæmdaráð hefur þannig hvorki haft umrædda framkvæmd til umræðu né á framkvæmdaáætlun.
Byggðarráð telur hins vegar afar brýnt að uppbygging Heimskautsgerðisins við Raufarhöfn haldi áfram. Í ljósi þess að malbikunarverktakar verða staddir á Raufarhöfn á næstu dögum er hagkvæmt að fara í framkvæmdina á þessum tímapunkti. Við þær aðstæður telur ráðið rétt að bregðast við og felur sveitarstjóra að gera samkomulag við stjórn Heimskautsgerðisins um framkvæmdina og fjármögnun hennar. Framlag Norðurþings verði allt að 9 milljónum á þessu ári, verði framkvæmdinni komið við.

12.Fjárhagsáætlun Norðurþings 2019

Málsnúmer 201805247Vakta málsnúmer

Á fund byggðarráðs koma sviðsstjórar og fara yfir stöðuna á fjárhagsáætlunarvinnu sinna sviða.
Fyrir byggðarráði liggur að yfirfara rekstraráætlanir fyrir brunamál og almannavarnir, atvinnumál og sameiginlegan kostnað.
Fyrstu drög að útkomuspá ársins 2018 og áætlun ársins 2019 fyrir A-hluta sveitarsjóðs liggja jafnframt fyrir til umræðu.
Byggðarráð þakkar sviðsstjórum fyrir kynningarnar. Haldið verður áfram vinnu við fjárhagsáætlun á næsta fundi byggðarráðs.

Fundi slitið - kl. 12:13.