Fara í efni

Skipulags- og framkvæmdaráð

140. fundur 22. nóvember 2022 kl. 13:00 - 15:00 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Nefndarmenn
  • Soffía Gísladóttir formaður
  • Kristinn Jóhann Lund aðalmaður
  • Eysteinn Heiðar Kristjánsson aðalmaður
  • Áki Hauksson aðalmaður
  • Kolbrún Heiða Valbergsdóttir varaformaður
  • Ísak Már Aðalsteinsson áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Gaukur Hjartarson skipul.- og byggingarfulltrúi
  • Hermína Hreiðarsdóttir Ritari
  • Jónas Hreiðar Einarsson framkv.- og þjónustufulltrúi
  • Ketill Gauti Árnason starfsmaður í stjórnsýslu
Fundargerð ritaði: Hermína Hreiðarsdóttir þjónustu- og skjalafulltrúi
Dagskrá

1.Breyting á aðalskipulagi Norðurþings vegna jarðstrengs

Málsnúmer 202208126Vakta málsnúmer

Fyrir liggur tillaga frá Eflu verkfræðistofu að breytingu aðalskipulags vegna fyrirhugaðs jarðstrengs frá Þeistareykjum að Kópaskerslínu.
Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við sveitarstjórn að skipulagstillagan verði kynnt skv. ákvæðum skipulagslaga.

2.Breyting á deiliskipulagi fyrir eldisstöð Rifós í Kelduhverfi

Málsnúmer 202205062Vakta málsnúmer

Skipulagsráðgjafi hefur breytt deiliskipulagstillögu eldisstöðvar Rifóss í Kelduhverfi til samræmis við óskir skipulags- og framkvæmdaráðs frá 138. fundi ráðsins.
Skipulags- og framkvæmdaráð telur breytingar skipulagstillögunnar til samræmis við óskir ráðsins frá 138. fundi og leggur því til við sveitarstjórn að skipulagstillagan verði samþykkt ef ráðuneyti samþykkir undanþágu vegna nálægðar byggingarreits við þjóðveg sbr. bókun ráðsins frá 138. fundi. Skipulagsfulltrúa verði falið að auglýsa gildistökuna.

3.Breyting á deiliskipulagi Norðurhafnarsvæðis

Málsnúmer 202205037Vakta málsnúmer

Skipulagsráðgjafi hefur breytt tillögu að deiliskipulagi Norðurhafnarsvæðis til samræmis við óskir stjórnar hafnarsjóðs Norðurþings frá 6. fundi. Stjórn hafnarsjóðs fjallaði einnig um skipulagstillöguna á 7. fundi sínum þann 21. nóvember.
Meirihluti skipulags- og framkvæmdaráðs gerir ekki athugasemdir við þær breytingar sem gerðar hafa verið á tillögunni að ósk hafnarstjórnar.

Áki óskar bókað:
Með þessari tillögu er verið að vinna að því að Íslandsþari fái þessa lóð á Norðurhafnarsvæði H2 undir starfsemi sína. Fái þessi tillaga brautargengi og í framhaldi Íslandsþari lóðina skerðist lóðar og athafnasvæði mikið við Norðurhöfnina á Húsavík. Nú þegar er farið að þrengja verulega að þessu svæði, Húsavíkurhöfn verður að geta boðið uppá athafnasvæði fyrir þau fyrirtæki sem vilja hefja starfsemi á Bakka.
Einnig í ljósi nýrra upplýsinga yrði það mikið skipulagsslys að veita þessa lóð til Íslandsþara, því leggst Áki Hauksson fulltrúi M-Listans í skipulags- og framkvæmdaráði Norðurþings gegn þessari deiliskipulagstillögu á Norðurhafnarsvæðinu.

4.Ósk um leyfi fyrir uppsetningu á auglýsingaskilti

Málsnúmer 202211081Vakta málsnúmer

NiceAir ehf. óska eftir leyfi til að fá að setja upp skilti á Húsavík. Ennfremur er óskað eftir tillögu að staðsetningu skiltis. Erindi fylgir mynd af sambærilegu skilti.
Skipulags- og framkvæmdaráð telur að fyrirhugað skilti þjóni ekki tilgangi sem leiðbeiningaskilti á Húsavík. Ráðið fellst ekki á að gera tillögu að staðsetningu skiltis.

5.Starfshópur vegna vinnu við aðalskipulag Norðurþings

Málsnúmer 202211095Vakta málsnúmer

Ákveðið hefur verið að skipa þriggja manna starfshóp vegna vinnu við endurskoðun aðalskipulags Norðurþings.

Horft er til þess að vinnuhópurinn fundi allt um 10 sinnum á komandi ári. Skipulagsfulltrúi kynnti kostnaðarmat vegna vinnuhópsins og gerð hefur verið tillaga að auknum fjárveitingum til skipulags- og framkvæmdaráðs vegna vinnunnar í fjárhagsáætlun.
Skipulags- og framkvæmdaráð skipar eftirtalda einstaklinga í starfshópinn: Eystein Heiðar Kristjánsson, Kristinn Jóhann Lund og Sigurborgu Ósk Haraldsdóttur.

6.Kolefnisbindingarskógrækt við Saltvík

Málsnúmer 202211096Vakta málsnúmer

Á 127. fundi sveitarstjórnar vísaði sveitarstjórn til baka tillögu ráðsins að úthlutun lands til Kolviðar sunnan Saltvíkur. Sveitarstjórn óskaði eftir að ráðið skoðaði hvaða aðrir aðilar væru tilbúnir til samstarfs um svæðið, hvers kyns skóg ráðið vill á svæðinu og hvort önnur svæði henti etv. betur undir skógrækt. Skipulagsráð hefur horft til þess að skógrækt á umræddu svæði myndi skýla byggð og þjóðvegi við Saltvík auk þeirrar kolefnisbindingar sem horft er til við ræktunina. Ráðið hefur horft til blandskógræktar með gott útivistargildi til samræmis við aðra skógrækt við Húsavík. Við skipulagningu skógræktar verði horft til þess að hindra ekki útsýni af þjóðvegi til fjalla Flateyjarskaga. Fyrir liggja hugmyndir Kolviðar annarsvegar og hinsvegar Yggdrasils Carbon varðandi samning um land til skógræktar. Báðir aðilar horfa til blandaðrar skógræktar þar sem horft verði til stafafuru, sitkagrenis, lerkis, birkis og alaskaaspar. Val trjátegunda og hlutföll verði nánar ákvörðuð í ræktunaráætlun fyrir svæðið. Báðir aðilar eru reiðubúnir til þátttöku í girðingarkostnaði til beitarfriðunar svæðisins. Kolviður óskar samnings til 55 ára en Yggdrasill óskar samnings til 50 ára. Yggdrasill miðar við að leigugreiðslur vegna lands verði í formi vottaðra kolefniseininga, en Kolviður gerir hinsvegar ekki ráð fyrir reglulegum leigugreiðslum. Í lok samningstíma verði landeigandi eigandi skógarins, sama við hvorn aðila samið væri.
Meirihluti skipulags- og framkvæmdaráð telur hugmyndir Yggdrasils Carbons sveitarfélaginu hagstæðari og leggur til við sveitarstjórn unnið verði að samningi við Yggdrasil Carbon um skógrækt til kolefnisbindingar á umræddu svæði. Tillaga að samningi verði til umfjöllunar í skipulags- og framkvæmdaráði þegar hún er tilbúin.

Kristinn Jóhann Lund situr hjá.

7.Isavia óskar eftir leyfi fyrir myndavélamastri á Húsavíkurflugvelli

Málsnúmer 202211100Vakta málsnúmer

Isavia óskar leyfis til að reisa 12 m hátt mastur fyrir myndavélar á Aðaldalsflugvelli. Erindi fylgir afstöðumynd og lýsing á fyrirhuguðum búnaði.
Skipulags- og framkvæmdaráð samþykkir erindið.

Fundi slitið - kl. 15:00.