Fara í efni

Fjölgun leikskólaplássa á Húsavík.

Málsnúmer 201604068

Vakta málsnúmer

Fræðslunefnd - 2. fundur - 13.04.2016

Fyrir nefndinni liggur erindi Sigríðar Valdísar Sæbjörnsdóttur leikskólastjóra á Grænuvöllum um fjölgun leikskólaplássa á Húsavík vegna væntanlegrar fjölgunar barna á leikskólaaldri næstu árin með tilkomu fyrirtækja á Bakka. Leikskólastjóri sat nýbúafund nýverið og samkvæmt því sem fram kom þar lítur út fyrir að það þurfi að fjölga plássum í síðasta lagi janúar 2018. 120 ný störf fylgja verksmiðju á Bakka. Eins og er er leikskólinn nánast fullnýttur. Í þessu samhengi þarf einnig að ákveða hvað eigi að gera varðandi skúraviðbyggingu sem bætt var við Grænuvelli. Skýrsla leikskólastjóra og fræðslufulltrúa um leiðir til fjölgunar plássa er einnig lögð fram til kynningar.
Sigga Valdís gerði grein fyrir erindi sínu. Hún telur líklegt að þörf verði á þremur nýjum deildum. Fræðslunefnd tekur undir áhyggjur Siggu Valdísar og telur brýnt að horft verði til framtíðar og möguleiki á byggingu nýs leikskóla kannaður.

Fræðslunefnd - 4. fundur - 17.08.2016

Samkvæmt upplýsingum frá framkvæmdaaðilum á Bakka má gera ráð fyrir fjölgun barna á leikskólaaldri í síðasta lagi í byrjun árs 2018. Leikskólapláss á Grænuvöllum eru nú nánast fullnýtt. Fræðslunefnd þarf því að skoða þær leiðir sem koma til greina til fjölgunar leikskólaplássa og tryggja að ákvörðun verði tekin sem fyrst um hvaða leið skuli farin.
Fræðslufulltrúi afhendir nefndarfólki útprentað eintak af samantekt um leiðir varðandi vistun barna frá lokum fæðingarorlofs sem jafnframt sýnir hvernig mætti koma til móts við fjölgun barna. Málið var áður á dagskrá nefndarinnar 13. apríl sl.
Fulltrúar í Fræðslunefnd skoða þær leiðir sem koma til greina til fjölgunar leikskólaplássa. Fræðslunefnd felur jafnframt fræðslufulltrúa að kanna hvort hægt sé að gera greiningu á fjölgun íbúa á leik- og grunnskólaaldri og skoða hvort forsendur eru fyrir því að mynda starfshóp sem fylgir málinu sérstaklega eftir. Málið verður aftur á dagskrá á fundi nefndarinnar í september.

Fræðslunefnd - 5. fundur - 14.09.2016

Fræðslunefnd hefur til umræðu framtíðarhorfur í leikskólamálum á Húsavík.
Í dag er Leikskólinn Grænuvellir nánast fullsetinn. Auk þess að vísa til umfjöllunar fræðslunefndar um málið á fundi hennar þann 13. apríl sl. vísar nefndin til áætlunar Byggðastofnunar frá því í nóvember 2012 um áhrif framkvæmda á Bakka á starfa og íbúafjölda á Húsavík. Í skýrslunni kemur fram að gera má ráð fyrir að börnum á leikskólaaldri fjölgi um 40 í kjölfar framkvæmdanna.
Fræðslunefnd telur að nauðsynlegt sé að bæta við tveimur til þremur leikskóladeildum á Húsavík á næsta ári. Það sé því mikilvægt að vinna við uppbyggingu þeirra hefjist sem fyrst. Fjárhagsáætlanagerð fyrir árið 2017 stendur nú yfir og mikilvægt að gert sé ráð fyrir fjölgun leikskóladeilda innan hennar. Til að mæta þessari þörf leggur nefndin til að skoðaðir verði eftirfarandi kostir: Bygging nýs leikskóla, endurbætur á Túni og uppbygging a.m.k. tveggja leikskóladeilda í því húsi sem áfram gæti nýst sem frístundaheimili yngstu nemenda Borgarhólsskóla og félagsmiðstöð unglinga eða kaup á húsnæði sem rúmar leikskóladeild fyrir allt að 20 börn. Fræðslunefnd vísar málinu til umfjöllunar í sveitarstjórn.

Sveitarstjórn Norðurþings - 60. fundur - 20.09.2016

Á 5. fundi fræðslunefndar var eftirfarandi bókað:

"Í dag er Leikskólinn Grænuvellir nánast fullsetinn. Auk þess að vísa til umfjöllunar fræðslunefndar um málið á fundi hennar þann 13. apríl sl. vísar nefndin til áætlunar Byggðastofnunar frá því í nóvember 2012 um áhrif framkvæmda á Bakka á starfa og íbúafjölda á Húsavík. Í skýrslunni kemur fram að gera má ráð fyrir að börnum á leikskólaaldri fjölgi um 40 í kjölfar framkvæmdanna.
Fræðslunefnd telur að nauðsynlegt sé að bæta við tveimur til þremur leikskóladeildum á Húsavík á næsta ári. Það sé því mikilvægt að vinna við uppbyggingu þeirra hefjist sem fyrst. Fjárhagsáætlanagerð fyrir árið 2017 stendur nú yfir og mikilvægt að gert sé ráð fyrir fjölgun leikskóladeilda innan hennar. Til að mæta þessari þörf leggur nefndin til að skoðaðir verði eftirfarandi kostir: Bygging nýs leikskóla, endurbætur á Túni og uppbygging a.m.k. tveggja leikskóladeilda í því húsi sem áfram gæti nýst sem frístundaheimili yngstu nemenda Borgarhólsskóla og félagsmiðstöð unglinga eða kaup á húsnæði sem rúmar leikskóladeild fyrir allt að 20 börn. Fræðslunefnd vísar málinu til umfjöllunar í sveitarstjórn."
Til máls tóku: Olga, Jónas, Óli, Sif, Soffía, Kristján og Erna.

Erna lagði fram eftirfarandi bókun:

"Sveitarstjórn felur fræðslunefnd að greina valkosti fyrir fjölgun leikskólaplássa á Húsavík og skila til sveitarstjórnar fyrir fund í nóvember."

Sveitarstjórn samþykkir framlagða bókun samhljóða.

Fræðslunefnd - 7. fundur - 12.10.2016

Fræðslunefnd fjallar áfram um fjölgun leikskólaplássa á Húsavík samkvæmt bókun sveitarstjórnar á fundi sínum þann 20. september sl. en bókunin er eftirfarandi:

"Sveitarstjórn felur fræðslunefnd að greina valkosti fyrir fjölgun leikskólaplássa á Húsavík og skila til sveitarstjórnar fyrir fund í nóvember."
Fræðslunefnd leggur til að stofnaður verði starfshópur sem greini valkosti. Fræðslufulltrúa falið að mynda hópinn sem skili greinargerð á næsta fundi fræðslunefndar.

Æskulýðs- og menningarnefnd - 6. fundur - 15.11.2016

Fræðslunefnd fékk það verkefni að kanna leiðir til að fjölga leikskólaplássum á Húsavík. Breytingarnar gætu haft áhrif á húsnæðismál frístundar og félagsmiðstöðvar. Málið er því lagt fram til umsagnar í Æskulýðs- og menningarnefnd.
Lagt fram til kynningar.

Fræðslunefnd - 8. fundur - 16.11.2016

Fyrir fræðslunefnd liggur skýrsla starfshóps um fjölgun leikskólaplássa á Húsavík.
Fræðslunefnd leggur til við sveitarstjórn að skoðuð verði frekar leið tvö b í skýrslu starfshóps.

Sveitarstjórn Norðurþings - 62. fundur - 22.11.2016

Fyrir sveitarstjórn liggur eftirfarandi bókun fræðslunefndar: "Fyrir fræðslunefnd liggur skýrsla starfshóps um fjölgun leikskólaplássa á Húsavík.
Fræðslunefnd leggur til við sveitarstjórn að skoðuð verði frekar leið tvö b í skýrslu starfshóps."
Til máls tóku: Kjartan, Olga, Jónas og Óli.

Sveitarstjórn samþykkir tillögu fræðslunefndar með atkvæðum Ernu, Óla, Sifjar, Olgu, Örlygs og Gunnlaugs. Kjartan, Jónas og Soffía sitja hjá við afgreiðslu tillögunnar.

Framkvæmdanefnd - 11. fundur - 08.12.2016

Vegna mögulegrar fjölgunar barna á leikskólaaldri m.a. í tengslum við uppbyggingu á Bakka, er verið að huga að auknu rými í leikskólanum. Ein leið (leið 2 í meðf. skjali) er að fjárfesta í húsnæði á Iðavöllum og færa hluta starfseminnar þangað. Búið er að skoða og meta húsnæðið og fyrir framkvæmdanefnd liggur ákvörðun um hvort veita skuli heimild til þess að gera tilboð í húsið.
Greinargerð um ástand húseignarinnar að Iðavöllum 8 liggur fyrir.

Framkvæmdanefnd leggur til við byggðarráð að gert verði tilboð í húseignina Iðavelli 8.

Byggðarráð Norðurþings - 199. fundur - 09.12.2016

Í framhaldi af ákvörðun sveitarstjórnar um að kanna frekar fjárfestingu í húsnæði að Iðavöllum til lausnar á húsnæðisvanda leikskólans, gerði framkvæmdanefnd ástandsskoðun á eigninni. Á 11. fundi framkvæmdanefndar er lagt til við byggðarráð að gert verðí tilboð í eignina Iðavelli 8.
Undirritaðir leggjast gegn þeirri leið sem á að fara í leikskólamálum á Húsavík. Nýta á íbúðarhúsnæðið undir atvinnustarfsemi á meðan skortur er á íbúðarhúsnæði í bænum. Lóð leikskólans Grænuvalla er þegar of lítil fyrir starfsemina og einnig er mikil umferð við leikskólann á álagstímum og skortur á bílastæðum. Breytingar á húsnæðinu og kaffistofu Grænuvalla munu kosta fjármagn og væntanlega þarf að breyta báðum húsunum í upphaflegt horf þegar þessi viðbót við leikskólann verður of lítil.
Frekar hefði átt að fara í uppbyggingu í Túni sem við álítum vera framtíðarhúsnæði sveitarfélagsins. Þar hefðu fleiri leikskólapláss fengist og einnig hefur hafist handa á viðhaldi á húsinu fyrir frístund sem nú í dag er í húsinu.
Jónas Einarsson
Gunnlaugur Stefánsson

Meirihluti byggðarráðs, Óli og Olga, samþykkir að fela sveitarstjóra að gera tilboð í eiginina

Fræðslunefnd - 9. fundur - 14.12.2016

Fræðslunefnd hefur áfram til umfjöllunar fjölgun leikskólaplássa á Húsavík.Í framhaldi af ákvörðun sveitarstjórnar um að kanna frekar fjárfestingu í húsnæði að Iðavöllum til lausnar á húsnæðisvanda leikskólans, gerði framkvæmdanefnd ástandsskoðun á eigninni. Á 11. fundi framkvæmdanefndar 8. desember var lagt til við byggðarráð að gert verði tilboð í eignina Iðavelli 8.

Byggðaráð samþykkti á fundi sínum 9. desember að fela sveitarstjóra að gera tilboð í eignina.
Meta þarf framkvæmdir í húsinu en þeim þarf að halda í lágmarki vegna hugsanlegrar endursölu og meta þarf framkvæmdir á Grænuvöllum. Þá þarf að setja upp tímaáætlun um hvenær eigi að framkvæma og taka í notkun. Fræðslunefnd gerir ráð fyrir að ef kaupin ganga í gegn að úrræðið verði tilbúið þegar skólinn tekur til starfa eftir sumarlokun 2017.

Fræðslunefnd - 10. fundur - 18.01.2017

Fræðslunefnd hefur áfram til umfjöllunar fjölgun leikskólaplássa á Húsavík. Sveitarfélagið hefur fest kaup á húsnæði við Iðavelli 8 sem leikskólinn Grænuvellir mun nýta sem starfsmannaaðstöðu. Ekki er fyrirliggjandi þörf fyrir nýtingu húsnæðisins eins og er og ákveða þarf hvenær úrræðið skal vera tilbúið og hvort nýta eigi húsnæðið í annað myndist biðtími frá því að húsnæðið er afhent.
Helga Jónsdóttir, starfandi aðstoðarleikskólastjóri, Guðrún Eiríksdóttir leikskólakennari og Signý Valdimarsdóttir fulltrúi foreldra sátu fundinn undir þessum lið. Starfsmenn leikskólans telja að ekki sé þörf fyrir úrræðið fyrr en í fyrsta lagi í haust. Fræðslunefnd leggur til að á meðan ekki er þörf fyrir úrræðið verði húsnæðið leigt út og vísar málinu til framkvæmdanefndar.