Fara í efni

Skipulags- og framkvæmdaráð - 55

Málsnúmer 2001007F

Vakta málsnúmer

Sveitarstjórn Norðurþings - 98. fundur - 21.01.2020

Fyrir sveitarstjórn liggur fundargerð 55. fundar skipulags- og framkvæmdaráðs.
Til máls tóku undir lið 3 "Eftirfylgni vegna vatnsrennibrautar á Húsavík": Silja, Hafrún, Kristján og Gísli.

Meirihluti sveitarstjórnar telur jákvætt að fram hafi farið óháð úttekt á stjórnsýslu og utanumhaldi með framkvæmdum vegna vatnsrennibrautar við sundlaugina á Húsavík. Eftir því sem best er vitað er þetta í fyrsta skipti sem slík úttekt fer fram á framkvæmd á vegum sveitarfélagsins þó ekki leiki nokkur vafi á að oft hafi verið tilefni til slíks vegna framkvæmda sem sveitarfélagið hefur áður staðið fyrir. Það er miður að umfang verkefnisins hafi verið vanmetið, að framkvæmdin hafi farið fram úr kostnaðaráætlun og jafnframt að skort hafi á skarpari stjórnsýslulega meðferð málsins.

Af úttektinni má draga heilmikinn lærdóm. Í fyrsta lagi liggur ákveðin ábyrgð hjá kjörnum fulltrúum og nefndarmönnum varðandi undirbúning á tillögum sem þeir leggja fram um áhrif þeirra á fjárfestingar og rekstur sveitarfélagsins. Í öðru lagi er ljóst að bæta þarf verkferla og samstarf innan stjórnsýslunnar, milli kjörinna fulltrúa, nefndarmanna og starfsmanna sveitarfélagsins. Í þriðja lagi þarf að færa skýrar til bókar þær ákvarðanir sem teknar eru og efla upplýsingaflæði um verkstöðu í samræmi við fjárheimildir.

Við mörgu af því sem gagnrýnt er í skýrslu KPMG hefur þegar verið brugðist, ásamt því að unnið er að frekari úrbótum til að reyna eftir fremsta megni að tryggja að betur verði staðið að ákvörðunum og ferlum er snúa að framkvæmdum og framvindu þeirra. Þá er einnig rétt að fram komi að breytingar á samþykktum sveitarfélagsins við síðustu kosningar gera það að verkum að betur er hægt að efla utanumhald með verklegum framkvæmdum sveitarfélagsins þar sem fundir fagráða eru nú orðnir vikulegir í stað mánaðarlegra funda áður. Sem dæmi má einnig nefna að fundargerðir verkfunda stærri framkvæmda koma reglulega inn á fundi skipulags- og framkvæmdaráðs og ráðið hefur verið í starf verkefnisstjóra á framkvæmdasviði til að efla eftirlit.“


Til máls tóku undir lið 1 "Ósk um samning við Norðurþing": Hafrún og Kristján.

Aðrir liðir fundargerðarinnar lagðir fram til kynningar.