Fara í efni

Borsvarf til Breiðdalsvíkur

Málsnúmer 202104099

Vakta málsnúmer

Orkuveita Húsavíkur ohf - 220. fundur - 21.04.2021

Þegar Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR) voru stofnaðar árið 2003, á grunni Rannsóknasviðs Orkustofnunar (ROS), tók ÍSOR við heilmiklu safni af borsvarfi sem safnast hafði á hendur Orkustofnunar (OS) árin þar á undan. Talsvert hefur síðan bæst í sarpinn á þeim árum sem ÍSOR hefur starfað. ÍSOR getur ekki lengur staðið undir leigukostnaði af varðveislu svarfsins. Fyrir nokkrum misserum var þess farið á leit við stóru orkufyrirtækin (LV, ON/OR, HS-Orka, Norðurorka) að þau tækju þátt í leigukostnaði vegna svarfgeymslunnar. En úr varð að þau tækju sjálf við sínu svarfi. Það hefur nú verið afhent þeim til varðveislu.

En stendur þó eftir talsvert magn af svarfi sem er vandlega pakkað saman í kjallara hjá ÍSOR í Reykjavík. Náttúrufræðistofnun (NÍ) hefur góðfúslega samþykkt að taka við svarfinu og geyma það með borkjarnasafni Íslands á Breiðdalsvík. Er hér með upplýst um að svarfið verði flutt til Breiðdalsvíkur og að umsýsla með það verði framvegis á forræði NÍ. NÍ fær afhent þau gögn sem ÍSOR hefur um viðkomandi borholur (Staðarnúmer, Auðkenni, Hnit o.fl.) ásamt tilvísunum í skýrslur og greinargerðir sem fjalla um holurnar. NÍ hefur heitið því að fræðimenn munu áfram hafa aðgang að safninu standi til að rannsaka það frekar.

Flutningi svarfsins fylgir nokkur kostnaður og hefur OS heitið því að mæta hluta kostnaðar við flutningin. NÍ hefur ekki tök á að taka þátt í þessum kostnaði og því vantar fjármagn til að ná endum saman. Þessi póstur fer á 5 hitaveitur (Orkuveitu Húsavíkur, RARIK, Selfossveitur og Skagafjarðarveitur) en til samans eiga þessar bróðurpartinn af því svarfi sem til stendur að flytja austur. Þess er hér með farið á leit að áðurnefnd félög heiti allt að 200 þúsund krónum, hver veita, til að standa straum af þessum kostnaði. Útbúinn yrði samningur þar að lútandi og innheimtur sá kostnaður sem til fellur vegna vinnu við flutning svarfsins til Breiðdalsvíkur.
Stjórn Orkuveitu Húsavíkur ohf. samþykkir að greidd verði fjárhæð að hámarki 200 þúsund krónur í tengslum við flutning á borsvarfi til Breiðdalsvíkur.