Öllum íþróttamannvirkjum í Norðurþingi lokað

Vegna tilmæla frá sóttvararlækni í kjölfar tilkynningar frá heilbrigðisráðuneytinu í samvinnu við mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur verið ákveðið að loka öllum íþróttamannvirkjum í Norðurþingi um óákveðinn tíma.

Tilkynning ráðuneytanna segir að öll blöndun hópa sé óæskileg á meðan samkomubann gildir og á meðan takmörkun á skólahaldi stendur yfir. Nánari útfærsla á sóttvörnum er falin viðkomandi rekstraraðilum eftir því sem við á eins fram kemur í yfirlýsingu.

Einnig áréttaði sóttvarnarlæknir að : „með vísan í leiðbeiningar um almennar sóttvarnaráðstafanir t.d. varðandi hreinlæti og smitleiðir að sameiginleg notkun á hverskonar búnaði til íþróttaiðkunar s.s. boltum, dýnum, rimlum, handlóðum, skíðalyftum og margs fleira án góðrar sótthreinsunar á milli notkunar einstaklinga er mjög varasöm og ekki í anda fyrirmæla um sóttvarnir.
Því er augljóst að í flestum íþróttum er nánast ómögulegt að æfa eða keppa.

ÍSÍ og UMFÍ hafa beint þeim tilmælum til íþróttafélaga að þau bregðist við með afgerandi hætti og felli tímabundið allt íþróttastarf niður.

Tilkynning frá heilbrigðisráðuneytinu í samvinnu við mennta- og menningarmálaráðuneytið:
https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2020/03/20/Leidbeinandi-vidmid-um-ithrotta-og-aeskulydsstarf-i-ljosi-takmorkunar-a-skolastarfi-og-samkomum/

Tilkynning frá ÍSÍ og UMFÍ
http://isi.is/frettir/frett/2020/03/20/Allt-ithrottastarf-fellur-nidur/

Tilkynning frá Samtökum skíðasvæða á Íslandi
http://www.ski.is/is/um-ski/frettir/lokun-allra-skidalyfta-a-islandi

Ákvörðun um lokun gildir frá deginum í dag, að undanskildri lokun Sundlaugarinnar á Húsavík sem lokar frá og með mánudeginum 23. mars.

Mannvirkjum sem er lokað:

-          Íþróttahöllin á Húsavík

-          Sundlaug Húsavíkur

-          Vallarhús við Vodafonevöll á Húsavík

-          Skíðalyfta við Reiðarárhnjúk (ATH: áfram verður gönguskíðaspor lagt þegar veður og aðstæður leyfa)

-          Íþróttahúsið og sundlaugin í Lundi

-          Íþróttahúsið á Kópaskeri

-          Íþróttamiðstöðin á Raufarhöfn

Einnig vill sveitarfélagið Norðurþing ítreka tilmæli til allra félagasamtaka um að fella niður allt skipulagt félagsstarf barna og ungmenna um óákveðinn tíma.

Ljóst er að ofangreindar lokanir hafa gríðarleg áhrif á íþrótta- og félagsstarf hér í sveitarfélaginu. Íbúar eru engu að síður hvattir til þess að iðka útivist og hreyfingu, eitt og sér eða í smáum hópum eftir fremsta megni og nýta til þess opin svæði eins og íþróttavöllinn á Húsavík, upphitaða göngustíga og gönguskíðaspor þegar möguleiki er á því.

Ofangreint tilkynnist hér með.

Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings