Fara í efni

Covidpistill sveitarstjóra #1

Kæru íbúar

Við glímum nú við risavaxið alheims-samfélagsverkefni. Verkefnið útheimtir samstöðu. Verkefnið útheimtir þrautseigju. Verkefnið útheimtir útsjónarsemi og yfirvegun. Við Þingeyingar búum yfir öllum þessum kostum svo við skulum „gera þetta almennilega“, eins og Víðir Reynisson komst að orði fyrr í dag. Þá munum við vina þessa glímu þótt hart verði tekist á við óvininn.

Nú hafa aðgerðir yfirvalda verið hertar enn frekar sem hefur meiri áhrif á okkar samfélag strax á morgun og allt til 12. apríl hið minnsta. Þetta ástand gerir flest af því sem við erum vön að gera enn flóknara, en það verður að hafa það. Allt miðar þetta að því að vernda okkur sjálf og þá sérstaklega okkar viðkvæmustu hópa frá því að smitast af veirunni.

Frá fyrsta degi höfum við hjá sveitarfélaginu unnið eftir þeim ferlum sem almannavarnir og sóttvarnarlæknir hafa sett upp. Allri þjónustu á okkar vegum breytt til samræmis við ráðleggingar og tilmæli þannig að síðasta vika var vægast sagt sérstök. Ég vil koma því skýrt á framfæri hér að starfsfólk sveitarfélagsins á heiður skilið fyrir hvernig starfið var skipulagt og unnið m.v. aðstæður. Samheldni og samhugur einkenndi því vikuna hjá starfsfólki sem lagt hefur afar hart að sér. Fyrir það ber að þakka rækilega fyrir.

Staðan í sveitarfélaginu er metin á hverjum degi í samtali innan okkar neyðarteyma, jafnvel oft á dag ef svo ber undir og forsvarsfólk sveitarfélagsins mun hvergi hika að grípa til þeirra aðgerða sem nauðsynlegar eru á hverjum tíma ef staðan þróast hratt til verri vegar. Í byggðalögum þar sem möguleg hópsmit hafa myndast hefur nú þegar verið gripið til róttækra aðgerða sem hægt verður að beita hér með samskonar hætti gerist þess þörf. Þá gerum við það saman og stöndum okkar vakt hvert og eitt í því.

Utan þess smits sem greindist í ferðalöngum á svæðinu í upphafi vikunnar, hefur enn ekkert smit verið staðfest í sveitarfélaginu eftir því sem ég kemst næst. Hvorki meðal þeirra sem sæta sóttkví eða annara í samfélaginu. Er á meðan er. Nokkuð stór hópur er í sóttkví eins og margir vita og munu allir sem henni sæta verða þar til mánaðarmóta.

Áætlun Norðurþings næstu daga er klár m.v. óbreytt ástand. Tilkynnt var um lokanir allra íþróttamannvirkja sveitarfélagsins í gær. Þ.m.t. Sundlauginni á Húsavík frá og með morgundeginum. Leik- og grunnskólahald verður með nokkurn veginn sama sniði á morgun mánudag og var í síðustu viku. Skólastjórnendur halda foreldrum upplýstum um nánari áætlun gegnum tölvupóst í kvöld. Hópar innan skólanna eru aldrei stærri en 20 einstaklingar, en engin samvera er heimil á milli nokkurra hópa. Hvort heldur sem um ræðir samskipti milli kennara eða nemenda. Það er okkur mikilvægt að halda þessari línu og því eru það skýr tilmæli sömuleiðis að börn séu ekki að leika sér saman milli hópa eftir að skóla lýkur, ef nokkur möguleiki er á því. Með þessu móti viljum við gera allt sem við getum til að þurfa ekki að loka skólunum okkar algerlega ef upp kemur smit meðal barna eða kennara.

Sveitarstjórn kemur saman á morgun til að afgreiða mál er varðar heimild til fjarfunda sem virkjast þá fyrir allar fastanefndir sveitarfélagsins. Sömuleiðis hefur aðgerðahópur unnið að fjárhagslegum viðbrögðum Norðurþings við stöðunni undanfarna viku og verða tillögur og útfærslur ræddar og ígrundaðar næstu daga. Unnið er á grunni hugmynda og ábendinga Sambands íslenskra sveitarfélaga sem komu fram í sl. viku og snerta aðgerðir til viðspyrnu fyrir atvinnulífið sérstaklega.

Það er einfaldlega nýr veruleiki tekinn við næstu vikur og mánuði og eðlilega tekur tíma að venjast því. Mestu skiptir að með samstöðu okkar gengur þetta yfir, ef við gefum hvergi eftir í okkar hlutverki í almannavarnakeðjunni – handþvottur, sprittun, virða fjarlægðartakmörk, o.s.frv. www.covid.is. Ef þú ert með kvef – vertu heima. Ef þú er með flensueinkenni – vertu heima. Ef þú heldur að þú sért að verða veik/ur – vertu þá heima.

Að lokum vil ég hvetja okkur öll til þess að vera dugleg að hringja í vini og ættingja, hvort sem er í gegnum gamla góða spjallsímann eða gegnum snjallsímann. Það er alltaf hætta á því að ákveðnir hópar einangrist í aðstæðum sem þessum og við skulum öll hjálpast að við að minnka líkur á að það gerist. Ég vona að enginn lesi þennan pistil á milli kl 20-21 í kvöld eins og mælst var til á blaðamannafundinum í dag. Sá klukkutíma skal vera veiru-umræðufrír. Njótið kvöldsins með ykkar allra nánustu.

Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings