Fara í efni

Landssamband hestamannafélaga óskar eftir styrk vegna skráningar reiðleiða - kortasjá

Málsnúmer 201210032

Vakta málsnúmer

Bæjarráð Norðurþings - 58. fundur - 11.10.2012

Fyrir bæjarráði liggur erindi frá Landssambandi hestamannafélaga þar sem fram kemur beiðni um styrk vegna verkefnis sem félagið hefur unnið að í samvinnu við Vegagerðina og felst í skráningu reiðleiða á öllu landinu frá árinu 2007. Reiðleiðirnar eru unnar ofan á loftmyndagrunn frá Loftmyndum ehf. og eru settar inn í kortasjá sem er öllum opin og aðgengileg á netinu. Í kortasjá er hægt að sjá upplýsingar um reiðleiðirnar og hægt að hlaða niður ferlum í GPS tæki fyrir hverja einstaka reiðleið. Reiðleiðirnar eru flokkaðar í þéttbýlis-, stofn- og héraðsleiðir og þær númeraðar.Reksturinn á kortasjánni og vinna við skráningu reiðleiða hefur verið fjármagnaður af reiðvegafé sem LH fær árlega frá Vegagerðinni af samgönguáætlun. LH úthlutar síðan til allra hestamannafélaga á landinu, sem eru 48 alls, í samræmi við umsóknir þeirra um framkvæmdir við reiðvegi. Á þessu ári voru umsóknir hestamannafélaganna samtals að upphæð 186 milljónir en til úthlutunar voru 50 milljónir til reiðvegagerðar og reksturs og vinnu við kortasjá. Gert er ráð fyrir að hægt verði á næstu fjórum árum að ljúka við skráningu allra reiðleiða á landinu fáist fjármagn í verkefnið. LH óskar eftir fjárstuðningi sveitarfélagsins til þessa verkefnis og er farið fram á kr. 100.000.- á ári á næstu fjórum árum. Ávinningur sveitarfélagsins er fullkomin skráning og aðgengilegt form á öllum reiðleiðum viðkomandi sveitarfélags. Sveitarfélagið getur fengið reiðleiðirnar á starfrænu formi og landfræðilega rétt staðsettar til þess að nota í sína gagnagrunna og til þess að nota við skipulagsvinnu á vegum sveitarfélagsins. Bæjarráð þakkar bréfritara fyrir erindið en getur ekki orðið við erindinu að svo stöddu.