Fara í efni

Klappir Development ehf., umsókn um lóð v/120.000 tonna álvers á Bakka

Málsnúmer 201309062

Vakta málsnúmer

Bæjarráð Norðurþings - 83. fundur - 26.09.2013


Fyrir bæjarráði liggur umsókn um lóð í landi Bakka frá félaginu Klappir Development ehf.
Félagið hefur áhuga á að byggja og reka 120 þúsund tonna álver í landi Bakka við Húsavík. Fulltrúar Klappa hafa unnið að undirbúningi að uppsetningu og rekstri á álveri um tveggja ára skeið, þar sem starfað hefur verið með ráðgjöfum innanlands og erlendis á þessu sviði. Sveitarfélagið Norðurþing hefur verið upplýst um þróun verkefnisins. Gert er ráð fyrir að verkefnið muni skapa 280 heilsársstörf í álverinu auk fjölda afleiddra starfa. Áætlanir miðast við að nýta Húsavíkurhöfn með vegtengingu við iðnaðarsvæðið. Álverið þarf 210 MWe af raforku og hófust viðræður við Landsvirkjun vegna orkusölusamnings sl. vor. Stefnt er að því að álverið verður eitt það fullkomnasta sem völ er á bæði hvað varðar orkunýtingu og umhverfisstaðla og byggir á NEUI kertækni, á þriðja tug álvera eru starfandi í dag sem byggja á þessari tækni. Í áætlunum Klappa er gert ráð fyrir að framleiða virðisaukandi vörur og binda afurðir því ekki eins við heimsmarkaðsverð á áli sem hrávöru.
Bæjarráð lýsir yfir ánægju sinni með umsóknina og þann áhuga sem félagið hefur sýnt iðnaðarsvæðinu á Bakka við Húsavík. Sveitarfélagið Norðurþing hefur sett sér almenn viðmið gagnvart sínum samstarfsaðilum sem m.a. fela í sér kröfu um reynslu, skýrar áætlanir, faglega nálgun og fjárhagslegan styrk til að ljúka fyrirhuguðum verkefnum. Gott samstarf við heimamenn er að sjálfsögðu lykilatriði.
Sveitarfélagið lýsir sig reiðubúið til að taka upp viðræður um lóðarúthlutun um leið og fyrir liggur samstarfsyfirlýsing við orkusöluaðila um orkuafhendingu, sem er forsenda þess að verkefnið verði að veruleika.