Fara í efni

Skipulagsstofnun óskar eftir umsögn vegna uppbyggingar fiskeldis á Röndin á Kópaskeri

Málsnúmer 202006115

Vakta málsnúmer

Skipulags- og framkvæmdaráð - 72. fundur - 30.06.2020

Skipulagsstofnun óskar umsagnar um hvort Norðurþing telji að framkvæmd Fiskeldis Austfjarða við fyrirhugaða uppbyggingu fiskeldis á Röndinni á Kópaskeri skv. framlagðri fyrirspurn skuli háð mati á umhverfisáhrifum og þá á hvaða forsendum.
Meðfylgjandi erindi er greinargerð framkvæmdaaðila sem send var Skipulagsstofnun sem fyrirspurn um matsskyldu.
Skipulags- og framkvæmdaráð telur að fyrirhuguð uppbygging fiskeldis Fiskeldis Austfjarða á Röndinni sé í samræmi við gildandi deiliskipulag og þar með væntingar sveitarfélagsins um landnýtingu. Ráðið telur greinargerð fyrirspurnar um matsskyldu lýsa framkvæmdinni og líklegum umhverfisáhrifum hennar vel. Eins og fram kemur í greinargerðinni er fuglalíf innan framkvæmdasvæðis fremur fábreytt og þess að vænta að áhrif framkvæmdar á fuglalíf verði ekki veruleg. Helst verða áhrif á lítið hettumáfsvarp sem er innan lóðarinnar og reikna má með að það víki í tengslum við framkvæmdirnar. Einnig verpir nokkuð af kríum innan framkvæmdasvæðis. Ekki er að vænta sjaldgæfra plöntutegunda á framkvæmdasvæðinu. Afla þarf samþykkis Minjastofnunar áður en til röskunar skráðra fornminja á framkvæmdasvæðinu kemur en reiknað er með að fulltrúi stofnunarinnar skoði minjarnar nú á næstu vikum.
Vegna uppbyggingar fiskeldisins þarf framkvæmdaaðili að tryggja sér lóðarréttindi, afla sér framkvæmdaleyfis hjá sveitarfélaginu vegna lagningar vega og fráveitulagna og svo fá samþykki fyrir byggingarleyfi mannvirkja innan lóðar. Sveitarfélagið er landeigandi á svæðinu og er því samningsaðili vegna lóðarréttinda.