Fara í efni

Uppfærsla á skýrslu um stöðu innleiðingar Árósasamningsins

Málsnúmer 202108001

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Norðurþings - 369. fundur - 19.08.2021

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið undirbýr nú uppfærslu á skýrslu um stöðu innleiðingar Árósasamningsins hér á landi. Skýrsla verður þriðja skýrsla Íslands um innleiðingu samningsins. Skýrslan verður unnin í samráði við umhverfisverndarsamtök og tekur ráðuneytið einnig við öllum ábendingum frá almenningi um efni hennar.

Ísland fullgilti í október 2011 Árósasamninginn um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum. Þar með varð Ísland fullgildur aðili að samningnum og því starfi sem tengist honum. Auk aðildarríkjaráðstefnu sem og ríkjafundum sem haldnir eru árlega eru á vettvangi samningsins reknir vinnuhópar um helstu málefni samningsins, þ.e. aðgang að upplýsingum, þátttökuréttindi almennings og aðgang að réttlátri málsmeðferð.

Á fjögurra ára fresti ber aðildarríkjum að skila aðildarríkjaskýrslu til skrifstofu samningsins þar sem farið er yfir stöðu innleiðingar ákvæða samningsins í viðkomandi ríki. Síðast skiluðu aðildarríkin skýrslu árið 2017 og var Ísland þar á meðal. Á þessu ári eiga aðildarríkin að skila skýrslu að nýju og verður hún til umræðu á næsta aðildarríkjaráðstefnu samningsins. Mikilvægt er að öll sjónarmið komi fram, bæði sjónarmið stjórnvalda, almennings og félagasamtaka sem nýta sér þann rétt sem aðild að samningnum veitir.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið vill vekja athygli á því að unnið er að undirbúningi skýrslu Íslands sem skilað verður á þessu ári. Á næstunni verða birt í samráðsgátt drög að skýrslunni til kynningar og athugasemda en auk þess mun ráðuneytið eiga sérstakt samráð við umhverfisverndarsamtök um efni hennar. Þá vill ráðuneytið hvetja alla þá sem áhuga hafa til að koma með ábendingar eða annað sem varðar væntanlega skýrslu. Tekið verður við almennum ábendingum og athugasemdum í samráðsgátt stjórnvalda til og með 23. ágúst nk. auk þess sem unnt verður að gera athugasemdir við drög að skýrslunni þegar þau verða birt.
Lagt fram til kynningar.