Fara í efni

Byggðarráð Norðurþings

369. fundur 19. ágúst 2021 kl. 08:30 - 10:10 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Nefndarmenn
  • Helena Eydís Ingólfsdóttir formaður
  • Benóný Valur Jakobsson varaformaður
  • Bergur Elías Ágústsson aðalmaður
  • Kristján Friðrik Sigurðsson áheyrnarfulltrúi
  • Kolbrún Ada Gunnarsdóttir áheyrnarfulltrúi
  • Kristján Þór Magnússon sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Kristján Þór Magnússon sveitarstjóri
Dagskrá

1.Frestun sveitarstjórnarfundar í ágúst

Málsnúmer 202108012Vakta málsnúmer

Formaður byggðarráðs leggur til að reglubundinn fundur sveitarstjórnar Norðurþings sem áætlaður er þann 17. ágúst frestist til 24. ágúst.
Byggðarráð samþykkti tillögu um frestun fundar gegnum tölvupóst. Frestunin er staðfest af byggðarráði.

2.Rekstur Norðurþings 2021

Málsnúmer 202103135Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur yfirlit yfir rekstur málaflokka tímabilið janúar til júní sem og yfirlit yfir útsvarstekjur fyrir tímabilið janúar til júlí.
Lagt fram til kynningar. Byggðarráð mun taka frekari umræðu um launaþróun málaflokka 02 - félagsþjónustu og 04 - fræðslumál á næsta fundi.

3.Áskorun um að byggðarráð Norðurþings beiti sér gegn heimild til veiða með dragnót í Skjálfanda

Málsnúmer 202108026Vakta málsnúmer

Erindi frá Hauki Eiðssyni hefur borist byggðarráði þar sem hann, f.h. smábátaeigenda á Húsavík skorar á byggðarráð að beita sér gegn heimild til veiða með dragnót í Skjálfanda.
Byggðarráð þakkar Hauki fyrir erindið og er sammála þeim rökum sem koma fram í bréfi hans. Byggðarráð telur óviðunandi að öflug skip komi og hreinsi upp miðin þetta nærri landi með tilheyrandi áhrifum á lífríki og afkomu minni útgerða. Byggðarráð mun beita sér fyrir því að dragnótaveiðar verði takmarkaðar til muna í Skjálfanda. Óskað verði eftir því að dregin verði lína frá norðurenda Flateyjar yfir í Tjörnestorfu. Dragnótaveiði stærri báta en 20 m verði óheimil innan þeirrar línu. Mikilvægt er að gripið verði til þessara ráðstafana hið fyrsta. Sveitarstjóra er falið að koma á fundi með sjávarútvegsráðherra um málið á allra næstu dögum.

4.Fyrirspurn vegna slökkvibifreiðar

Málsnúmer 202107054Vakta málsnúmer

Sveitarstjóri hefur tekið saman minnisblað um stöðu mála er varðar möguleg kaup á nýjum dælubíl fyrir Slökkvilið Norðurþings.
Lagt fram til kynningar.

5.Viðbrögð vegna bilunar dælubíls Slökkviliðsins á Húsavík

Málsnúmer 202103056Vakta málsnúmer

Umræður um þann farveg og tímalínu sem sveitarfélagið þarf að móta um kaup á nýrri dælubifreið.
Byggðarráð leggur til að gert verði ráð fyrir kaupum á nýrri dælubifreið fyrir Slökkvilið Norðurþings í fjárhagsáætlun 2022 og þriggja ára áætlun. Sveitarstjóra er falið að hefja undirbúning frekari þarfagreiningar á bifreið og útboðsferli kaupanna.

6.Verbúð á Hafnarstétt - Stefnumótun

Málsnúmer 202106134Vakta málsnúmer

Vinnuskjal um mögulega sviðsmynd að uppbyggingu og afnotum Verbúða á Hafnarstétt á Húsavík liggur fyrir byggðarráði. Minnisblaðið er unnið af Arngrími Jóhannssyni f.h. Norðurslóðasetursins, fulltrúum Steinsteypis ehf og Reinar ehf.
Byggðarráð tekur jákvætt í grunnhugmynd um samstarf við uppbyggingu Norðurslóðaseturs á Húsavík í Verbúðum við Hafnarstétt. Byggðarráð fellst á að vinna áfram að samkomulagi um uppbyggingu húsnæðisins. Sveitarstjóra er falið að koma á framfæri hugmyndum byggðarráðs um útfærslu verkefnisins og aðkomu sveitarfélagsins að því.

7.Hverfisráð Öxarfjarðar 2019 - 2021

Málsnúmer 201908036Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur fundargerð Hverfisráðs Öxarfjarðar frá 22. febrúar sl.
Lagt fram til kynningar.

8.Auglýsing um ákv. ráðherra til að tryggja starfhæfi sveitarstjórna

Málsnúmer 202108003Vakta málsnúmer

Með ákvörðun ráðherra, dags. 19. mars 2020, var sveitarstjórnum veitt heimild til að víkja frá tilteknum ákvæðum sveitarstjórnarlaga til að tryggja starfshæfi sitt og auðvelda ákvarðanatöku við stjórn sveitarfélags, á grundvelli VI. bráðabirgðaákvæðis sveitarstjórnarlaga. Um var að ræða heimild sveitarstjórnar til að:

1. Nota fjarfundarbúnað á fundum sveitarstjórna án takmarkana
2. Víkka út valdsvið einstakra nefnda og fækka þannig nefndarfundum
3. Fela fastanefnd eða einstökum starfsmönnum sveitarfélags fullnaðarafgreiðslu tiltekinna mála sem varða ekki verulega fjárhag sveitarfélags, þrátt fyrir að kveðið sé á um annað í samþykktum sveitarfélags.
Lagt fram til kynningar.

9.Fundargerð aðalfundar Menningarmiðstöðvar Þingeyinga 2021

Málsnúmer 202108013Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur fundargerð aðalfundar Menningarmiðstöðvar Þingeyinga frá 7. júní sl. ásamt ársreikningi Menningarmiðstöðvarinnar fyrir árið 2020.
Lagt fram til kynningar.

10.Uppfærsla á skýrslu um stöðu innleiðingar Árósasamningsins

Málsnúmer 202108001Vakta málsnúmer

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið undirbýr nú uppfærslu á skýrslu um stöðu innleiðingar Árósasamningsins hér á landi. Skýrsla verður þriðja skýrsla Íslands um innleiðingu samningsins. Skýrslan verður unnin í samráði við umhverfisverndarsamtök og tekur ráðuneytið einnig við öllum ábendingum frá almenningi um efni hennar.

Ísland fullgilti í október 2011 Árósasamninginn um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum. Þar með varð Ísland fullgildur aðili að samningnum og því starfi sem tengist honum. Auk aðildarríkjaráðstefnu sem og ríkjafundum sem haldnir eru árlega eru á vettvangi samningsins reknir vinnuhópar um helstu málefni samningsins, þ.e. aðgang að upplýsingum, þátttökuréttindi almennings og aðgang að réttlátri málsmeðferð.

Á fjögurra ára fresti ber aðildarríkjum að skila aðildarríkjaskýrslu til skrifstofu samningsins þar sem farið er yfir stöðu innleiðingar ákvæða samningsins í viðkomandi ríki. Síðast skiluðu aðildarríkin skýrslu árið 2017 og var Ísland þar á meðal. Á þessu ári eiga aðildarríkin að skila skýrslu að nýju og verður hún til umræðu á næsta aðildarríkjaráðstefnu samningsins. Mikilvægt er að öll sjónarmið komi fram, bæði sjónarmið stjórnvalda, almennings og félagasamtaka sem nýta sér þann rétt sem aðild að samningnum veitir.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið vill vekja athygli á því að unnið er að undirbúningi skýrslu Íslands sem skilað verður á þessu ári. Á næstunni verða birt í samráðsgátt drög að skýrslunni til kynningar og athugasemda en auk þess mun ráðuneytið eiga sérstakt samráð við umhverfisverndarsamtök um efni hennar. Þá vill ráðuneytið hvetja alla þá sem áhuga hafa til að koma með ábendingar eða annað sem varðar væntanlega skýrslu. Tekið verður við almennum ábendingum og athugasemdum í samráðsgátt stjórnvalda til og með 23. ágúst nk. auk þess sem unnt verður að gera athugasemdir við drög að skýrslunni þegar þau verða birt.
Lagt fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 10:10.