Fara í efni

Grunnskóli Raufarhafnar - Umsókn um þróunarskólaleyfi

Málsnúmer 202306012

Vakta málsnúmer

Fjölskylduráð - 169. fundur - 21.11.2023

Fjölskylduráð hefur til umfjöllunar svar mennta- og barnamálaráðuneytisins við umsókn sveitarfélagsins um þróunarskólaleyfi við Grunnskóla Raufarhafnar.
Þrátt fyrir ítrekaðar auglýsingar eftir skólastjórnanda og kennara að Grunnskólanum á Raufarhöfn tókst ekki að manna skólann með réttindafólki fyrir skólaárið 2023-2024. Til að tryggja áframhaldandi skólastarf sendi Norðurþing þann 2. júní sl. formlegt erindi til mennta- og barnamálaráðuneytisins með ósk um að fá þróunarleyfi og þróunarstyrk til þess að þróa starfshætti fyrir örskóla þar sem gert væri ráð fyrir utanaðkomandi aðstoð við skólastjórnun og faglegan stuðning við ófaglærða kennara. Grunnur að umsókninni var þjónustusamningur við Ásgarð um fjar skólastjórn sem og að eldri nemendur skólans sætu fjarkennslu í Skóla í skýjunum.

Fundað var með starfsfólki ráðuneytisins um miðjan ágúst þar sem ekkert svar hafði borist. Í framhaldi af þeim fundi var óskað eftir frekari fyrirspurnum frá Norðurþingi með formlegum hætti til ráðuneytisins. Þá lá fyrir að skólastarf væri að hefjast og lagt upp með kennslu á Raufarhöfn í takt við umsóknina um þróunarleyfið.

Þann 16. október sl. barst svar ráðuneytisins við fyrirspurnum Norðurþings um skólastjórnun en ekki við umsókn Norðurþings um þróunarleyfið.
Þrátt fyrir ítrekaðar óskir um svör barst ekki formlegt svar frá ráðuneytinu fyrr en 14. nóvember sl. Þar er ósk Norðurþings um þróunarleyfi hafnað á grundvelli laga nr. 95/2019, um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, laga um grunnskóla, nr. 91/2008 og sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.
Fjölskylduráð harmar að tekið hafi rúma 5 mánuði að fá formlegt svar frá mennta- og barnamálaráðuneytinu vegna umsóknar Norðurþings um þróunarleyfi fyrir Grunnskólann á Raufarhöfn en skólastarf hefur verið rekið á grundvelli umsóknarinnar frá upphafi skólastarfs í haust.