Fara í efni

Fjölskylduráð

190. fundur 09. júlí 2024 kl. 08:30 - 12:00 í fundarsal GB5
Nefndarmenn
  • Helena Eydís Ingólfsdóttir formaður
  • Ingibjörg Hanna Sigurðardóttir varaformaður
  • Bylgja Steingrímsdóttir aðalmaður
  • Hanna Jóna Stefánsdóttir aðalmaður
  • Ísak Már Aðalsteinsson áheyrnarfulltrúi
  • Halldór Jón Gíslason varamaður
Starfsmenn
  • Hermína Hreiðarsdóttir Ritari
  • Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri
  • Hafrún Olgeirsdóttir Íþrótta- og tómstundafulltrúi
Fundargerð ritaði: Hermína Hreiðarsdóttir stjórnsýslufulltrúi
Dagskrá
Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri sat fundinn undir liðum 2-4, 6, 9,11 og 12.
Fanney Hreinsdóttir deildarstjóri félagslegrar heimaþjónustu sat fundinn undir lið 5.

Jónas Halldór Friðriksson framkvæmdastjóri Völsungs kom á fundinn undir lið 1.

Ingibjörg Hanna vék af fundi kl. 11:37.

1.Ársskýrsla og ársreikningur 2023

Málsnúmer 202406062Vakta málsnúmer

Fyrir fjölskylduráði liggur til kynningar ársskýrsla og ársreikningur íþróttafélagsins Völsungs fyrir árið 2023.
Á fund fjölskylduráðs mætti Jónas Halldór Friðriksson framkvæmdastjóri Völsungs og gerði grein fyrir ársskýrslu og ársreikning íþróttafélagsins fyrir árið 2023.
Fjölskylduráð þakkar Jónasi fyrir kynninguna og góða yfirferð á starfsemi félagsins.
Lagt fram til kynningar.

2.Sundlaugin í Lundi - rekstur sumarið 2024

Málsnúmer 202407040Vakta málsnúmer

Fyrir fjölskylduráði liggur til umræðu rekstur sundlaugarinnar í Lundi sumarið 2024 en borist hefur tilboð í rekstur laugarinnar í u.þ.b. einn mánuð.
Fjölskylduráð þakkar fyrir erindið.

Vegna ástands sundlaugarinnar sér fjölskylduráð sér ekki fært að hafa laugina opna í sumar fyrir almenning. Skipulags- og framkvæmdaráð telur enn fremur ekki forsvaranlegt að ráðast í frekara viðhald á lauginni að svo stöddu samanber bókun ráðsins frá 14. maí sl.

Þá hefur byggðarráð falið sveitarstjóra að fá uppfærða kostnaðaráætlun vegna byggingar á nýrri sundlaug í Lundi og mun hún liggja fyrir á haustdögum í aðdraganda fjárhagsáætlunargerðar.

3.Mærudagar 2024 - 2026

Málsnúmer 202312102Vakta málsnúmer

Til umræðu eru málefni er varða þrif og öryggisgæslu á Mærudögum 2024 og samningur vegna þrifa.


Fjölskylduráð samþykkir fyrirliggjandi samning.
Öryggisgæsla á Mærudögum er enn óleyst og hvetur ráðið félagasamtök til að bregðast við stöðunni.

4.Umsókn í lista- og menningarsjóð 2024

Málsnúmer 202407035Vakta málsnúmer

Hinseginfélag Þingeyinga sækir um styrk að upphæð 100.000 kr. í lista- og menningarsjóð Norðurþings vegna hinsegingöngu og hátiðarhöldum.
Fjölskylduráð samþykkir að styrkja Hinseginfélag Þingeyinga um 100.000 krónur.

5.Trúnaðarmál

Málsnúmer 202407041Vakta málsnúmer

Fyrir fjölskylduráði liggur trúnaðarmál.
Fært í trúnaðarmálabók.

6.Tillaga um uppsetningu á sviði í Skrúðgarðinn á Húsavík

Málsnúmer 202406080Vakta málsnúmer

Á 146.fundi sveitarstjórnar var eftirfarandi tillaga samþykkt samhljóða:
Undirrituð leggja til kannað verði að setja upp lítið svið á góðum stað í Skrúðgarðinum á Húsavík. Þannig verði að hægt sé að halda litla viðburði með skömmum fyrirvara og aðgang að rafmagni.

Bylgja Steingrímsdóttir
Eysteinn Heiðar Kristjánsson
Hjálmar Bogi Hafliðason
Fjölskylduráð leggur til við skipulags- og framkvæmdaráð að sviðið í Skrúðgarðinum verði staðsett samkvæmt teikningu á minnisblaði, við hlið Kvíabekkjar.

7.Ósk um að lögheimilissveitarfélag greiði kennslukostnað vegna tónlistarnáms

Málsnúmer 202406042Vakta málsnúmer

Fjölskylduráð heldur áfram umfjöllun sinni um ósk um að lögheimilissveitarfélag greiði kennslukostnað vegna tónlistarnáms Hafdísar Ingu Kristjánsdóttur og Írisar Ölmu Kristjánsdóttur.
Fjölskylduráð samþykkir að greiða kennslukostnað vegna tónlistarnáms Írisar Ölmu. Ráðið hafnar beiðni um að greiða kennslukostnað vegna tónlistarnáms Hafdísar Ingu þar sem hún uppfyllir ekki skilyrði í verklagsreglum Norðurþings vegna tónlistarnáms utan lögheimilissveitarfélags.

Til samræmis við þessa ákvörðun er sveitarstjóra falið að sækja um framlag frá Jöfnunarsjóði í samræmi við lög um breytingu á ýmsum lögum vegna samkomulags milli ríkis og sveitarfélaga um stuðning við tónlistarnám og jöfnun á aðstöðumun nemanda til tónlistarnáms.

8.Gjaldskrár velferðarsviðs 2025

Málsnúmer 202406021Vakta málsnúmer

Fjölskylduráð heldur áfram umfjöllun sinni um gjaldskrár velferðarsviðs 2025.
Undirrituð leggur til að sveitarstjóra verði falið að kanna fjárhagsleg áhrif þess að innleiða 6 klst. gjaldfrjálsa leikskóladvöl, þar sem áfram yrðu greidd fæðisgjöld og dvalargjöld fyrir dvöl umfram sex tíma á dag tæki hækkunum til samræmis við nýgerða kjarasamninga.

Undirrituð leggur til að sveitarstjóra verði falið að kanna fjárhagsleg áhrif þess að veita afslátt, t.d. sama og systkinaafslátt (25%) frá gjaldskrá vegna náms á fleiri en eitt hljóðfæri í Tónlistarskóla Húsavíkur.

Helena Eydís Ingólfsdóttir

Fjölskylduráð samþykkir samhljóða báðar tillögurnar.

9.Erindi frá Skólamötuneyti Húsavíkur til fjölskylduráðs

Málsnúmer 202406064Vakta málsnúmer

Fyrir fjölskylduráði liggur bréf frá yfirmatráði mötuneytis Borgarhólsskóla þar sem farið er yfir aðstöðu og starfsmannamál mötuneytisins.
Lagt fram til kynningar.

10.Ábyrgð og hlutverk sveitarfélaga vegna bils milli fæðingarorlofs og inntöku barna í leikskóla

Málsnúmer 202406063Vakta málsnúmer

Jafnréttisstofa vekur athygli á ábyrgð og hlutverki sveitarfélaga til að brúa bilið sem myndast þegar foreldrar hafa fullnýtt fæðingarorlofsrétt sinn og þangað til barn fær dvöl á leikskóla.
Í Norðurþingi eru starfræktir þrír leikskólar. Hingað til hefur verið hægt að bjóða foreldrum upp á leikskólavist frá u.þ.b. 12 mánaða aldri. Sveitarfélagið Norðurþing gengur nú í gegnum vaxtartímabil þar sem íbúum fjölgar og leikskólabörnum þar með. Við það mun skapast tímabundin staða þar sem foreldrar barna sem fædd eru fyrri hluta árs geta ekki með fullri vissu gengið að leikskólaplássi við 12 mánaða aldur sem vísu. Sveitarfélagið hefur brugðist við þessari þjónustuskerðingu með því að greiða foreldrum heimgreiðslur að upphæð 150.000 kr. á mánuði. Þá hefur sveitarfélagið hafið undirbúning að byggingu nýs leikskóla.

Fjölskylduráð fagnar því að Alþingi hafi ákveðið að fæðingarorlofsgreiðslur skyldu hækkaðar en hvetur til þess að fæðingarorlof verði lengt í 18 mánuði með hagsmuni barna í forgrunni.

11.Öryggi barna vegna umferðar á skólalóð Borgarhólsskóla

Málsnúmer 202406012Vakta málsnúmer

Fyrir fjölskylduráði liggja ábendingar frá foreldrum barna í verðandi 1. bekk Borgarhólsskóla, áhyggjur af öryggismálum á skólalóðinni vegna bílaumferðar.

Með fundarboðinu fylgir minnisblað sveitarstjóra, samantekt af þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til af hálfu skólans og framkvæmdasviðs með það að markmiði að takmarka og stýra umferð á lóðinni.
Fjölskylduráð felur sveitarstjóra í samráði við skólastjóra og yfirmatráð að leita leiða til að takmarka enn frekar umferð á skólalóðinni og leggja fyrir ráðið aftur í ágúst.

12.Grunnskóli Raufarhafnar - Umsókn um þróunarskólaleyfi

Málsnúmer 202306012Vakta málsnúmer

Á 170. fundi fjölskylduráðs þann 28. nóvember 2023 var eftirfarandi bókað:
"Formaður fjölskylduráðs leggur til að sveitarstjóra verði falið að óska eftir leiðbeiningum frá mennta- og
barnamálaráðuneyti varðandi framkvæmd skólahalds á Raufarhöfn í kjölfar þess að ráðuneytið synjaði Norðurþingi
um þróunarskólaleyfi vegna skólahalds á Raufarhöfn. Fjölskylduráð samþykkir tillögu formanns."

Sveitarstjóri sendi beiðni, ósk um leiðbeiningar, þann 6. desember 2023. Nú liggur fyrir svar frá Mennta- og barnamálaráðuneytinu .
Lagt fram til kynningar.

13.Samkomulag um þjónustu vegna farsældar barna

Málsnúmer 202407034Vakta málsnúmer

Fyrir fjölskylduráði liggur samkomulag milli Norðurþings og Þingeyjarsveitar um þjónustu vegna farsældar barna.

Gildistími þessa samkomulags er frá 01.07.2024 til ársloka 2024 nánar tiltekið 31. desember 2024 þannig að ekki verður rof á veittri þjónustu. Sveitarfélögin munu nota þann tíma til að leita leiða til að koma á lengri samningi sem tekur mið af þeim samningum sem verið er að gera víða um land.
Lagt fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 12:00.