Norðurþing semur við Terra um hirðu úrgangs frá heimilum og stofnunum
Fyrir skemmstu var undirritaður samningur milli Norðurþings og Terra vegna úrgangsmála á Húsavík og í Reykjahverfi.
Samningurinn felur í sér söfnun úrgangs frá heimilum og stofnunum, rekstur grenndarstöðva og rekstur móttökustöðvar.
Þrjú tilboð bárust í verkið og var samið við lægstbjóðanda, Terra, sem bauð 105,7% af kostnaðaráætlun en einnig bárust tilboð frá Íslenska Gámafélaginu, (137.5%) og Kubbi (120.9%)
Með tilkomu nýlegra laga frá Alþingi um úrgangsmál sem verða að fullu innleidd í Norðurþingi á næstu mánuðum er kveðið á um að málaflokkurinn í heild sinni skuli standa undir sér og að sveitarfélögum sé óheimilt að niðurgreiða kostnað vegna hirðu úrgangs með fjármagni frá öðrum málaflokkum.
Eitt af meginmarkmiðum laganna er því að innheimt sé í samræmi við veitta breytilega þjónustu og mun gjaldskrá því taka hlutfallslega töluverðum breytingum. Þannig mun hið svokallaða sorphirðugjald sem hingað til hefur verið jafnt á allar íbúðir falla úr gildi og gjaldið þaðan í frá skiptast í tvennt.
Annars vegar fast gjald á allar íbúðir og hins vegar breytilegt gjald miðað við þjónustu.
Þannig munu þeir íbúðareigendur sem fá eða óska eftir mestri þjónustu greiða meira en þeir sem fá eða óska eftir einfaldari eða ódýrari þjónustu. Til dæmis munu íbúðareigendur í einbýli mögulega greiða meira en íbúðareigengur í húsum með tveimur eða fleiri íbúðum, þ.e. fjölbýli, þar sem möguleiki er að samnýta ílát og þannig skipta kostnaði milli íbúða og því hagkvæmari niðurstöðu.
Íbúðareigendur í fjölbýli, þ.e. með tveim íbúðum og fleiri, er þannig boðið að samnýta ílát, mögulega lækka kostnað og ekki síst fækka ílátum, sem mun hafa mikil sjónræn áhrif.
Nánari upplýsingar um samnýtingu íláta verða kynntar innan tíðar.
Nokkrir tugir tvískiptra íláta, (tveir úrgangsflokkar í einni tunnu), eru í dag í notkun á Húsavík en þau verða á næstu vikum fjarlægð og tveimur aðskildum ílátum komið fyrir í staðinn. Þetta er fyrst og fremst gert þar sem ekki telst grundvöllur fyrir að starfrækja sorphirðubíl með búnaði til að losa tvískipt ílát fyrir innan við 50 ílát.
Rekstraraðilar á Húsavík og í Reykjahverfi munu áfram semja beint við verktaka um úrgangsþjónustu.
Við orlofshús (bústaði) á Húsavík og í Reykjahverfi mun áfram vera boðin losun á úrgangi í nálæga gáma yfir sumartímann og einnig notkun klippikorta sem veita aðgang að móttökustöð.
Samningur við Terra tekur gildi 1. október næstkomandi og í kjölfarið verða einhver útskipti á tvískiptum ílátum, eldri ílátum auk annarra minniháttar breytinga. Allar slíkar breytingar verða á næstu vikum kynntar á heimasíðu Norðurþings.
Varðandi Norðurþing austan Tjörneshrepps liggur fyrir að á næstu mánuðum verði samið við þjónustuaðila um hirðu úrgangs.
Undirbúningur því tengdu er nú þegar í gangi.