Fara í efni

Covidpistill sveitarstjóra #4

Helstu upplýsingar varðandi stöðuna hér í samfélaginu í dag eru þær að engar fréttir hafa borist af smituðum einstaklingi ennþá, þótt enn sitji á bilinu 50-60 í sóttkví. Langflestir hér á Húsavík og tilheyra þeim sem voru annaðhvort að koma erlendis frá á síðustu vikum eða tengjast atvikinu á HSN fyrir rúmri viku síðan. Góðar fréttir.

Frá upphafi þeirrar þjónustuskerðingar sem allt samfélagið okkar hefur þurft að þola undanfarið höfum við leitast við að gera börnum og ungmennum eins auðvelt og nokkur kostur er að stunda sitt nám og eiga í sem eðlilegustum samskiptum. En ekkert er eins og það var, í bili, og það eru allir að gera sitt besta í stöðunni. Aðstæður eru með afar misjöfnum hætti á milli sveitarfélaganna og allir vinna m.v. þær aðstæður sem eru á hverjum stað þegar kemur að rammanum sem samkomubannið setur okkur.

Í Norðurþingi höfum við ekki ennþá þurft að breyta nema lítilsháttar útaf okkar fyrstu áætlunum hvað leik- og grunnskólahaldið varðar. Við tókum þann pól í hæðina með okkar skipulag að gera frekar meira en minna þegar kemur að útfærslum skólahaldsins til að tryggja öryggi barna og starfsmanna. Þannig verður það að vera. Það eru hinsvegar mjög góð tíðindi að á hverjum degi er að bætast við upplýsingabanka sóttvarnarlæknis og almannavarna um það hvernig faraldurinn er að breiðast út. Af þeim sökum hefur sóttvarnarlæknir frekar styrkst í trúnni heldur en hitt með að börn og ungmenni smitast síður af covid-19, taka veikina vægar og smita færri. Allt bendir allavega til þess, sé tekið mið af þeim rannsóknum sem vitnað er til hér heima og í nágrannalöndunum. Því er rétt að taka undir mikilvægi þess að heilbrigð börn sem ekki sína einkenni flensu eða annara smitsótta séu sem mest í skólunum. Það hjálpar öllum. Að þessu sögðu verður líka að taka það fram að þessar aðstæður sem við vinnum nú við hafa hamlandi áhrif á þjónustuna og geta með stuttum fyrirvara skert hana enn frekar. Framhald næstu vikna verður áfram að byggja á traustu samstarfi foreldra og skólanna. Það ríkir mjög mikill skilningur á þessu öllu saman hér í samfélaginu og ég biðla til ykkar að halda áfram á sömu braut og taka tillit til þess uppleggs sem skólastjórnendur óska eftir að sé fylgt.

Mér finnst líka rétt að minnast á það að þeir sem eldri eru séu vel á varðbergi gagnvart þeirri óttaumræðu sem getur skapast meðal barna þessa dagana. Skólarnir hafa sent út góð ráð um það hvernig skynsamlegast og best sé að ræða við börnin okkur um stöðuna (meira að segja í samræmi við jákvæðan aga!). Upplýsingar og samtal skiptir öllu sem og að hlusta eftir því hvernig börnin okkar eru að tjá sig við þessar aðstæður.

Annars erum við heilt yfir að standa okkur mjög vel og það munum við gera áfram. Þær skorður sem okkar samskiptum eru settar núna eru ákveðnar fyrir okkur öll. Það er enginn neitt án heilsunnar. Stöndum saman – samt með tvo metra á milli.

Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings