Fara í efni

Bæjarráð Norðurþings - 151

Málsnúmer 1509002

Vakta málsnúmer

Bæjarstjórn Norðurþings - 51. fundur - 22.09.2015

Fyrir bæjarstjórn liggur til kynningar fundargerð 151. fundar bæjarráðs Norðurþings
Til máls tóku undir lið 8 "Velferðarráðuneytið, málefni flóttafólks": Óli, Kjartan, Jónas og Kristján

Bæjarstjórn Norðurþings fagnar því að íslensk stjórnvöld og stök sveitarfélög hafi lýst vilja til að taka á móti flóttamönnum. Mikilvægt er að þær þjóðir og þau samfélög sem geta, axli ábyrgð og geri sitt til að létta á vanda þar sem brýn þörf krefur. Norðurþing hefur góðar aðstæður til að leggja lóð á vogarskálarnar og greiða fyrir því að flóttamönnum verði sköpuð ný tækifæri og góð lífsskilyrði. Í Norðurþingi er öflugt og fjölbreytt samfélag, töluvert framboð atvinnu og góður grunnur til að taka á móti nýjum íbúum og þar á meðal flóttafólki. Þá er töluverð reynsla í samfélögum Norðurþings í móttöku nýbúa. Því má ljóst vera að sveitarfélagið er vel í stakk búið til að veita flóttafólki skjól og leggja þannig sitt af mörkum til mannúðarmála í heiminum. Móttaka flóttamanna verði þegar tekin til umfjöllunar í félags- og barnaverndarnefnd, fræðslu- og menningarnefnd og tómstunda- og æskulýðs Norðurþings til umfjöllunar og útfærslu, s.s. varðandi fjárhagslega þætti og samstarf við mannúðar- og félagasamtök. Bæjarstjóra jafnframt falið að hafa samband við velferðarráðuneytið og óska eftir viðræðum um að sveitarfélagið geti við fyrsta tækifæri tekið á móti flóttafólki.

Til máls tóku undir lið 9 - "Húsavíkurflugvöllur, skerðing viðhaldsfjár til flugvalla á landsbyggðinni": Kjartan, Olga, Jónas, Óli, Kristján og Soffía

Bæjarstjórn skorar á stjórnvöld að falla frá áformum um skerðingu fjárframlags til viðhalds flugvalla á landsbyggðinni sem fram koma í fjárlagafrumvarpinu. Í fjárlagafrumvarpi alþingis fyrir árið 2016 (liður 672) segir: "Gert er ráð fyrir að fjárheimild liðarins lækki um 516,5 m.kr. að raungildi frá fjárlögum yfirstandandi árs. Annars vegar er gert ráð fyrir að niður falli 500 m.kr. tímabundið framlag til viðhalds flugvalla á landsbyggðinni. Hins vegar er lögð til 16,5 m.kr. lækkun útgjalda til að mæta aðhaldsmarkmiðum í frumvarpinu." Bæjarstjórn vekur athygli á því að starfsemi á Húsavíkurflugvelli hefur verið að aukast og eflast undanfarin ár. Framundan er mikil atvinnuuppbygging á svæðinu og jafnframt hefur ferðamannafjöldi aukist hratt. Á sama tíma hefur lengi legið fyrir brýn þörf á viðhaldi og úrbótum á búnaði á Húsavíkurflugvelli. Fulltrúar Isavia kynntu bæjarráði Norðurþings áform fyrirtækisins um viðhaldsaðgerðir á fundi fyrir nokkrum mánuðum. Bæjarstjórn fer fram á það að nauðsynlegar úrbætur verði framkvæmdar á Húsavíkurflugvelli og ríkisvaldið sinni þar með þeim innviðum sem því ber í samgöngukerfi landsins.

Fundargerðin er lögð fram