Fara í efni

Skipulags- og framkvæmdaráð - 18

Málsnúmer 1812002F

Vakta málsnúmer

Sveitarstjórn Norðurþings - 88. fundur - 22.01.2019

Fyrir sveitarstjórn liggur fundargerð 18. fundar skipulags- og framkvæmdaráðs Norðurþings.
Til máls tók undir lið 15 "Kæra Gentle Giants hvalaferða ehf. vegna framkvæmda við Hafnarstétt 13": Kristján, Hjálmar, Örlygur, Silja, Kolbrún Ada, Bergur og Helena.

Kristján leggur fram eftirfarandi bókun:
Í ljósi óvæginnar umfjöllunar forsvarsmanns Gentle Giants - Hvalaferða ehf. m.a. um skipulags- og byggingarfulltrúa Norðurþings í Víkurblaðinu þann 17.1.2019 vill undirritaður árétta eftirfarandi.
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 17. september 2018 kærði Gentle Giants - Hvalaferðir ehf., ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Norðurþings frá 6. september 2018 um að óleyfisframkvæmdir utan lóðarmarka Hafnarstéttar 13 skuli fjarlægðar og gengið frá röskuðu landi fyrir 20. september sama mánaðar. Deilt var um lögmæti þessarar ákvörðunar skipulags- og byggingarfulltrúa um að hlaðinn steinveggur utan lóðarmarka Hafnarstéttar 13 skyldi fjarlægður og gengið frá röskuðu landi og einnig um lögmæti ákvörðunar byggingarfulltrúa frá 25. september um að fjarlægja skuli nefndan vegg á kostnað lóðarhafa.
Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar, sem er endanleg, lá fyrir 13. desember sl.. Þar kemur skýrt fram að umræddur veggur er reistur utan heimilaðrar staðsetningar, sem þó hafði verið liðkað fyrir um að mætti standa utan lóðamarka, við afgreiðslu erindis frá Gentle Giants um frágang lóðar. Ítrekað hafði verið í þrígang af skipulags- og umhverfisnefnd og það staðfest í sveitarstjórn samhljóða hverjar heimildir fyrirtækisins voru til frágangsins. Mátti forsvarsmanni Gentle Giants því vera ljóst að sveitarfélagið var ekki tilbúið að veita frekari heimildir til að byggja utan lóðarmarka og inn á land sveitarfélagsins. Því miður er hinn reisti veggur hvorki í samræmi við gildandi deiliskipulag svæðisins né ítrekaða afgreiðslu nefnda sveitarfélagsins og sveitarstjórnar. Enda kemst úrskurðarnefnd umhverfis og auðlindamála að því að um óleyfisframkvæmd sé að ræða. Byggingarfulltrúa var sannarlega heimilt að grípa til þeirra úrræða sem finna má í lögum um mannvirki nr. 160/2010 og fara fram á að veggurinn yrði fjarlægður og jarðrask afmáð, sbr. 2. mgr. 55. gr. framangreindra laga, á kostnað lóðarhafa.
Ennfremur er tekið fram í úrskurðinum að ekki verði séð að rannsókn málsins hafi verið áfátt af hálfu skipulags- og byggingarfulltrúa eða að brotið hafi verið gegn andmælarétti kæranda við meðferð þess, enda var kæranda gefinn kostur á að koma að athugasemdum, sem og hann gerði. Þá féllst úrskurðarnefndin heldur ekki á að rökstuðningi fyrir ákvörðuninni hafi verið áfátt eða að ekki hafi verið gætt meðalhófs, þegar höfð er hliðsjón af málsatvikum. Í úrskurði nefndarinnar er skýrt kveðið á um að ekki hafi verið um að ræða vanhæfi byggingarfulltrúa í málinu eins og kærandi reyndi að færa rök fyrir og ekkert af málsframvindu ráðið sem renni stoðum undir ályktun um að óvild hafi ráðið för gagnvart forsvarsmanni Gentle Giants eða fyrirtækinu sem slíku þegar umræddar ákvarðanir voru teknar. Úrskurðarnefndin kvað því upp sinn dóm að ekki væru fyrir hendi þeir ágallar á efni eða málsmeðferð hinna kærðu ákvarðana sem raskað gátu gildi þeirra og var því kröfu þess efnis alfarið hafnað.
Það er eitt að aðilar séu ósáttir við ákvarðanir sveitarstjórnar og gagnrýni þær þá með uppbyggilegum hætti en það er ekki hægt að sitja undir því hljóðalaust þegar forsvarsmenn jafn öflugra fyrirtækja og Gentle Giants - Hvalaferða ehf. bera uppá starfsmenn sveitarfélagsins jafn alvarlegar ávirðingar um illkvittni, heift og órökstuddar geðþóttaákvarðanir eins og þær sem lesa má í ofangreindu Víkurblaði, þegar fyrir liggur að slíkt stenst enga skoðun sbr. þann úrskurð sem vitnað er til hér að ofan. Sveitarstjórn ætlast til að þeim ákvörðunum sem teknar eru í nefndum og ráðum og staðfestar eru í sveitarstjórn, í þessu tilviki í þrígang, sé fylgt eftir af starfsmönnum sveitarfélagsins. Jafnframt að þeir sinni störfum sínum í samræmi við lög og reglugerðir sem gilda um störf þeirra og þá málaflokka sem þeir starfa að hverju sinni. Það var gert af skipulags- og byggingarfulltrúa í þessu máli eins og komist er að niðurstöðu um í úrskurði úrskurðarnefndarinnar. Bent skal á að allan úrskurðinn má lesa hér: http://uua.is/?c=verdic&id=1698

Helena, Kolbrún Ada, Silja og Örlygur Hnefill tóku undir bókun Kristjáns.



Fundargerðin er lögð fram til kynningar.