Fara í efni

Byggðakvóti í Norðurþingi, ósk um breytingar á reglugerð er varðar stærð byggðarlaga sem falla innan punkta útreiknings

Málsnúmer 201503061

Vakta málsnúmer

Bæjarráð Norðurþings - 135. fundur - 26.03.2015

Fyrir bæjarráði liggur drög að bréfi frá Norðurþingi til Sigurðar Inga Jóhannssonar, sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra þar sem óskað er eftir breytingu á reglulegrð nr. 651/2014, útreikningi á úthlutun byggðakvóta.
Sveitarfélagið Norðurþing óskar hér formlega eftir því að breytingar verði gerðar á reglugerð nr.651/2014 um úthlutun byggðakvóta á fiskveiðiárinu 2015/2016.

Breytingar sem óskast gerðar eru í 4.gr reglugerðarinnar þar sem stærð byggðarlaga sem falla innan punkta útreiknings er fest við 2.000 íbúa. Óskað er eftir því að íbúafjöldi byggðarlaga verði aukinn í 2.300 íbúa.

Röksemdafærsla breytinganna eru eftirfarandi. Byggðarlagið Húsavík fellur ekki innan skilgreiningar um brothættar byggðir sem kost eiga á sérmerktu aflamarki Byggðastofnunar og fellur ekki heldur innan skilgreininga vegna punkta útreiknings til byggðakvóta, þar sem íbúatala er lítillega yfir skilgreindum mörkum núverandi reglugerðar. Þetta er þrátt fyrir þá stöðu að á sl. fiskveiðári hafi stærstur hluti varanlegs aflamarks horfið úr byggðarlaginu við brottför Vísis hf. frá Húsavík. Það að missa úr byggðarlaginu jafn stórt hlutfall aflamarks verður til þess að það hriktir í stoðum sjávarútvegs í sveitarfélaginu og undirstöðu atvinnugrein svæðisins stendur löskuð eftir. Ennfremur rennur út á þessu ári sólarlagsákvæði úthlutunarreglna um Byggðakvóta sem snýr að ívilnun vegna samdráttar í vinnslu á rækju, sem gerir það að verkum að Húsavík mun ekki fá nokkra úthlutun verði reglum ekki breytt.

Hjá Vísi hf á Húsavík unnu 47 manns þar til vinnslu var hætt vorið 2014. Stórt hlutfall þeirra einstaklinga sem nú eru á atvinnuleysisskrá í sveitarfélaginu, eru fyrrum starfsmenn Vísis hf. Þónokkrir fyrrum starfsmenn fyrirtækisins hafa flutt burtu síðan fyrirtækið hætti starfsemi í bænum. Brotthvarf Vísis sl. vor hefur því sannarlega haft neikvæð áhrif á útsvarstekjur Norðurþings, sem eðli málsins samkvæmt er þungt fyrir rekstur sveitarfélags sem hefur horft uppá neikvæða íbúaþróun m.t.t. aldurssamsetningar og flutninga fólks úr sveitarfélaginu.

Íbúar sveitarfélagsins eru óttaslegnir vegna þróunarinnar í sjávarútvegsstarfsemi í Norðurþingi. Óttaslegnir vegna þess að tap þessa hlutfalls aflamarks úr sveitarfélaginu gerir starfsumhverfi sjávarútvegs sem eftir stendur mun erfiðara fyrir en áður og getur orðið til þess að sjósókn og fiskvinnsla leggist hreinlega af á Húsavík ef ekki kemur til mótvægisaðgerða. Engar sértækar bætur hafa komið til umræðu fram að þessu í ljósi ofangreindra áfalla fyrir byggðalagið.

Það er einlæg ósk sveitarfélagsins Norðurþings að til móts við okkur verði komið og að Húsavík falli innan viðmiða punktaútreikningskerfisins við úthlutun Byggðakvóta fyrir n.k. fiskveiðiár 2015/16

Bæjarráð felur bæjarstjóra að fylgja málinu eftir með formlegu bréfi til ráðherra.