Fara í efni

Matvælastofnun óskar eftir umsögn vegna útgáfu rekstrarleyfis fyrir Samherja fiskeldi vegna landeldis að Núpsmýri í Öxarfirði

Málsnúmer 201903044

Vakta málsnúmer

Skipulags- og framkvæmdaráð - 27. fundur - 26.03.2019

Óskað er umsagnar Norðurþings um allt að 3.000 tonna framleiðslu af laxi og bleikju í Núpsmýri. Núverandi rekstrarleyfi nær til 1.600 tonna. Fyrir liggur afstaða Skipulagsstofnunar dags. 9. júní 2017 um að fyrirhuguð stækkun fiskeldis að Núpsmýri sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif.
Skipulags- og framkvæmdaráð Norðurþings telur að fyrirhuguð aukning í fiskeldi í Núpsmýri sé í samræmi við aðalskipulag Norðurþings 2010-2030. Á hinn bóginn er ekki í gildi deiliskipulag fyrir svæðið sem sé forsenda fyrir þeirri uppbyggingu sem fyrirhuguð er. Landeigandi á Núpi hefur komið þeim skilaboðum til Norðurþings að hann telji að þegar hafi verið byggt út fyrir umsamin lóðarmörk vegna fiskeldis í Núpsmýri. Skipulags- og framkvæmdaráð telur mikilvægt að fengin verði niðurstaða í lóðarmál fyrirtækisins áður en til frekari uppbyggingar kemur. Landeigendur á svæðinu telja að vatnsnotkun fiskeldisins hafi þegar valdið niðurdrætti á grunnvatni í Núpsmýri og telur skipulags- og framkvæmdaráð að gera þurfi skýrari grein fyrir mögulegum auknum niðurdrætti grunnvatnsyfirborðs vegna aukinnar vatnstöku.
Skipulags- og framkvæmdaráð Norðurþings telur sér ekki fært að veita jákvæða umsögn um aukningu framleiðslu fiskeldis í Núpsmýri á þessu stigi í ljósi ofangreinds.

Skipulags- og framkvæmdaráð - 29. fundur - 11.04.2019

Til fundarins mættu Arnar Freyr Jónsson og Jón Kjartan sem gerðu grein fyrir sjónarmiðum Samherja fiskeldis gagnvart bókun skipulags- og framkvæmdaráðs á fundi 26. mars s.l.
Skipulags- og framkvæmdaráð þakkar Arnari Frey og Jóni Kjartani kynninguna.

Fyrir liggur yfirlýsing forsvarsmanna Samherja fiskeldis að ekki verði um aukna grunnvatnstöku að ræða samfara stækkun fiskeldisins. Í því ljósi veitir skipulags- og framkvæmdaráð jákvæða umsögn um fyrirhugaða stækkun fiskeldis í Núpsmýri að því gefnu að forsvarsmenn Samherja fiskeldis og landeigendur á svæðinu nái samkomulagi um stækkun lóðar fyrirtækisins.