Fara í efni

SSNE - starf verkefnastjóra

Málsnúmer 202106002

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Norðurþings - 364. fundur - 03.06.2021

SSNE auglýsti þann 18. maí síðastliðinn eftir verkefnastjóra menningarmála sem einnig mun koma að atvinnuráðgjöf og nýsköpun. Umsóknarfrestur um starfið rann út þann 2. júní síðastliðinn.
Byggðarráð óskar eftir ítarlegri upplýsingum um þær breytingar sem útlit er fyrir að séu að verða á starfsstöð SSNE á Húsavík. Sveitarstjóra er falið að bjóða framkvæmdastjóra SSNE á fund byggðarráðs.

Hjálmar óskar bókað;
Á hvaða vegferð er SSNE?

Byggðarráð Norðurþings - 366. fundur - 01.07.2021

Til fundar við byggðarráð kemur framkvæmdastjóri SSNE, Eyþór Björnsson, sbr. neðangreint.

Á 364. fundi byggðarráðs var bókað;
Byggðarráð óskar eftir ítarlegri upplýsingum um þær breytingar sem útlit er fyrir að séu að verða á starfsstöð SSNE á Húsavík. Sveitarstjóra er falið að bjóða framkvæmdastjóra SSNE á fund byggðarráðs.

Hjálmar óskar bókað;
Á hvaða vegferð er SSNE?
Byggðarráð þakkar Eyþóri fyrir komuna og greinargóðar upplýsingar um breytingar á starfsstöð SSNE á Húsavík.

Hjálmar Bogi óskar bókað;
Samtök sveitarfélag og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra, skammstafað SSNE, var stofnað 2020 við umdeilda sameiningu Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar, Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga og Eyþings. Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga hafði unnið gott starf með góða tengingu við verkalýðshreyfinguna sem og fulltrúa atvinnurekanda í Þingeyjarsýslu. Sameiningin var keyrð í gegn af meirihluta sveitarstjórnar Norðurþings án fullnægjandi raka.
Fram kemur á vefsíðu samtakanna að heimili og varnarþing samtakanna er á skrifstofu SSNE á Húsavík, eftir ítrekanir að hálfu minnihluta sveitarstjórnar. Hlutverk SSNE er að þjónusta sveitarstjórnir og atvinnulíf á starfssvæði landshlutasamtakanna. Samtökin áttu m.a. að taka við hlutverki Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga (AÞ) á sviði atvinnuþróunar.
Dregið hefur úr mætti og starfsemi SSNE, sem tók við hlutverki AÞ. Ljóst má vera mikilvægi þess að endurmeta stöðuna og rýna til gagns. Starfsmaður SSNE sem sinna á atvinnumálum hefur látið af störfum en hann hafði ekki búsetu á Húsavík eða nágrenni, þrátt fyrir að um það hafi verið gefið vilyrði. Fram kom í erindi frá SSNE að félagið hyggst staðsetja starfsmann á Húsavík sem sinni menningarmálum félagsins. Hvar var sú ákvörðun tekin? Hvernig var stöðumati háttað þar sem fram kemur þörf fyrir slíkt starf á Húsavík umfram starf sem felur í sér aðra þætti s.s. atvinnumál og -uppbyggingu á þeim tækifærum sem hér finnast.
Rétt er að benda á að ekkert samráð hefur verið haft við kjörna fulltrúa í sveitarstjórn Norðurþings vegna framangreindrar breytingar. Slíkt vekur óneitanlega furðu og ekki líklegt til að skapa samstöðu og traust.

Sveitarstjóri óskar bókað;
Starfsemi SSNE hefur gengið vel undanfarið ár og kraftmikið starfsfólk sýnt að ákvörðunin um að sveitarfélögin á Norðausturlandi nýti sameiginlegan slagkraft í atvinnu- og byggðamálum var rétt skref. Starfshlutföll á starfsstöðinni á Húsavík hafa verið aukin frá stofnun SSNE, þótt áherslur hvað starfssvið starfsmanna varðar hafi breyst af eðlilegum rekstrarlegum ástæðum. Samstarf sveitarfélagsins Norðurþings og SSNE er gott og verður það áfram. Viðspyrna atvinnu- og menningarlífs á svæðinu á mikið undir því að stoðþjónusta sveitarfélaganna sé öflug og sinni hverju vinnusóknarsvæði vel. Því treysti ég að nú þegar líður undir lok hins krefjandi Covid- tíma gefist enn frekari tækifæri fyrir starfsemi SSNE til að verða enn meira áberandi í sveitarfélögunum sem að samtökunum standa.

Benóný Valur tekur undir bókun sveitarstjóra.

Undirrituð tekur undir bókun sveitarstjóra en spyr hvar og hvenær fulltrúar minnihlutans hafa ítrekað að heimili og varnarþing SSNE verði á Húsavík. Í fundargerð EYÞINGS frá aukaaðalfundi samtakanna þann 9. apríl er bókað eftir tveimur fulltrúum B-lista öndverð afstaða.
Sviðsstjóra atvinnu- og búsetuþróunar sem senn lætur af störfum er óskað velfarnaðar á nýjum vettvangi með þökk fyrir sín störf og nýr verkefnastjóri menningar, atvinnu og nýsköpunar boðinn velkominn til starfa.

Helena Eydís Ingólfsdóttir

Hjálmar bókar enn;
Í bókun Helenu er vísað í túlkun starfsmanns á fundi SSNE á orðum undirritaðs. Undirritaður hefur gert athugasemd við það vinnulag enda hefur því verið hætt. Bókun Helenu er því röng.