Fara í efni

Byggðarráð Norðurþings

366. fundur 01. júlí 2021 kl. 08:30 - 11:40 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Nefndarmenn
  • Helena Eydís Ingólfsdóttir formaður
  • Benóný Valur Jakobsson varaformaður
  • Kolbrún Ada Gunnarsdóttir áheyrnarfulltrúi
  • Hjálmar Bogi Hafliðason áheyrnarfulltrúi
  • Kristján Friðrik Sigurðsson aðalmaður
  • Kristján Þór Magnússon sveitarstjóri
Starfsmenn
  • Drífa Valdimarsdóttir fjármálastjóri
Fundargerð ritaði: Drífa Valdimarsdóttir fjármálastjóri
Dagskrá
Eyþór Björnsson framkvæmdastjóri SSNE sat fundinn undir lið 3.

1.Íbúafundur um tækifæri til þróunar grænna iðngarða á Bakka

Málsnúmer 202106133Vakta málsnúmer

Frá því í vor hefur samstarfsverkefni verið unnið um tækifæri til þróunar grænna iðngarða á Íslandi. Að verkefninu hafa komið atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Íslandsstofa, Landsvirkjun og Norðurþing. Einn hluti verkefnisins hefur verið sá að máta inn mögulegar sviðsmyndir um næstu skref atvinnuuppbyggingar á forsendum ofangreindra grænna iðngarða á Bakka við Húsavík. Þriðjudaginn 6. júlí kl 16:30 á Fosshótel Húsavík er komið að íbúafundi, þar sem verkefnið verður kynnt og umræður teknar um tækifærin til frekari atvinnu- og verðmætasköpunar á grunni endurnýjanlegrar orku á forsendum hringrásarhagkerfis grænna iðngarða. Íbúar eru hvattir til að mæta á fundinn og taka þátt í umræðum um stöðuna.
Byggðarráð hvetur íbúa til þátttöku í fundinum og að láta sig atvinnumál á svæðinu varða.

2.Húsnæðismál á Kópaskeri og í Öxarfirði

Málsnúmer 202106132Vakta málsnúmer

Til að afla ítarlegri gagna um stöðu húsnæðismála á Kópaskeri og í Öxarfirði leggur sveitarstjóri það til að framkvæmd verði íbúakönnun um mögulega húsnæðisþörf á svæðinu samfara auknum umsvifum í atvinnulífinu á Kópaskeri. Fyrir liggur tilboð frá Þekkingarneti Þingeyinga um framkvæmdina.
Helena Eydís víkur af fundi undir þessum lið.
Byggðarráð felur sveitarstjóra að ganga til samninga við Þekkingarnet Þingeyinga um íbúakönnun.

3.SSNE - starf verkefnastjóra

Málsnúmer 202106002Vakta málsnúmer

Til fundar við byggðarráð kemur framkvæmdastjóri SSNE, Eyþór Björnsson, sbr. neðangreint.

Á 364. fundi byggðarráðs var bókað;
Byggðarráð óskar eftir ítarlegri upplýsingum um þær breytingar sem útlit er fyrir að séu að verða á starfsstöð SSNE á Húsavík. Sveitarstjóra er falið að bjóða framkvæmdastjóra SSNE á fund byggðarráðs.

Hjálmar óskar bókað;
Á hvaða vegferð er SSNE?
Byggðarráð þakkar Eyþóri fyrir komuna og greinargóðar upplýsingar um breytingar á starfsstöð SSNE á Húsavík.

Hjálmar Bogi óskar bókað;
Samtök sveitarfélag og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra, skammstafað SSNE, var stofnað 2020 við umdeilda sameiningu Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar, Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga og Eyþings. Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga hafði unnið gott starf með góða tengingu við verkalýðshreyfinguna sem og fulltrúa atvinnurekanda í Þingeyjarsýslu. Sameiningin var keyrð í gegn af meirihluta sveitarstjórnar Norðurþings án fullnægjandi raka.
Fram kemur á vefsíðu samtakanna að heimili og varnarþing samtakanna er á skrifstofu SSNE á Húsavík, eftir ítrekanir að hálfu minnihluta sveitarstjórnar. Hlutverk SSNE er að þjónusta sveitarstjórnir og atvinnulíf á starfssvæði landshlutasamtakanna. Samtökin áttu m.a. að taka við hlutverki Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga (AÞ) á sviði atvinnuþróunar.
Dregið hefur úr mætti og starfsemi SSNE, sem tók við hlutverki AÞ. Ljóst má vera mikilvægi þess að endurmeta stöðuna og rýna til gagns. Starfsmaður SSNE sem sinna á atvinnumálum hefur látið af störfum en hann hafði ekki búsetu á Húsavík eða nágrenni, þrátt fyrir að um það hafi verið gefið vilyrði. Fram kom í erindi frá SSNE að félagið hyggst staðsetja starfsmann á Húsavík sem sinni menningarmálum félagsins. Hvar var sú ákvörðun tekin? Hvernig var stöðumati háttað þar sem fram kemur þörf fyrir slíkt starf á Húsavík umfram starf sem felur í sér aðra þætti s.s. atvinnumál og -uppbyggingu á þeim tækifærum sem hér finnast.
Rétt er að benda á að ekkert samráð hefur verið haft við kjörna fulltrúa í sveitarstjórn Norðurþings vegna framangreindrar breytingar. Slíkt vekur óneitanlega furðu og ekki líklegt til að skapa samstöðu og traust.

Sveitarstjóri óskar bókað;
Starfsemi SSNE hefur gengið vel undanfarið ár og kraftmikið starfsfólk sýnt að ákvörðunin um að sveitarfélögin á Norðausturlandi nýti sameiginlegan slagkraft í atvinnu- og byggðamálum var rétt skref. Starfshlutföll á starfsstöðinni á Húsavík hafa verið aukin frá stofnun SSNE, þótt áherslur hvað starfssvið starfsmanna varðar hafi breyst af eðlilegum rekstrarlegum ástæðum. Samstarf sveitarfélagsins Norðurþings og SSNE er gott og verður það áfram. Viðspyrna atvinnu- og menningarlífs á svæðinu á mikið undir því að stoðþjónusta sveitarfélaganna sé öflug og sinni hverju vinnusóknarsvæði vel. Því treysti ég að nú þegar líður undir lok hins krefjandi Covid- tíma gefist enn frekari tækifæri fyrir starfsemi SSNE til að verða enn meira áberandi í sveitarfélögunum sem að samtökunum standa.

Benóný Valur tekur undir bókun sveitarstjóra.

Undirrituð tekur undir bókun sveitarstjóra en spyr hvar og hvenær fulltrúar minnihlutans hafa ítrekað að heimili og varnarþing SSNE verði á Húsavík. Í fundargerð EYÞINGS frá aukaaðalfundi samtakanna þann 9. apríl er bókað eftir tveimur fulltrúum B-lista öndverð afstaða.
Sviðsstjóra atvinnu- og búsetuþróunar sem senn lætur af störfum er óskað velfarnaðar á nýjum vettvangi með þökk fyrir sín störf og nýr verkefnastjóri menningar, atvinnu og nýsköpunar boðinn velkominn til starfa.

Helena Eydís Ingólfsdóttir

Hjálmar bókar enn;
Í bókun Helenu er vísað í túlkun starfsmanns á fundi SSNE á orðum undirritaðs. Undirritaður hefur gert athugasemd við það vinnulag enda hefur því verið hætt. Bókun Helenu er því röng.

4.Frumherji - þjónusta við austursvæði Norðurþings

Málsnúmer 202106003Vakta málsnúmer

Sveitarstjóri gerir grein fyrir samtölum og viðbrögðum forsvarsmanna Frumherja við áskorun íbúa og sveitarfélagsins um betra aðgengi að bifreiðaskoðun til handa íbúum í dreifbýlum svæðum austan Húsavíkur.
Sveitarstjóri gerði grein fyrir samtölum við forsvarsmenn Frumherja og greindi frá útskýringum þeirra á stöðunni. Ákvörðun um að leggja af fyrri þjónustu við skoðanir á bifreiðum á Kópaskeri og Þórshöfn stendur. Það má þó vera ljóst að metnaður Frumherja liggur til þess að bæta þjónustu við dreifðari byggðir á norðausturhorninu, meðal annars með því að taka upp tímapöntunarkerfi í þjónustustöð á Húsavík og með árvissri heimsókn færanlegrar skoðunarstöðvar á svæðið.

5.Verbúð á Hafnarstétt - Stefnumótun

Málsnúmer 202106134Vakta málsnúmer

Undangengin ár hafa ýmsar vangaveltur verið reifaðar um heppilegustu nýtingu svokallaðra Verbúða á Hafnarstétt. Eignin hefur verið á sölu, en fáir sýnt henni áhuga. Sveitarstjóri óskar eftir umræðu um tækifæri og áskoranir sveitarfélagsins til að koma húsnæðinu í skynsamlega nýtingu sem fyrst. Eignin er komin á mikið viðhald og brýnt að marka skýra stefnu um hvað gera skuli í ljósi stöðunnar.
Byggðarráð felur sveitarstjóra að taka saman minnisblað um tækifæri og áskoranir við uppbyggingu og framtíðarnýtingu húsnæðisins.

6.Minnisblað um innheimtuþjónustu Motus

Málsnúmer 202106087Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur minnisblað um innheimtuþjónustu frá Motus þar sem lagðar eru til breytingar á innheimtuflokkum.
Byggðarráð samþykkir þær breytingar sem fram koma í minnisblaðinu en þær fela meðal annars í sér lækkun á innheimtukostnaði á lægstu kröfum og fjölgun gjaldflokka.

7.Staða framkvæmda og fjármál varðandi uppbyggingu íbúðakjarna við Stóragarð - Vík hses.

Málsnúmer 202106131Vakta málsnúmer

Hjálmar Bogi Hafliðason óskar eftir opinberu minnisblaði um stöðu framkvæmda og fjármála varðandi uppbyggingu íbúðakjarna fyrir fatlaða við Stóragarð, Vík hses.
Fyrir byggðarráði liggur minnisblað frá fjármálastjóra um málið.

8.Starf framkvæmda- og þjónustufulltrúa

Málsnúmer 202106130Vakta málsnúmer

Hjálmar Bogi Hafliðason leggur fram eftirfarandi tillögu:
Undirritaður leggur til að staða framkvæmda- og þjónustufulltrúa Norðurþings verði auglýst. Jafnframt verði sveitarstjóra falið að leggja fram drög að starfslýsingu sem og formlegri auglýsingu til umræðu og staðfestingar á næsta fundi byggðarráðs. Æskilegt er að ráðið verði í stöðuna eigi síðar en 1. september nk.

Greinargerð:
Samkvæmt munnlegum heimildum úr stjórnsýslu Norðurþings hefur framkvæmda- og þjónustufulltrúi Norðurþings sagt starfi sínu lausu og mun hætta í lok ágúst. Í ráðningarferli er mikilvægt að hafa góðan tíma og vanda vel til verka. Undirritaður vill nota tækifærið og óska Gunnari Hrafni Gunnarssyni, framkvæmda og þjónustufulltrúa Norðurþings velfarnaðar á nýjum vettvangi.
Byggðarráð hafnar tillögunni.

Undirrituð óska bókað;
Sveitarstjórnarfulltrúar hafa tilteknu hlutverki að gegna þegar kemur að starfsmannamálum. Það hlutverk lýtur til að mynda að því að setja starfsmannastefnu og launastefnu, ásamt því að hafa eftirlit með því að stjórnsýslan starfi með eðlilegum hætti.
Starfmannaauður sveitarfélagsins hefur einna mest um það að segja hvernig og hversu vel sveitarfélagi tekst að sinna verkefnum sínum. Sveitarstjóri er æðsti yfirmaður starfsliðs sveitarfélagsins eins og kemur fram í 53. gr. samþykkta Norðurþings, sem slíkur þekkir hann einna best til mannauðsins og hæfni hans. Undirrituð bera fullt traust til þeirrar ráðstöfunar sem sveitarstjóri vinnur nú að varðandi tímabundna ráðstöfun þar sem núverandi starfsmaður sveitarfélagsins mun sinna starfi framkvæmda- og þjónustufulltrúa á næstu mánuðum. Að þeim tíma liðnum verður starfið auglýst.

Benóný Valur, Helena Eydís, Kolbrún Ada og Kristján Friðrik

9.Samþætting skóla og tómstundastarfs KPMG viðauki

Málsnúmer 202106115Vakta málsnúmer

Á 94. fundi fjölskylduráðs var bókað;
Fjölskylduráð felur sviðsstjórum að vinna að viðauka að upphæð þrjár m.kr. og vísa til byggðarráðs.

Fyrir byggðarráði liggur viðauki við málaflokk 04 að fjárhæð 3.000.000. Gert er ráð fyrir að mæta viðaukanum með lækkun á handbæru fé.
Byggðarráð samþykkir framlagðan viðauka.

10.Fundargerðir 2021 - Samband íslenskra sveitarfélaga

Málsnúmer 202102005Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur fundargerð 899. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 11. júní sl.
Lagt fram til kynningar.

11.Fjölskylduráð - 94

Málsnúmer 2106005FVakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur fundargerð 94. fundar fjölskylduráðs frá 21. júní sl.
Lagt fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 11:40.