Fara í efni

Vetrarþjónusta við Dettisfossveg

Málsnúmer 202208034

Vakta málsnúmer

Sveitarstjórn Norðurþings - 125. fundur - 18.08.2022

Forseti sveitarstjórnar óskar eftir að sveitarstjórn fjalli um málið á fundi sem sér fundarlið.
Til máls tók: Soffía.

Sveitarstjórn Norðurþings bókar eftirfarandi:
Demantshringurinn er opinn. Vegurinn er hringleið með mörgum af helstu náttúruperlum Norðausturlands. Vegurinn er langþráð samgöngubót og styrkir bæði byggð og atvinnulíf. Vegurinn tengir saman svæði. Í nóvember 2021 var vegurinn fullgerður. Syðri hluti Dettifossvegar var fullbúinn árið 2012. Á þeim hluta hefur verið veitt vetrarþjónusta í samræmi við svokallaða G-reglu frá og með haustinu 2013. Sú þjónusta er veitt samkvæmt snjómokstursreglum Vegagerðarinnar sem taka m.a. mið af umferðarþunga og aðstæðum á hverjum stað.
Samkvæmt G-reglu er heimilt að moka tvo daga í viku haust og vor á meðan snjólétt er. Hausttímabil er skilgreint til 1. nóvember og vortímabil frá 20. mars. Ástandið er skilgreint „snjólétt“ þegar um er að ræða lítið snjómagn og færðarástand telst hvergi ófært, þungfært eða þæfingur á viðkomandi leið og þegar þjónustuaðgerðin felst eingöngu í hreinsun akbrautar með snjómokstursbíl.
Heimilt er að moka vegi sem falla undir G-reglu einu sinni í viku fram til 5. janúar á kostnað Vegagerðarinnar og eftir það einu sinni í viku að beiðni og gegn helmingagreiðslu frá sveitarfélagi þannig að fært sé fyrir fjórhjóladrifin ökutæki og/eða þegar kostnaður við þann mokstur er að jafnaði ekki meiri en þrefaldur sá kostnaður sem til fellur þegar leiðin telst snjólétt. Vegagerðin metur hvort viðkomandi mokstur sé raunhæfur með tilliti til notagildis og kostnaðar.
Er Dettifossvegur var fullgerður var G-reglan, sem áður gilti á þeim hluta vegarins sem lokið var við árið 2012, látin gilda á honum öllum (frá Hringvegi að Norðausturvegi 85). Veturinn 2021-2022 var mokað frá Hringvegi að Norðausturvegi og var áætlaður kostnaður 5,5 millj.kr.
Sveitarstjórn Norðurþings skorar á ríkisvaldið að tryggja þjónustu á veginum árið um kring. Full vetrarþjónusta á Dettifossvegi myndi styðja við stefnu stjórnvalda um að jafna árstíðasveiflu í ferðaþjónustu og einnig er aukin vetrarþjónusta afar mikilvæg fyrir þá miklu atvinnuuppbyggingu sem á sér stað í Kelduhverfi og Öxarfirði, tengir saman svæði og nýtir fjárfestingu sem ríkið hefur þegar byggt upp.