Tómstunda- og æskulýðsnefnd Norðurþings

12. fundur 07. mars 2012 kl. 16:00 - 18:00 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Fundargerð ritaði: Jóhann Rúnar Pálsson Tómstunda- og æskulýðsfulltrúi
Dagskrá

1.Kynning frá deildum Völsungs á starfsemi þeirra

201203008Á fund Tómstunda- og æskulýðsnefndar komu fulltrúar frá fimleika- og handknattleiksdeild Íþróttafélagsins Völsungs. Á 11.fundi nefndarinnar var ákveðið að bjóða fulltrúum íþrótta- og æskulýðsfélaga að koma á fundi Tómstunda- og æskulýðsnefndar og kynna starfsemi sína fyrir nefndarfólki. Ætlunin er að deildir og ráð félaga hafi tök á því að kynna fyrir nefndinni helstu áhersluatriði sín og óskir um aðkomu sveitarfélagsins að aðstöðumálum o.fl. Emelía Aðalsteinsdóttir kynnti starfssemi fimleikadeildar Völsungs og Óli Halldórsson kynnti starfsemi handknattleiksdeildar Völsungs.
Tómstunda- og æskulýðsnefnd þakkar þeim fyrir góðar kynningar.

2.Sparkvöllur á Raufarhöfn

201203009
Fyrir fundinum liggur erindi frá Ungmennafélaginu Austra með ósk um formlegar viðræður við sveitarfélagið Norðurþing um uppbyggingu sparkvallar á Raufarhöfn á árinu 2012. UMF Austri lýsir yfir áhuga á því að koma að framkvæmdinni með einum eða öðrum hætti.
Tómstunda- og æskulýðsnefnd fagnar frumkvæði UMF Austra, tekur jákvætt í erindið og felur starfsmanni nefndarinnar að útbúa minnisblað með grófri kostnaðaráætlun og leggja fyrir bæjarráð. Tómstunda- og æskulýðsnefnd óskar eftir því við bæjarráð að teknar verði upp viðræður við UMF Austra vegna málsins.

3.Ungmennafélagið Snörtur, umsókn um styrk

201203003


Ungmennafélagið Snörtur á Kópaskeri sækir um styrk til stuðnings við starfsemi félagsins. Sótt er um 400.000 króna styrk.
Tómstunda- og æskulýðsnefnd felur tómstunda- og æskulýðsfulltrúa að ganga til viðræðna við félagið.

4.Sunddeild Völsungs, umsókn um styrk

201202058


Sunddeild Völsungs sækir um styrk vegna æfingabúða á Spáni sumarið 2012.
Tómstunda- og æskulýðsnefnd samþykkir að veita 100.000 króna styrk.

5.Dragan K. Stojanovic sækir um styrk til þjálfaramenntunar

201203006


Dragan Kristinn Stojanovic sækir um styrk vegna náms í knattspyrnuþjálfun.
Tómstunda- og æskulýðsnefnd hafnar umsókninni á þeim forsendum að Dragan Kristinn Stojanovic er ekki með lögheimili í sveitarfélaginu.

6.Ungmennaráð Norðurþings

201201039


Tómstunda- og æskulýðsfulltrúi greindi frá starfsemi Ungmennaráðs Norðurþings. Ráðið hefur haldið tvo fundi til þessa og stefnt er á að halda sameiginlegan fund með bæjarstjórn Norðurþings á vordögum. Á síðasta fundi ráðsins komu fram tillögur að bættu samstarfi á milli félagsmiðstöðva í Norðurþingi. Einnig er ósk ráðsins að einhverskonar opnun sé í félagsmiðstöðvum sveitarfélagsins á sumrin.
Tómstunda- og æskulýðsnefnd fór yfir fundargerð Ungmennaráðs.

7.Frístundaheimili aðstaða/aðgengi

201104111Ljóst er að aðgengi hreyfihamlaðra er ábótavant í Ungmennahúsinu í Túni og hamlar því að fatlaðir einstaklingar í hjólastól geti nýtt sér það frístundatilboð sem er í boði þar. Komið hafa fram hugmyndir að því að starfrækja frístundaheimili í Túni stað skólasels í Borgarhólsskóla. Til að af því geti orðið þarf að ráðast í töluverðar endurbætur á núverandi húsnæði sem hýsir starfsemi frístundastarfs ungmenna á Húsavík.
Tómstunda- og æskulýðsnefnd fór yfir aðgengismál í þeim stofnunum er falla undir málaflokkinn. Nefndin telur mikilvægt að gerðar verði úrbætur á aðgengi fyrir fatlaða.

8.Vinnuskóli Norðurþings 2012

201005028


Tómstunda- og æskulýðsfulltrúi lagði fram tillögu þess efnis að vinnuskóli Norðurþings sumarið 2012 verði starfræktur á tímabilinu 11.júní - 17.ágúst. Jafnframt lagði tómstunda- og æskulýðsfulltrúi fram tillögu þess efnis að flokksstjórar vinnuskólans yrðu einnig ráðnir sem frístundaleiðbeinendur. Starfsfyrirkomulagið yrði þannig að hefðbundinn vinnuskóli yrði fyrir hádegi á tímabilinu en eftir hádegi yrði boðið upp á frístundastarf fyrir börn undir 12 ára aldri undir handleiðslu frístundaleiðbeinenda.
Tómstunda- og æskulýðsnefnd samþykkir tillöguna.

Tómstunda- og æskulýðsnefnd þakkar Sigríði Valdimarsdóttur fyrir veitingar á fundinum. Hún fagnar afmæli sínu í dag.

Fundi slitið - kl. 18:00.