Covidpistill sveitarstjóra #6

Ekki verður upplýst um þann lítrafjölda af kaffi sem drukkinn hefur verið úr þessari könnu síðustu t…
Ekki verður upplýst um þann lítrafjölda af kaffi sem drukkinn hefur verið úr þessari könnu síðustu tvær vikur. Manneldisráði hefur þó verið gert viðvart.

Þá er vika tvö í þessu covid-maraþoni senn á enda. Enginn hefur val um það hvort hann/hún taki þátt, því allir eru því miður skráðir. Sama hversu vel við erum undirbúin fyrir ferðalagið. Þess vegna ætlum við saman í gegnum þetta, með sem minnstum áföllum. Við erum minnt á það á hverjum degi hversu alvarlega veikt fólk getur orðið ef það smitast svo áfram er markmiðið skýrt; að vernda viðkæmustu hópa samfélagsins frá smiti.

Stjórn dvalarheimilisins fundaði í dag og fór yfir stöðu mála í Hvammi á Húsavík, sem og þá þjónustu sem veitt er bæði í Stóru Mörk á Kópaskeri og Vík á Raufarhöfn. Hér eins og annarsstaðar er upplifun allra erfið af því að hafa þurft að loka fyrir gestakomur á meðan faraldurinn gengur yfir. Ég vil koma á framfæri sérstökum þökkum til starfsfólks í Hvammi, Stóru Mörk og Vík sem og framkvæmdastjórn fyrir vinnu síðustu vikna. Hún hefur skipt öllu máli í að vernda starfsemina gegn smiti. Sömuleiðis vil ég hvetja íbúa hér í samfélaginu til að láta gott af sér leiða með því t.d. að gleðja og stytta stundir með frumlegum hætti eins og við höfum nú þegar orðið vitni af með utandyra pop-up tónleikum vaskra manna í síðustu viku utanvið Hvamm. Starfsfólk hefur sömuleiðis ýtt úr vör átaki til að geta keypt fleiri spjaldtölvur þannig að fleiri eigi auðveldara með góð samskipti við ættingja og vini utan hjúkrunarheimilisins. Það er til fyrirmyndar.

Skólastarfið í sveitarfélaginu gengur heilt yfir vel í þessum aðstæðum og töluðu skólastjórnendur um að morguninn hafi satt best að segja einkennst af ró. Bæði hjá nemendum og starfsfólki, sem er gott. Við finnum vel fyrir jákvæðni og samstöðu meðal starfsfólks sveitarfélagsins í þessum aðstæðum og það er stór þáttur í því að við erum að ná settum markmiðum. Höldum uppi jákvæðni og yfirvegun.

Skólastjórnendur hafa brýnt fyrir foreldrum að vera vakandi fyrir því að börn og ungmenni safnist ekki saman í stórum hópum þvert á aðskilda hópa eftir að skóla lýkur á daginn. Það gerir lítið úr þeim vörnum sem við erum að halda uppi á skólatíma. Við óskum eftir því að við leysum þessi mál í samstarfi og gerum allt sem við getum til að halda þetta út sameiginlega. Það skal tekið fram að þetta er ekki orðið að neinu vandamáli hér, en það verður farið að fylgjast enn betur með þessu á landsvísu svo smithætta aukist ekki meðal barna.

Að lokum vil ég benda á frétt hér á heimasíðu sveitarfélagsins sem birtist í gær um fyrstu fjárhagstengdu aðgerðir Norðurþings við faraldrinum sem ákveðnar voru í byggðarráði. Þær aðgerðir hvet ég ykkur til að lesa nánar um hér: https://www.nordurthing.is/is/moya/news/enginn-titill-13

Nýtum helgina í nærandi hluti. Verum dugleg að vera utandyra og njóta samveru með fjölskyldunni. Sláum ekki slöku við í handþvottinum og sóttvörnum. Við erum öll almannavarnir.

Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri