Fara í efni

Vindorkuver á Hólaheiði

Vindorkuver á Hólaheiði

Þann 14. júní s.l. var haldinn kynningarfundur í íþróttahúsinu á Kópaskeri um skipulags- og umhverfismatsferli vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar vindorkuvers á Hólaheiði sunnan Hófaskarðsleiðar. Verkefnið kynntu fulltrúar framkvæmdaaðila Qair Iceland ehf, ráðgjafar frá Eflu og einnig mættu til fundarins fulltrúar Norðurþings sem skipulagsyfirvalds. Á fundinum voru kynnt fyrstu drög að breytingu aðalskipulags Norðurþings þar sem horft er til þess að 33,3 km² svæði á Hólaheiði verði skilgreint sem iðnaðarsvæði þar sem byggja megi upp allt að 40 vindmyllur. Fyrirhugaðar vindmyllur gætu í hæstu stöðu spaða náð allt að 200 m hæð yfir landi. Reiknað er með að raforkuframleiðsla á svæðinu geti verið allt að 200 MW. Fyrirliggjandi hugmynd að breytingu aðalskipulags má finna hér.

Fundurinn var vel sóttur, en auk þeirra sem kynntu verkefnið mættu um 40 gestir. Umtalsverðar umræður urðu eftir kynninguna þar sem fram komu ýmis sjónarmið sem horft verður til við framhald vinnunnar.

Reiknað er með að tillaga að aðalskipulagsbreytingu verði mótuð á næstu vikum og mánuðum. Þeir sem áhuga hafa á að koma sjónarmiðum á framfæri vegna framhalds skipulagsvinnunnar nú í kjölfar kynningarfundarins eru hvattir til þess að koma þeim til Norðurþings fyrir 28. júní n.k. Senda má ábendingar á Norðurþing, Ketilsbraut 7-9, 640 Húsavík eða í tölvupósti á skipulags- og byggingarfulltrúa á póstfangið  gaukur@nordurthing.is.