Fara í efni

Skipulags- og framkvæmdaráð - 8

Málsnúmer 1809002F

Vakta málsnúmer

Sveitarstjórn Norðurþings - 84. fundur - 18.09.2018

Fyrir sveitarstjórn liggur fundargerð 8. fundar skipulags- og framkvæmdaráðs Norðurþings.
Til máls tók undir lið 3 "Ósk um stöðuleyfi fyrir hlaðinn vegg við Hafnarstétt 13": Bergur, Kristján, Guðbjartur, Silja, Helena og Óli.

Bergur, Bylgja og Hrund leggja fram eftirfarandi breytingartillögu:
Fulltrúar B lista leggja fram breytingartillögu á afgreiðslu máls 3 í 8 fundargerð skipulags- og framkvæmdaráðs. Breytingartillagan er svo hljóðandi.

Lagt er til að vegghleðsla norðan og austan Flókahúss fái að standa. Breyting verði gerð á staðsetningu vegghleðslu að vestanverðu þar sem staðseting verði færð austur og standi í línu við gangbraut norðvestan Flókahúss. Heimild þessi er skilyrt því að eigandi Flókahúss geri snyrtilega gangbraut norðan vegghleðslu, þ.e. austur/vestur, á sinn kostnað en þetta svæði er í eigu sveitarfélagsins.

Greinargerð með tillögu Bergs, Bylgju og Hrundar:
Það dylst engum að endurbygging Flókahúss hefur verið til mikillar fyrirmyndar og aukið prýði hafnarsvæðisins á Húsavík. Rétt er að sú vegghleðsla sem um ræðir, ef miðað er við miðlínu lóðarmarka, um 15-20 cm fyrir utan lóðarmörk norðanmeginn. Austan megin eru frávikin meiri eða sem nemur um 55-60 cm. Ástæða þess að vegghleðsla er færð utar þeim meginn er að annars hefðu lagnir Orkuveitu Húsavíkur legið undir vegghleðslunni. Færa má rök fyrir því að fyrirhöfn og kostnaður við færslu lagna í götusundi, í og við húseignir við Hafnastétt er mikill og því einfaldara hliðra til vegghleðslu um nokkra sentimetra. Það er því ljóst að ekki er farið í einu og öllu eftir gildandi skipulagi, þó frávikin séu minniháttar og að ekki er um ásetning að ræða af hendi framkvæmdaraðila. Það var einfaldlega verið að reyna að finna bæði smekklega og hagkvæma lausn við uppsetningu vegghleðslunnar. Framangreind tillaga felur í sér góða lausn fyrir alla málsaðila og síðast en ekki síst ásýnd hafnarsvæðisins.

Bergur, Bylgja, Guðbjartur og Hrund greiða atkvæði með tillögunni.
Helena, Kristján, Óli, Silja og Örlygur greiða atkvæði á móti tillögunni.

Meirihlutinn leggur fram eftirfarandi bókun:
Meðal mikilvægari verkefna embættismanna sveitarfélaga er að fylgja eftir ákvörðunum sveitarstjórnar. Það hefur skipulags- og byggingarfulltrúi gert í þessu máli sem í grunninn snýst ekki um annað en að allir lóðarhafar fari eftir ákvörðunum sveitarstjórnar Norðurþings um frágang við lóðarmörk. Svo ekki sé talað um að farið sé eftir ákvörðunum sem eru ítrekaðar í þrígang fyrir lóðarhafa um það hvaða heimildir viðkomandi hefur til frágangs utan lóðamarka við glæsilega húseign hans að Hafnarstétt 13. Sveitarfélagið hefur nú þegar komið til móts við lóðarhafa og heimilað frágang utan lóðamarka og þannig aukið rýmildi til snyrtilegs frágangs við húsið. En lóðarhafi Hafnarséttar 13 kýs engu að síður að virða að vettugi ítrekaðar ákvarðanir og ganga út fyrir heimiluð mörk á alla þrjá vegu kringum hús sitt með uppsetningu steypts veggjar. Hvaða afleiðingar yrðu af því ef sveitarstjórn setur sig ekki upp á móti óleyfisframkvæmdum eftir að hafa sjálf margítrekað það áður en viðkomandi framkvæmd fer af stað, hversu langt út fyrir lóðarmörk eigandi hússins megi fara til að ganga frá lóðinni?
Helena, Kristján, Óli, Silja og Örlygur.

Til máls tóku undir lið 7 "Hafnasambandsþing 25.-26. október 2018": Bergur, Silja og Guðbjartur.


Fundargerðin er lögð fram.