Fara í efni

Sveitarstjórn Norðurþings

84. fundur 18. september 2018 kl. 13:00 - 15:15 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Nefndarmenn
 • Örlygur Hnefill Örlygsson aðalmaður
 • Óli Halldórsson aðalmaður
 • Kristján Þór Magnússon aðalmaður
 • Helena Eydís Ingólfsdóttir aðalmaður
 • Silja Jóhannesdóttir aðalmaður
 • Hrund Ásgeirsdóttir aðalmaður
 • Bergur Elías Ágústsson aðalmaður
 • Guðbjartur Ellert Jónsson aðalmaður
 • Hermína Hreiðarsdóttir Ritari
 • Bylgja Steingrímsdóttir 1. varamaður
Starfsmenn
 • Berglind Jóna Þorláksdóttir Ritari
 • Drífa Valdimarsdóttir fjármálastjóri
Fundargerð ritaði: Berglind Jóna Þorláksdóttir skrifstofu- og skjalastjóri
Dagskrá

1.Breyting á Aðalskipulagi Norðurþings vegna efnistökusvæða

Málsnúmer 201806114Vakta málsnúmer

Á 7. fundi skipulags- og framkvæmdaráðs Norðurþings var eftirfarandi bókað:

Skipulags- og framkvæmdaráð Norðurþings þakkar þær athugasemdir og ábendingar sem bárust við kynningu skipulags- og matslýsingar.

Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við sveitarstjórn að framlögð tillaga að breytingu aðalskipulags verði kynnt skv. ákvæðum skipulagslaga.
Sveitarstjórn samþykkir tillögu skipulags- og framkvæmdaráðs samhljóða.

2.Fráveitusamþykkt Norðurþings

Málsnúmer 201610060Vakta málsnúmer

Á 7. fundi skipulags- og framkvæmdaráðs Norðurþings var eftirfarandi bókað:

Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við sveitarstjórn að samþykktin verði samþykkt með áorðnum breytingum að undanskilinni 12. gr. þar sem breyta þarf tímamörkum í 2019/2020.
Sveitarstjórn samþykkir samþykktina samhljóða.

3.Breyting á samþykkt um hunda- og kattahald

Málsnúmer 201709063Vakta málsnúmer

Á 7. fundi skipulags- og framkvæmdaráðs Norðurþings var eftirfarandi bókað:

Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við sveitarstjórn að samþykktin verði samþykkt með áorðnum breytingum að undanskilinni breytingu á 5. gr. og halda g-lið inni.
Til máls tóku: Óli og Bergur.

Óli leggur fram eftirfarandi breytingatillögu:

Gerð verði breyting á samþykkt um hunda- og kattahald í Norðurþingi þannig að í 8. gr samþykktarinnar falli út setningin ,,Kettir skuli ekki vera lausir úti við í þéttbýli". Með þessu verði lausaganga katta leyfð og sami háttur á í Norðurþingi og í flestum öðrum sveitarfélögum.

Tillaga Óla er samþykkt með atkvæðum Bylgju, Hrundar, Kristjáns, Óla, Silju og Örlygs.

Á móti tillögunni eru Bergur, Guðbjartur og Helena.

Sveitarstjórn samþykkir samþykktina með áorðnum breytingum með atkvæðum Bylgju, Hrundar, Kristjáns, Óla, Silju og Örlygs

Á móti eru Guðbjartur og Helena.

Bergur situr hjá.


4.Leiðrétting taxta útseldrar vinnu þjónustumiðstöðva

Málsnúmer 201808002Vakta málsnúmer

Á 7. fundi skipulags- og framkvæmdaráðs var eftirfarandi bókað:

Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við sveitarstjórn að samþykkja fyrirliggjandi tillögu.
Til máls tóku: Bergur, Silja, Guðbjartur og Kristján.

Bergur leggur fram eftirfarandi tillögu:

Heiti málsins verði breytt í málakerfi Norðurþings að nýtt heiti verði ,,Gjaldskrárbreyting taxta útseldrar vinnu þjónustumiðstöðva".

Tillaga Bergs er samþykkt samhljóða.


Sveitarstjórn samþykkir tillögu skipulags- og framkvæmdaráðs með atkvæðum Bylgju, Helenu, Hrundar, Kristjáns, Óla, Silju og Örlygs.

Bergur og Guðbjartur sitja hjá.

5.Persónuverndarstefna Norðurþings

Málsnúmer 201809037Vakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur til samþykktar Persónuverndarstefna Norðurþings.
Til máls tók: Kristján.

Sveitarstjórn samþykkir Persónuverndarstefnu Norðurþings samhljóða.

6.Jákvæður agi í Norðurþingi

Málsnúmer 201808060Vakta málsnúmer

Á 4. fundi fjölskylduráðs Norðþings var eftirfarandi bókað:

Fjölskylduráð leggur til við sveitarstjórn að Jákvæður agi og verkfæri Jákvæðs aga verði tekin upp í samskiptum á vettvangi sveitarstjórnar þar sem virðing, góðvild og festa sem eru grunnhugtökin í Jákvæðum aga verði höfð að leiðarljósi í samskiptum og samstarfi innan sveitarstjórnar Norðurþings og í störfum kjörinna fulltrúa á vegum og vettvangi sveitarstjórnar.
Til máls tóku: Helena, Guðbjartur, Kristján og Bergur.

Sveitarstjórn samþykkir tillögu fjölskylduráðs samhljóða.

Kristján leggur fram eftirfarandi tillögu:
Fjölskylduráði er falið að vinna drög að sáttmála er innifelur það leiðarljós í samskiptum og samstarfi innan sveitarstjórnar sem vinna skal eftir og leggja fyrir næsta fund sveitarstjórnar til umfjöllunar og samþykktar.

Tillaga Kristjáns er samþykkt samhljóða.

7.Ósk um tímabundið leyfi frá störfum í sveitarstjórn Norðurþings

Málsnúmer 201809074Vakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur yfirlýsing frá Örlygi Hnefli Örlygssyni þar sem hann óskar eftir tímabundnu leyfi frá störfum í sveitarstjórn Norðurþings, í samræmi við 2. mgr. 30. gr. sveitarstjórnarlaga frá og með morgundeginum 19. september til og með 31. október 2018.
Til máls tóku: Örlygur og Kristján.

Örlygur Hnefill las eftirfarandi yfirlýsingu:
Ég ætla hér að fara yfir mál sem varðar gatnaframkvæmdir á Höfða á Húsavík og samskipti mín við framkvæmda- og þjónustufulltrúa Norðurþings sem húseigandi vegna þess máls.
Eins og mörgum ykkar er kunnugt rek ég tvö fyrirtæki í húsnæði við Höfða 24, annars vegar Húsavík Cape Hotel og hins vegar Þvottafélagið. Hjá fyrirtækjunum unnu í sumar 27 manns og eru stöðugildi nær 10 að jafnaði á vetrartíma. Það hlýtur að muna um slíkt fyrirtæki í samfélagi okkar.

Í upphafi sumars komu vektakar að máli við mig vegna gatnaframkvæmda á Höfða. Var mér tjáð að fullur skilningur væri á því að rask sem þetta kæmi rekstrinum mjög illa og að allt kapp yrði lagt á að klára grófvinnu fljótt og vel.

Gatnaframkvæmdir á Höfða hafa farið langt fram úr þeim tímaáætlunum sem mér voru kynntar við upphaf framkvæmdanna, en þá var talað um 5 til 10 daga vinnu framan við Cape Hotel í grófvinnu, þrátt fyrir að áætluð endanlega verklok hafi verið fyrirhuguð um mánaðarmót júní og júlí, en er framkvæmdatími nú kominn yfir 100 daga. Stærstan hluta þess tíma var aðgengi verulega skert og hættulegt, þar sem mjög gróft lag var á götunni. Var þetta á háannatíma í ferðaþjónustu. Framkvæmdirnar hafa valdið þeim fyrirtækjum sem ég er í forsvari fyrir miklu tjóni, sér í lagi Cape Hotel, vegna þess dráttar sem hefur orðið á framkvæmdinni.

Hefur þetta mál allt valdið mér mikilli streytu og sömuleiðis starfsfólki mínu í gestamóttöku. Hópar hafa frá horfið, íbúar í nágrenni og gestir Cape Hotel, sem og ferðaskrifstofur sem ég á í miklum samskiptum við ítrekað lýst óánægju með aðgengi og ástand á verksvæði, og málið valdið rekstrinum tjóni og álitshnekkjum. Ég ber ábyrgð á starfsfólki mínu og rekstri fyritækisins.
Í samtali við Gunnar Hrafn Gunnarsson, framkvæmda- og þjónustufulltrúa Norðurþings, í lok ágúst síðastliðnum, þegar ljóst var að framkvæmdir myndu dragast inn á haustmánuði, reiddist ég mjög og vil ég biðja hann innilega afsökunar á því. Ég hef áður beðið Gunnar Hrafn afsökunar í persónu. Þegar kjörnir fulltrúar lenda í stöðu sem þessari er ekki ásættanlegt beina reiði sinni með þessum hætti að starfsmönnum sveitarfélagsins.

Ljóst er að vegna framúrkeyrslu, bæði fjárhagslegrar og í framkvæmdatíma, munu bæði Skipulags- og framkvæmdaráð, sem og sveitarstjórn Norðurþings, þurfa að fara vandlega ofan í saumana á framkvæmdinni allri, og tel ég ekki eðlilegt að ég sitji á þeim vettvangi meðan sú athugun fer fram, heldur sinni öðrum afar aðkallandi verkefnum í rekstri minna fyrirtækja. Því óska ég eftir leyfi frá störfum í sveitarstjórn út október 2018 og treysti því að framkvæmdum og skoðun á völdum mikilla tafa og framúrkeyrslu verði lokið í stjórnsýslu Norðurþings þá. Óska ég eftir að leyfið taki gildi frá og með lokum fundar sveitarstjórnar í dag.

Örlygur Hnefill Örlygsson.


Sveitarstjórn samþykkir leyfisóskina samhljóða.


8.Norðurþing, kosning í nefndir til eins árs, fjögurra ára og tilnefningar á aðalfundi 2018-2022

Málsnúmer 201806044Vakta málsnúmer

Sveitarstjórn hefur með formlegum hætti tekið afstöðu til beiðni Örlygs Hnefils Örlygssonar um tímabundið leyfi frá skyldum sínum í sveitarstjórn, sbr. 2. mgr. 30. gr. sveitarstjórnarlaga, frá og með 19. september 2018 til og með 31. október 2018. Að beiðni Örlygs Hnefils hefur hann jafnframt óskað eftir því að sveitarstjórn veiti honum tímabundna lausn frá nefndarsetu, með vísan til 1. mgr. 49. gr. sveitarstjórnarlaga, frá og með 19. september nk. til og með 31. október 2018.
Kristján leggur fram eftirfarandi tillögu:
Sveitarstjórn telur skilyrði fyrir lausn Örlygs Hnefils frá nefndarsetu vera fyrir hendi og endurskipar þannig í nefndir og ráð að nýju; Sigurjón Steinsson verði nýr varamaður í skipulags- og framkvæmdaráð Norðurþings í tímabundnu leyfi Örlygs Hnefils. Að Birna Ásgeirsdóttir verði varafulltrúi á Landsþingi sambands íslenskra sveitarfélaga á Akureyri dagana 26.-28. september í stað Örlygs Hnefils og Birna Ásgeirsdóttir verði varamaður í byggðarráði Norðurþings í tímabundnu leyfi Örlygs Hnefils.

Sveitarstjórn samþykkir tillögu Kristjáns samhljóða.

Kristján leggur fram eftirfarandi bókun:
Það er til eftirbreytni að kjörinn fulltrúi biðjist formlega afsökunar á því sem miður kann að fara og tengist eða hefur áhrif á hans störf fyrir sveitarfélagið. Það er sömuleiðis eðlilegt og sjálfsagt að tekið sé tillit til óska kjörinna fulltrúa um leyfi frá störfum í sveitarstjórn á meðan viðkomandi sinnir tímabundnu álag í eigin starfi, og í þessu tilviki á meðan ástæður þeirra tafa sem orðið hafa á téðri framkvæmd eru krufnar til mergjar.

Sveitarstjórn samþykkir bókun Kristjáns með atkvæðum Bergs, Bylgju, Guðbjarts, Helenu, Hrundar, Kristjáns, Óla og Silju.

Örlygur situr hjá.

9.Skýrsla sveitarstjóra

Málsnúmer 201605083Vakta málsnúmer

Kristján Þór Magnússon sveitarstjóri fer yfir helstu atriði úr starfi sveitarfélagsins síðustu vikur.
Til máls tók: Kristján.

10.Fjölskylduráð - 4

Málsnúmer 1808006FVakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur fundargerð 4. fundar fjölskylduráðs Norðurþings.
Fundargerðin er lögð fram.

11.Skipulags- og framkvæmdaráð - 6

Málsnúmer 1808005FVakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur fundargerð 6. fundar skipulags- og framkvæmdaráðs Norðurþings.
Til máls tóku undir lið 7 "Óleyfisframkvæmdir við Hafnarstétt 13": Bergur og Kristján.

Kristján leggur fram eftirfarandi bókun:
Sveitarstjórn harmar að framkvæmdir hafi farið út fyrir þær heimildir sem gefnar hafa verið og koma skýrlega fram í ítrekuðum bókunum hjá skipulags- og umhverfisnefnd og síðar skipulags- og framkvæmdaráði Norðurþings. Sveitarstjórn telur brotin þess eðlis að fullt tilefni sé til þess að skipulags- og byggingarfulltrúi krefjist þess að óleyfisframkvæmdirnar verði fjarlægðar með vísan til 55. gr. og 56. gr. laga um mannvirki.

Bókunin er samþykkt með atkvæðum Helenu, Kristjáns, Óla, Silju og Örlygs.

Bergur, Bylgja, Guðbjartur og Hrund sitja hjá.


Fundargerðin er lögð fram.

12.Byggðarráð Norðurþings - 262

Málsnúmer 1808007FVakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur fundargerð 262. fundar byggðarráðs Norðurþings.
Fundargerðin er lögð fram.

13.Fjölskylduráð - 5

Málsnúmer 1808008FVakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur fundargerð 5. fundar fjölskylduráðs Norðurþings.
Fundargerðin er lögð fram.

14.Skipulags- og framkvæmdaráð - 7

Málsnúmer 1808009FVakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur fundargerð 7. fundar skipulags- og framkvæmdaráðs Norðurþings.
Fundargerðin er lögð fram.

15.Byggðarráð Norðurþings - 263

Málsnúmer 1809001FVakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur fundargerð 263. fundar byggðarráðs Norðurþings.
Fundargerðin er lögð fram.

16.Skipulags- og framkvæmdaráð - 8

Málsnúmer 1809002FVakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur fundargerð 8. fundar skipulags- og framkvæmdaráðs Norðurþings.
Til máls tók undir lið 3 "Ósk um stöðuleyfi fyrir hlaðinn vegg við Hafnarstétt 13": Bergur, Kristján, Guðbjartur, Silja, Helena og Óli.

Bergur, Bylgja og Hrund leggja fram eftirfarandi breytingartillögu:
Fulltrúar B lista leggja fram breytingartillögu á afgreiðslu máls 3 í 8 fundargerð skipulags- og framkvæmdaráðs. Breytingartillagan er svo hljóðandi.

Lagt er til að vegghleðsla norðan og austan Flókahúss fái að standa. Breyting verði gerð á staðsetningu vegghleðslu að vestanverðu þar sem staðseting verði færð austur og standi í línu við gangbraut norðvestan Flókahúss. Heimild þessi er skilyrt því að eigandi Flókahúss geri snyrtilega gangbraut norðan vegghleðslu, þ.e. austur/vestur, á sinn kostnað en þetta svæði er í eigu sveitarfélagsins.

Greinargerð með tillögu Bergs, Bylgju og Hrundar:
Það dylst engum að endurbygging Flókahúss hefur verið til mikillar fyrirmyndar og aukið prýði hafnarsvæðisins á Húsavík. Rétt er að sú vegghleðsla sem um ræðir, ef miðað er við miðlínu lóðarmarka, um 15-20 cm fyrir utan lóðarmörk norðanmeginn. Austan megin eru frávikin meiri eða sem nemur um 55-60 cm. Ástæða þess að vegghleðsla er færð utar þeim meginn er að annars hefðu lagnir Orkuveitu Húsavíkur legið undir vegghleðslunni. Færa má rök fyrir því að fyrirhöfn og kostnaður við færslu lagna í götusundi, í og við húseignir við Hafnastétt er mikill og því einfaldara hliðra til vegghleðslu um nokkra sentimetra. Það er því ljóst að ekki er farið í einu og öllu eftir gildandi skipulagi, þó frávikin séu minniháttar og að ekki er um ásetning að ræða af hendi framkvæmdaraðila. Það var einfaldlega verið að reyna að finna bæði smekklega og hagkvæma lausn við uppsetningu vegghleðslunnar. Framangreind tillaga felur í sér góða lausn fyrir alla málsaðila og síðast en ekki síst ásýnd hafnarsvæðisins.

Bergur, Bylgja, Guðbjartur og Hrund greiða atkvæði með tillögunni.
Helena, Kristján, Óli, Silja og Örlygur greiða atkvæði á móti tillögunni.

Meirihlutinn leggur fram eftirfarandi bókun:
Meðal mikilvægari verkefna embættismanna sveitarfélaga er að fylgja eftir ákvörðunum sveitarstjórnar. Það hefur skipulags- og byggingarfulltrúi gert í þessu máli sem í grunninn snýst ekki um annað en að allir lóðarhafar fari eftir ákvörðunum sveitarstjórnar Norðurþings um frágang við lóðarmörk. Svo ekki sé talað um að farið sé eftir ákvörðunum sem eru ítrekaðar í þrígang fyrir lóðarhafa um það hvaða heimildir viðkomandi hefur til frágangs utan lóðamarka við glæsilega húseign hans að Hafnarstétt 13. Sveitarfélagið hefur nú þegar komið til móts við lóðarhafa og heimilað frágang utan lóðamarka og þannig aukið rýmildi til snyrtilegs frágangs við húsið. En lóðarhafi Hafnarséttar 13 kýs engu að síður að virða að vettugi ítrekaðar ákvarðanir og ganga út fyrir heimiluð mörk á alla þrjá vegu kringum hús sitt með uppsetningu steypts veggjar. Hvaða afleiðingar yrðu af því ef sveitarstjórn setur sig ekki upp á móti óleyfisframkvæmdum eftir að hafa sjálf margítrekað það áður en viðkomandi framkvæmd fer af stað, hversu langt út fyrir lóðarmörk eigandi hússins megi fara til að ganga frá lóðinni?
Helena, Kristján, Óli, Silja og Örlygur.

Til máls tóku undir lið 7 "Hafnasambandsþing 25.-26. október 2018": Bergur, Silja og Guðbjartur.


Fundargerðin er lögð fram.

17.Byggðarráð Norðurþings - 264

Málsnúmer 1809003FVakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur fundargerð 264. fundar byggðarráðs Norðurþings.
Til máls tók undir lið 1 "Fjárhagsáætlun Norðurþings 2019": Óli.

Fundargerðin er lögð fram.

Fundi slitið - kl. 15:15.