Fara í efni

Ósk um tímabundið leyfi frá störfum í sveitarstjórn Norðurþings

Málsnúmer 201809074

Vakta málsnúmer

Sveitarstjórn Norðurþings - 84. fundur - 18.09.2018

Fyrir sveitarstjórn liggur yfirlýsing frá Örlygi Hnefli Örlygssyni þar sem hann óskar eftir tímabundnu leyfi frá störfum í sveitarstjórn Norðurþings, í samræmi við 2. mgr. 30. gr. sveitarstjórnarlaga frá og með morgundeginum 19. september til og með 31. október 2018.
Til máls tóku: Örlygur og Kristján.

Örlygur Hnefill las eftirfarandi yfirlýsingu:
Ég ætla hér að fara yfir mál sem varðar gatnaframkvæmdir á Höfða á Húsavík og samskipti mín við framkvæmda- og þjónustufulltrúa Norðurþings sem húseigandi vegna þess máls.
Eins og mörgum ykkar er kunnugt rek ég tvö fyrirtæki í húsnæði við Höfða 24, annars vegar Húsavík Cape Hotel og hins vegar Þvottafélagið. Hjá fyrirtækjunum unnu í sumar 27 manns og eru stöðugildi nær 10 að jafnaði á vetrartíma. Það hlýtur að muna um slíkt fyrirtæki í samfélagi okkar.

Í upphafi sumars komu vektakar að máli við mig vegna gatnaframkvæmda á Höfða. Var mér tjáð að fullur skilningur væri á því að rask sem þetta kæmi rekstrinum mjög illa og að allt kapp yrði lagt á að klára grófvinnu fljótt og vel.

Gatnaframkvæmdir á Höfða hafa farið langt fram úr þeim tímaáætlunum sem mér voru kynntar við upphaf framkvæmdanna, en þá var talað um 5 til 10 daga vinnu framan við Cape Hotel í grófvinnu, þrátt fyrir að áætluð endanlega verklok hafi verið fyrirhuguð um mánaðarmót júní og júlí, en er framkvæmdatími nú kominn yfir 100 daga. Stærstan hluta þess tíma var aðgengi verulega skert og hættulegt, þar sem mjög gróft lag var á götunni. Var þetta á háannatíma í ferðaþjónustu. Framkvæmdirnar hafa valdið þeim fyrirtækjum sem ég er í forsvari fyrir miklu tjóni, sér í lagi Cape Hotel, vegna þess dráttar sem hefur orðið á framkvæmdinni.

Hefur þetta mál allt valdið mér mikilli streytu og sömuleiðis starfsfólki mínu í gestamóttöku. Hópar hafa frá horfið, íbúar í nágrenni og gestir Cape Hotel, sem og ferðaskrifstofur sem ég á í miklum samskiptum við ítrekað lýst óánægju með aðgengi og ástand á verksvæði, og málið valdið rekstrinum tjóni og álitshnekkjum. Ég ber ábyrgð á starfsfólki mínu og rekstri fyritækisins.
Í samtali við Gunnar Hrafn Gunnarsson, framkvæmda- og þjónustufulltrúa Norðurþings, í lok ágúst síðastliðnum, þegar ljóst var að framkvæmdir myndu dragast inn á haustmánuði, reiddist ég mjög og vil ég biðja hann innilega afsökunar á því. Ég hef áður beðið Gunnar Hrafn afsökunar í persónu. Þegar kjörnir fulltrúar lenda í stöðu sem þessari er ekki ásættanlegt beina reiði sinni með þessum hætti að starfsmönnum sveitarfélagsins.

Ljóst er að vegna framúrkeyrslu, bæði fjárhagslegrar og í framkvæmdatíma, munu bæði Skipulags- og framkvæmdaráð, sem og sveitarstjórn Norðurþings, þurfa að fara vandlega ofan í saumana á framkvæmdinni allri, og tel ég ekki eðlilegt að ég sitji á þeim vettvangi meðan sú athugun fer fram, heldur sinni öðrum afar aðkallandi verkefnum í rekstri minna fyrirtækja. Því óska ég eftir leyfi frá störfum í sveitarstjórn út október 2018 og treysti því að framkvæmdum og skoðun á völdum mikilla tafa og framúrkeyrslu verði lokið í stjórnsýslu Norðurþings þá. Óska ég eftir að leyfið taki gildi frá og með lokum fundar sveitarstjórnar í dag.

Örlygur Hnefill Örlygsson.


Sveitarstjórn samþykkir leyfisóskina samhljóða.