Fara í efni

Breyting á samþykkt um hunda- og kattahald

Málsnúmer 201709063

Vakta málsnúmer

Framkvæmdanefnd - 21. fundur - 13.09.2017

Fyrir liggur að breyta þurfi samþykkt sveitarfélagsins um hunda- og kattahald til samræmis við breytingar sem gerðar voru á lögum um sama efni og snúa að samþykki íbúa í fjöleignarhúsum.
Áður var krafist samþykkis allra íbúa fjöleignarhúsa fyrir slíku dýrahaldi, en eftir lagabreytingu þarf aðeins samþykki 2/3 hluta íbúa.
Framkvæmda- og þjónustufulltrúa falið að ganga frá málinu.

Framkvæmdanefnd - 25. fundur - 12.02.2018

Fyrir framkvæmdanefnd liggur að samþykkja fyrirliggjandi breytingar á samþykkt um hunda- og kattahald í sveitarfélaginu.
Framkvæmdanefnd samþykkir fyrirliggjandi breytingar á samþykkt um hunda- og kattahald í sveitarfélaginu.

Framkvæmdanefnd - 26. fundur - 14.03.2018

Á 78. fundi sveitarstjórnar Norðurþings var eftirfarandi bókað;

Til máls tók undir lið "Breyting á samþykkt um hunda- og kattahald": Sif, Óli, Gunnlaugur, Kjartan, Olga og Örlygur.

Sif og Óli leggja fram eftirfarandi tillögu að tekið verði út eftirfarandi úr 7. gr. samþykktarinnar: "Kettir skuli ekki vera lausir úti við í þéttbýli".

Greinargerð til rökstuðnings. Afar sjaldgæft er að sveitarfélög beiti banni við lausagöngu kata í þéttbýli. Í borgum, bæjum og þorpum innan og utan lands er almenna reglan sú að kettir geta gengið lausir, gegn almennum kvöðum um ábyrgð eigenda þeirra. Í Norðurþingi var bann af þessu tagi staðfest fyrir nokkrum árum. Það er mat undirritaðra að ekki séu neinar þær sérstöku aðstæður í þéttbýlisstöðum Norðurþings sem kalli á bann af þessi tagi.

Sif Jóhannesdóttir og Óli Halldórsson.


Gunnlaugur leggur til að tillögunni ásamt samþykktinni verði vísað aftur til framkvæmdanefndar þar sem þetta verði rætt.

Sveitarstjórn samþykkir tillögu Gunnlaugs með atkvæðum Soffíu, Gunnlaugs, Kjartans, Stefáns og Olgu.

Örlygur, Óli, Sif og Jónas greiddu atkvæði á móti tillögunni.

Fyrir framkvæmdanefnd liggur að taka afstöðu til breytingartillögu sveitarstjórnar er varðar lausagöngu katta í sveitarfélaginu ásamt öðrum breytingum sem fyrir liggja á samþykktinni.
Framkvæmdanefnd samþykkir efnislega óbreytta samþykkt um hunda- og kattahald í Norðurþingi sem felur í sér bann við lausagöngu hunda og katta í þéttbýli.
Nefndin samþykkir aðrar þær viðbætur og breytingar sem gerðar hafa verið á samþykktinni til sæmræmis við lög og reglugerðir.
Samþykktinni er vísað til staðfestingar í sveitarstjórn.

Kjartan Páll Þórarinsson óskar bókað.
Leyfa á lausagöngu katta í þéttbýli.

Sveitarstjórn Norðurþings - 79. fundur - 20.03.2018

Á 26. fundi framkvæmdanefndar Norðurþings var eftirfarandi bókað;

Framkvæmdanefnd samþykkir efnislega óbreytta samþykkt um hunda- og kattahald í Norðurþingi sem felur í sér bann við lausagöngu hunda og katta í þéttbýli.
Nefndin samþykkir aðrar þær viðbætur og breytingar sem gerðar hafa verið á samþykktinni til sæmræmis við lög og reglugerðir.
Samþykktinni er vísað til staðfestingar í sveitarstjórn.

Kjartan Páll Þórarinsson óskar bókað.
Leyfa á lausagöngu katta í þéttbýli.


Til máls tóku; Sif, Hjálmar, Soffía og Kolbrún.

Sveitarstjórn samþykkir efnislega óbreytta samþykkt um hunda- og kattahald í Norðurþingi sem felur í sér bann við lausagöngu hunda og katta í þéttbýli með atkvæðum Stefáns, Kolbrúnar, Arnars, Jóhönnu, Önnu, Hjálmars og Soffíu. Sif og Jónas sitja hjá.

Skipulags- og framkvæmdaráð - 7. fundur - 04.09.2018

Fyrir liggur samþykkt Norðurþings um hunda- og kattahald í sveitarfélaginu með þeim athugasemdum sem gerðar voru við meðferð málsins hjá Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.
Fyrir skipulags- og framkvæmdaráði liggur að taka ákvörðun um hvort tekið verði tillit til allra þeirra athugasemda sem gerðar hafa verið við samþykktina.
Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við sveitarstjórn að samþykktin verði samþykkt með áorðnum breytingum að undanskilinni breytingu á 5. gr. og halda g-lið inni.

Sveitarstjórn Norðurþings - 84. fundur - 18.09.2018

Á 7. fundi skipulags- og framkvæmdaráðs Norðurþings var eftirfarandi bókað:

Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við sveitarstjórn að samþykktin verði samþykkt með áorðnum breytingum að undanskilinni breytingu á 5. gr. og halda g-lið inni.
Til máls tóku: Óli og Bergur.

Óli leggur fram eftirfarandi breytingatillögu:

Gerð verði breyting á samþykkt um hunda- og kattahald í Norðurþingi þannig að í 8. gr samþykktarinnar falli út setningin ,,Kettir skuli ekki vera lausir úti við í þéttbýli". Með þessu verði lausaganga katta leyfð og sami háttur á í Norðurþingi og í flestum öðrum sveitarfélögum.

Tillaga Óla er samþykkt með atkvæðum Bylgju, Hrundar, Kristjáns, Óla, Silju og Örlygs.

Á móti tillögunni eru Bergur, Guðbjartur og Helena.

Sveitarstjórn samþykkir samþykktina með áorðnum breytingum með atkvæðum Bylgju, Hrundar, Kristjáns, Óla, Silju og Örlygs

Á móti eru Guðbjartur og Helena.

Bergur situr hjá.


Skipulags- og framkvæmdaráð - 10. fundur - 02.10.2018

Samþykkt var á síðasta fundi sveitarstjórnar að leyfa lausagöngu katta. Erindi liggur fyrir ráðinu frá Hjálmari Boga að endurskoða þá ákvörðun.
Hjálmar Bogi leggur fram eftirfarandi tillögu:
Á síðasta fundi sveitarstjórnar Norðurþings var tillögu skipulags- og framkvæmdaráðs að breytingum samþykktar um hunda- og kattahald breytt þannig að lausaganga katta verði leyfð í þéttbýli. Ráðið, áður framkvæmdanefnd, hefur ítrekað tekið samþykktina fyrir og sömuleiðis sveitarstjórn þar sem niðurstaðan hefur allt frá árinu 2008 verið sú að í gildi skuli vera bann við lausagöngu katta í þéttbýli í Norðurþingi. Lagt er til við sveitarstjórn Norðurþings að ákvörðun sveitarstjórnar um að fella niður bann við lausagöngu katta verði afturkölluð og samþykktin standi með þeim breytingum sem lagðar voru til á 7. fundi skipulags- og framkvæmdaráðs.

Hjálmars Boga óskar bókað:
Í upphafi skal nefna að skipulags- & framkvæmdaráði (áður framkvæmdanefnd) hefur ekki borist erindi þar sem óskað er eftir breytingu á samþykktinni sem felur í sér að lausaganga katta sé heimiluð í þéttbýli. Í annan stað eru sveitarfélög hringinn í kringum landið að reyna að sporna við lausagöngukatta í þéttbýli og jafnvel banna slíkt. Lausaganga katta hefur verið bönnuð í þéttbýli í Norðurþingi í 10 ár. Engin rök né beiðni, eins og áður segir, hafa komið fram sem kalla á breytingu á samþykkt sem heimilar lausagöngu katta í þéttbýli.
Aðalsteinn Örn Snæþórsson, líffræðingur á Náttúrustofu Norðausturlands, ritaði grein sem birtist í Skarpi 27. september s.l. þar sem hann fer yfir veigamikil rök gegn lausagöngu katta í þéttbýli. Tek ég heilshugar undir þau sjónarmið sem þar koma fram og vísa til greinarinnar varðandi rökstuðning fyrir áframhaldandi banni við lausagöngu katta í þéttbýli í Norðurþingi.

Tillaga Hjálmars Boga eru samþykkt með atkvæðum Gísla Þórs, Hjálmars Boga, Kolbrúnar Ödu og Kristins Jóhanns.

Silja greiðir atkvæði á móti og óskar bókað:
Að eiga kött er gott fyrir geðheilsuna og það sýna rannsóknir. Það er ekki gott fyrir ketti að vera inni enda dýr sem þurfa útiveru. Þannig fer saman að efla lýðheilsu íbúa að leyfa þeim að eiga hamingjusöm gæludýr. Því styð ég lausagöngu katta. Fuglalíf hefur eflst undanfarin ár en skv. mínum heimildum tengist það gróðurfari en ekki banni við lausagöngu katta.

Kolbrún Ada og Kristinn óska bókað:
Ef heimila á lausagöngu katta þarf að setja um það mjög skýrar reglur.

Sveitarstjórn Norðurþings - 85. fundur - 30.10.2018

Á 10. fundi skipulags- og framkvæmdaráð var eftirfarandi bókað:

Hjálmar Bogi leggur fram eftirfarandi tillögu:
Á síðasta fundi sveitarstjórnar Norðurþings var tillögu skipulags- og framkvæmdaráðs að breytingum samþykktar um hunda- og kattahald breytt þannig að lausaganga katta verði leyfð í þéttbýli. Ráðið, áður framkvæmdanefnd, hefur ítrekað tekið samþykktina fyrir og sömuleiðis sveitarstjórn þar sem niðurstaðan hefur allt frá árinu 2008 verið sú að í gildi skuli vera bann við lausagöngu katta í þéttbýli í Norðurþingi. Lagt er til við sveitarstjórn Norðurþings að ákvörðun sveitarstjórnar um að fella niður bann við lausagöngu katta verði afturkölluð og samþykktin standi með þeim breytingum sem lagðar voru til á 7. fundi skipulags- og framkvæmdaráðs.

Hjálmars Boga óskar bókað:
Í upphafi skal nefna að skipulags- & framkvæmdaráði (áður framkvæmdanefnd) hefur ekki borist erindi þar sem óskað er eftir breytingu á samþykktinni sem felur í sér að lausaganga katta sé heimiluð í þéttbýli. Í annan stað eru sveitarfélög hringinn í kringum landið að reyna að sporna við lausagöngukatta í þéttbýli og jafnvel banna slíkt. Lausaganga katta hefur verið bönnuð í þéttbýli í Norðurþingi í 10 ár. Engin rök né beiðni, eins og áður segir, hafa komið fram sem kalla á breytingu á samþykkt sem heimilar lausagöngu katta í þéttbýli.
Aðalsteinn Örn Snæþórsson, líffræðingur á Náttúrustofu Norðausturlands, ritaði grein sem birtist í Skarpi 27. september s.l. þar sem hann fer yfir veigamikil rök gegn lausagöngu katta í þéttbýli. Tek ég heilshugar undir þau sjónarmið sem þar koma fram og vísa til greinarinnar varðandi rökstuðning fyrir áframhaldandi banni við lausagöngu katta í þéttbýli í Norðurþingi.

Tillaga Hjálmars Boga eru samþykkt með atkvæðum Gísla Þórs, Hjálmars Boga, Kolbrúnar Ödu og Kristins Jóhanns.
Til máls tóku: Hjálmar, Guðbjartur, Óli og Kristján.

Hjálmar leggur fram eftirfarandi tillögu:
Lagt er til við sveitarstjórn Norðurþings að ákvörðun sveitarstjórnar um að fella niður bann við lausagöngu katta verði afturkölluð og samþykktin standi með þeim breytingum sem lagðar voru til á 7. fundi skipulags- og framkvæmdaráðs.

Tillagan er samþykkt með atkvæðum með atkvæðum Bergs, Benónýs, Guðbjarts, Heiðbjartar, Helenu, Hrundar og Hjálmars.
Kristján og Óli greiddu atkvæði á móti tillögunni.


Óli leggur fram eftirfarandi bókun:
Fyrir marga er það mikill léttir að upplifa þann viðsnúning sem er að eiga sér stað meðal kjörinna fulltrúa Norðurþings í málefnum katta. Öryggi íbúa hefur nú verið tryggt á ný með endurvakningu lausagöngubanns kattanna í þéttbýlinu, en fyrirhuguð aflétting bannsins frá síðasta fundi virðist hafa valdið miklum titringi, ótta og jafnvel ringulreið í samfélaginu. Kötturinn er jú varasöm skepna sem getur ekki skýlt sér á bak við það eitt að hafa gengið laus í þúsund ár án skaða. Miklu lengri tíma þarf til að meta mögulegan skaða af lausagöngunni.
Fyrir heimilisketti Norðurþings, og bræður þeirra sem kunna að hafa íhugað flutning í þéttbýlissollinn, er nú bara eitt að gera; flytja alfarið í dreifbýlið út í guðs græna náttúruna þar sem lausagangan hefur frá landnámi verið að fullu heimil, t.d. í Kelduhverfið þar sem smjör drýpur af hverju strái. Að gefnu tilefni er lagt til að sveitarstjórn Norðurþings snúi sér hið fyrsta að öðrum aðgerðum af svipuðum toga og hér er rætt um. Til að mynda því makalausa stefnuleysi sem ríkir í lausagöngu ísbjarna í sveitarfélaginu.“

Óli Halldórsson og Kristján Þór Magnússon.