Fara í efni

Framkvæmdanefnd

25. fundur 12. febrúar 2018 kl. 16:00 - 20:15 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Nefndarmenn
  • Sigurgeir Höskuldsson formaður
  • Trausti Aðalsteinsson varaformaður
  • Hjálmar Bogi Hafliðason aðalmaður
  • Kjartan Páll Þórarinsson aðalmaður
  • Arnar Guðmundsson aðalmaður
Starfsmenn
  • Gunnar Hrafn Gunnarsson framkv.- og þjónustufulltrúi
Fundargerð ritaði: Gunnar Hrafn Gunnarsson framkvæmda- og þjónustufulltrúi
Dagskrá

1.Sveinn Hreinsson og Björg Björnsdóttir sækja um úthlutun byggingarlóðar fyrir einbýlishús að Hrísateig 11.

Málsnúmer 201712088Vakta málsnúmer

Taka þarf afstöðu til þess hvort ákvörðun um gatnagerð í Hrísateigi í tengslum við auglýstar byggingalóðir, byggi á fjölda umsækjenda. Gatnagerðargjöld einnar lóðar standa ekki undir kostnaði vegna gatnagerðar á þessum stað ef auglýsa á þessar sex lóðir sem um ræðir.
Framkvæmdanefnd samþykkir gatnagerð svo hægt sé að úthluta 6 lóðum við Hrísateig óháð fjölda umsókna, en með fyrirvara um frestun á yfirborðsfrágangi á götu þar til að lágmarki 3 lóðir eru seldar.

2.Beiðni frá nemendum Borgarhólsskóla breytta tilhögun um snjómokstur við skólann

Málsnúmer 201801061Vakta málsnúmer

Nemendur Borgarhólsskóla vilja takmarka snjóhreinsun á völdum svæðum á skólalóðinni og vilja fá að halda uppsöfnuðum snjó sem fellur til við gatnahreinsun til leiks. Taka þarf afstöðu til þess hvort skólalóð Borgarhólsskóla verði undanskilin snjóhreinsun í bænum í þeim tilgangi að auka lífsgæði nemenda.
Framkvæmdanefnd þakkar nemendum Borgarhólsskóla fyrir erindið og felur framkvæmda- og þjónustufulltrúa að tala við mennina sem taka snjóinn og segja þeim að hætta því svo krakkarnir geti leikið sér.

3.RX ehf. óskar eftir viðræðum um leigu á austur enda Vallholtsvegar 10.

Málsnúmer 201801067Vakta málsnúmer

Fyrir liggur erindi frá RX ehf þar sem óskað er eftir viðræðum um leigu hluta skemmunnar að Vallholtsvegi 10.
Skemman var auglýst til sölu fyrir nokkru síðan, en ekki hafa borist ásættanleg tilboð í eignina enn sem komið er.
Húsnæðið er í dag nýtt sem "köld" geymsla undir sand til hálkueyðingar og annað sem tilheyrir rekstri þjónustumiðstöðvar á Húsavík.
Fyrir framkvæmdanefnd liggur að taka afstöðu til erindis RX ehf og mögulegrar nýtingar á húsnæðinu.
Framkvæmdanefnd felur framkvæmda- og þjónustufulltrúa að hefja viðræður við RX ehf. um mögulega leigu á húsnæðinu.
Ekkert fjármagn er áætlað í endurbætur á húsinu og viðræður fara fram með þeim fyrirvara að það finnist lausn á þeirri starfsemi þjónustumiðstöðvar sem nú er í húsinu.

4.Tjaldsvæðið á Húsavík - áhugi á rekstri

Málsnúmer 201801077Vakta málsnúmer

Fyrirspurn hefur borist frá áhugasömum aðila varðandi leigu á rekstri tjaldsvæðisins á Húsavík af sveitarfélaginu. Rekstrarafkoma síðasta árs var nokkuð góð og voru rekstrartekjur nýttar til þess að ráðast í endurbætur á aðstöðunni þar. Neðra tjaldsvæðinu var skipt upp í skipulagða "gistireiti" með jarðvegsskiptum aksturleiðum að þeim. Sá jarðvegur sem féll til við jarðvegsskiptin var nýttur til þess að stalla efra tjaldsvæðið og var það tyrft í kjölfarið. Allt rafmagn á svæðinu var endurnýjað ásamt tengistaurum, en það gerði rekstraröryggi á svæðinu mun betra.
Fyrirhugaðar eru áframhaldandi framkvæmdir á þessu ári, en þó ekki af sömu stærðargráðu og framkvæmdir síðasta árs.
Fyrir framkvæmdanefnd liggur að taka ákvörðun um hvort tjaldsvæðið verði rekið af sveitarfélaginu næsta sumar, eða hvort rekstur þess verði leigður út.
Framkvæmdasvið mun sjá um rekstur tjaldsvæðisins á Húsavík sumarið 2018.

5.Viðhald á kvennaklósetti félagsheimilisins Hnitbjarga.

Málsnúmer 201801101Vakta málsnúmer

Á undanförnum vikum hefur staðið yfir endurnýjun á karlasalernum í félagsheimilinu Hnitbjörgum á Raufarhöfn.
Því verkefni lauk fyrir stuttu og var heidarkostnaður þeirrar framkvæmdar rétt um 6 milljónir króna.
Fyrir liggur erindi frá rekstraraðila Hnitbjarga á Raufarhöfn um endurnýjun kvennasalerna í húsinu sem framkvæmdanefnd þar að taka afstöðu til.
Framkvæmdanefnd hafnar erindinu að svo stöddu þar sem ekki er gert ráð fyrir þessum framkvæmdum í fjárhagsáætlun 2018.

6.Endurnýjun Hitakúts í Félagsheimilinu á Raufarhöfn, Hnitbjörg.

Málsnúmer 201801173Vakta málsnúmer

Hitatúpa sem nýtt er til kyndingar í Félagsheimilinu Hnitbjörgum á Raufarhöfn hefur verið dæmd ónýt og þarf að endurnýja hana. Fyrirliggjandi er tilboð í nýja hitatúpu, en stefnt er að því að skipta henni út um leið og sú nýja dettur í hús.
Framkvæmda- og þjónustufulltrúi kynnti fyrirhugaða endurnýjun á hitatúpu í félagsheimilinu Hnitbjörgum.

7.Þjónustumiðstöð Húsavík - Staða

Málsnúmer 201702125Vakta málsnúmer

Fyrir framkvæmdanefnd liggur að taka ákvörðun um aðgerðir til þess að mögulegt sé að mæta þeim ramma sem stillt hefur verið upp fyrir rekstur þjónustumiðstöðvar á Húsavík.
Framkvæmda- og þjónustufulltrúi lagði fram minnisblað um ástand og rekstur þjónustumiðstöðvar.
Áfram er unnið að endurskipulagningu þjónustumiðstöðvar.

8.Eigendur Stakkholts 9 óska eftir því að sveitarfélagið taki á sig útlagðan kostnað til að koma lóðinni í rétta hæð.

Málsnúmer 201801039Vakta málsnúmer

Fyrir liggur erindi frá íbúum Stakkholts 9 á Húsavík, þar sem farið er fram á að sveitarfélagið beri kostnaðinn af þeim framkvæmdum sem ráðist var í við jöfnun lóðar.
Fyrir framkvæmdanefnd liggur að taka afstöðu til málsins.
Að fengnu áliti lögmanns, hafnar framkvæmdanefnd erindinu.

9.Ísland ljóstengt 2018

Málsnúmer 201710129Vakta málsnúmer

Framkvæmda- og þjónustufulltrúi fer yfir stöðu mála er varða verkefnið "Ísland Ljóstengt" og lagningu ljósleiðara um austursvæði Norðurþings.
Lagningu ljósleiðara um Reykjahverfi er lokið.
Framkvæmdanefnd felur framkvæmda- og þjónustufulltrúa að halda áfram vinnu við ljósleiðaravæðingu sveitarfélagsins.

10.Umferðamerkingar á Húsavík og annara þéttbýlisstaða innan Norðurþings

Málsnúmer 201709113Vakta málsnúmer

Framkvæmdanefnd þarf að taka afstöðu til eftirfarandi þátta varðandi takmörkun umferðarhraða innan þéttbýlis á Húsavík og víðar og fela framkvæmda- og þjónustufulltrúa framkvæmd þeirra:
- Hversu langt undir almennan hámarkshraða í þéttbýli (50 km/klst) er skynsamlegt að fara með hámarkshraða á völdum götum ?
- Til hvaða gatna á Húsavík á að horfa m.t.t. lækkunar umferðarhraða niður fyrir almenn mörk ?
Þegar þessar ákvarðanir liggja fyrir er einfalt mál að setja upp umferðarmerkingar til samræmis við það sem framkvæmdanefnd ákveður.
Framkvæmdanefnd frestar málinu til næsta fundar.

11.Gatnagerð á Höfða

Málsnúmer 201711087Vakta málsnúmer

Framkvæmda- og þjónustufulltrúi fer yfir stöðu verkefnisins "Gatnagerð á Höfða", tímaáætlanir og samhangandi verkefni sem snúa að byggingu sjóbaða á Höfða.
Framkvæmdafulltrúi fór yfir stöðu gatnaframkvæmda á Höfða.

12.Viðaukasamningur við Sel sf. vegna brotajárns.

Málsnúmer 201801189Vakta málsnúmer

Fyrir framkvæmdanefnd liggur að taka ákvörðun um hvort staðfesta skuli munnlegan samning um losun brotajárns af austursvæði, sem gerður var við Sel sf árið 2016.
Framkvæmdanefnd felur framkvæmda- og þjónustufulltrúa að gera skriflegan samning við Sel sf. um flokkun og losun á brotajárni af austursvæði.

13.Framlenging leyfis fyrir vinnu- og skrifstofubúðir Munck á Höfða til loka september 2018.

Málsnúmer 201801169Vakta málsnúmer

Munck á Íslandi hefur farið fram á að aðstöðuleyfi vinnu- og skrifstofugáma á Höfða verði framlengt þar til í haust. Rætt hefur verið við hlutaðeigandi aðila og ekkert er því til fyrirstöðu af þeirra hálfu.
Fyrir framkvæmdanefnd liggur að taka ákvörðun um málið.
Framkvæmdanefnd samþykkir að vinnubúðir Munck á Íslandi fái að standa á Höfða til loka september 2018 og að gerður verði nýr samningur þess efnis milli aðila.

14.Urðunarstaðir í Laugardal og á Kópaskeri.

Málsnúmer 201801194Vakta málsnúmer

Fyrir framkvæmdanefnd liggur að staðfesta þau umhverfismarkmið og þær áætlanir um úrbætur sem lagðar eru fram varðandi urðunarstaði í sveitarfélaginu.
Sveitarfélagið Norðurþing setur sér það markmið að starfa eftir bestu mögulegu starfsháttum þegar kemur að meðhöndlun úrgangs. Norðurþing hefur það markmið að draga úr urðun sorps og uppfylla kröfur og væntingar notenda urðunarstaða í rekstri Norðurþings, starfsmanna og annarra hagsmunaaðila og starfa ávallt í samræmi við lög og reglugerðir. Það gerir félagið með því að hafa virkt innra eftirlit á verkferlum, halda starfsmönnum upplýstum og tryggja stöðugar endurbætur.
Til að tryggja stöðugar framfarir í gæða-og umhverfismálum setur sveitarfélagið sér mælanleg markmið. Allir starfsmenn og verktakar skulu vera meðvitaðir um umhverfisáhrif fyrirtækisins og hafa kunnáttu og færni til að draga skipulega úr áhrifum þýðingarmestu umhverfisþáttanna, sem eru:
- Eldsneytisnotkun og losun gróðurhúsalofttegunda.
- Efnanotkun, spilliefnaútgangur og losun efna í vatn og jarðaveg.
- Almennur úrgangur, meðhöndlun og flokkun
Allir starfsmenn skulu verða meðvitaðir um gæðamarkmið sveitarfélagsins sem eru að:
- Efla umhverfisvitund notenda þjónustu varðandi flokkun, endurnýtingu og endurvinnslu.
- Efla þjálfun og fræðslu starfsmanna og verktaka á sviði gæða- og umhverfismála.
Stefnuna kynnum við öllu starfsfólki okkar, verktökum, viðskiptavinum og birgjum, framfylgjum henni á skipulegan hátt og endurskoðum reglulega.
Framkvæmdanefnd samþykkir umhverfismarkmiðin og þær áætlanir um úrbætur sem lagðar eru fram.

15.Reykjaheiðavegur - gatnagerð

Málsnúmer 201801196Vakta málsnúmer

Í ljósi óvissu um réttarstöðu sveitarfélagsins gagnvart mögulegum skaðabótakröfum sem fylgt gætu gatnaframkvæmdum við Reykjaheiðarveg, er lagt til að öllum áformum um slíkt verði frestað þar til niðurstaða liggur fyrir.
Framkvæmdanefnd samþykkir að framkvæmdum við uppbyggingu Reykjaheiðarvegar verði frestað þar til niðurstaða í skaðabótakröfu á hendur OH liggur fyrir.
Undirbúningi vegna fyrirhugaðra framkvæmda við Reykjaheiðarveg verður þó haldið áfram.

16.Almennt um sorpmál 2018

Málsnúmer 201801145Vakta málsnúmer

Fyrir framkvæmdanefnd liggur að taka ákvörðun um hvort leita skuli leiða, í samráði við sorphirðuverktaka austusvæðis, til þess að auka sorpflokkun þar og hvort nýta skuli framlengingarákvæði í núverandi samningi um framkvæmd soplosunar á þann hátt sem skynsamlegt þykir.
Mjög líklegt er að verktaki þurfi að fjárfesta í tækjabúnaði til þess að flokkun verði möguleg á þessu svæði og því þarf tímalengd framlengingar núverandi samnings að taka mið af þeirri fjárfestingu.
Flokkun sorps hefur verið tekin upp í Reykjahverfi með góðum árangri, en ekki er hægt að leggja að jöfnu aðstæður þar og á austursvæðinu. Rætt hefur verið við verktakann um hvaða möguleikar eru í stöðunni og er verið að vinna með þær hugmyndir.
Framkvæmdanefnd samþykkir að unnið verði með Sel sf. um lausn þessara mála og að núverandi samningur um sorphirðu verði framlengdur um þann tíma sem nauðsynlegur er.

Lagt er til að samningur við íG verði framlengdur um eitt ár.

17.Frágangur lóðar Olíudreifingar á Höfða og afgirðing svæðis.

Málsnúmer 201801172Vakta málsnúmer

Olíudreifing hefur látið fjarlægja olíutank sem stóð á lóðinni Höfði 4 og hefur allt rusl af svæðinu verið fjarlægt. Fyrir liggur að höfnin fái þarna geymsluaðstöðu fyrir bryggjutré og annað efni sem fylgir hafnarrekstri og viðhaldi hafnarmannvirkja.
Ónýtt drasl og almennur ófögnuður á það til að safnast á auð svæði í eigu sveitarfélagsins ef þau eru ekki girt af og á það einnig við um þetta svæði.
Því þarf að huga að því hvernig svæðinu verður lokað og eins hvort skynsamlegt sé að færa núverandi girðigu að lóðarmörkum, nær vegstæðinu til þess að takmarka það pláss sem menn hafa til þess að hrúga niður drasli sem þeir eru hættir að nota, en stendur svo á endanum upp á sveitarfélagið að láta farga með tilheyrandi kostnaði fyrir íbúa þess.
Framkvæmdanefnd samþykkir tilfærslu á girðingu og afmörkun svæðisins.

18.Erindi frá Bergi E. Ágústssyni varðandi bílastæði.

Málsnúmer 201801165Vakta málsnúmer

Bergur E. Ágústson sækir um leyfi til þess að gera innkeyrslu inn á lóð sinni að Ketilsbraut 23 á Húsavík. Áður hafði verið samþykkt að honum yrði merkt tvö stæði fyrir framan húsið, en þau yrðu gefin eftir í stað þeirra tveggja sem færu undir aðkeyrslu að væntanlegri innkeyrslu.
Framkvæmdanefnd samþykkir erindið.

19.Afsal Ríkissjóðs til Hafnarsjóðs Húsavíkurkaupstaðar á Húsavíkurvita 1986

Málsnúmer 201801156Vakta málsnúmer

Sjóböð ehf hafa lýst yfir áhuga á því að leigja vitann á Höfða af Norðurþingi og nýta hann í tengslum við starfsemi sýna.
Vita- og Hafnarmál hafa afsalað vitanum yfir til Norðurþings, en þó er gert ráð fyrir að hann verði áfram rekinn sem viti.
Ekki er að fullu ljóst hvort Hafnarsjóður eða Eignarsjóður fari með eignarhald á vitanum í dag, en fari svo að mannvirkið verði leigt er það vilji Hafnarsjóðs að Eignarsjóður fari fyrir málinu.
Fyrir framkvæmdanefnd liggur að taka afstöðu til þess hvort farið verði í viðræður við Sjóböð ehf um nýtingu á vitanum.
Framkvæmdanefnd samþykkir að farið verði í viðræður við Sjóböð ehf. varðandi nýtingu vitans.
Tryggja verður aðgengi almennings að svæðinu umhverfis vitann.

20.Breyting á samþykkt um hunda- og kattahald

Málsnúmer 201709063Vakta málsnúmer

Fyrir framkvæmdanefnd liggur að samþykkja fyrirliggjandi breytingar á samþykkt um hunda- og kattahald í sveitarfélaginu.
Framkvæmdanefnd samþykkir fyrirliggjandi breytingar á samþykkt um hunda- og kattahald í sveitarfélaginu.

21.Fráveitusamþykkt 2016

Málsnúmer 201610060Vakta málsnúmer

Fyrirliggjandi eru drög að fráveitusamþykkt fyrir Norðurþing.
Heilbrigðisnefnd mælist til að í samþykktina verði sett bann við notkun á sorpkvörnum, en gerir að öðru leyti ekki athugasemdir.
Fyrir framkvæmdanefnd liggur að samþykkja fráveitusamþykktina frá 2016 með áðurnefndum breytingum.
Framkvæmdanefnd samþykkir fyrirliggjandi drög að fráveitusamþykkt fyrir Norðurþing með áorðnum breytingum sem fela í sér bann við notkun soprkvarna.

22.Sundlaugin á Raufarhöfn - skoðun heilbrigðisfulltrúa

Málsnúmer 201802074Vakta málsnúmer

Fyrir liggur úttekt heilbrigðisfulltrúa á sundlauginni á Raufarhöfn.
Fyrir framkvæmdanefnd liggur að taka afstöðu til þeirra athugasemda sem gerðar eru í þeirri úttekt.
Framkvæmdanefnd felur framkvæmda- og þjónustufulltrúa að gera kostnaðar- og úrbótaáætlun fyrir lok apríl 2018 og leggja fyrir framkvæmdanefnd.

23.Aðgengi að íþróttavelli og tjaldstæði á Húsavík

Málsnúmer 201606068Vakta málsnúmer

Á fundi sínum þann 23. ágúst s.l. óskaði framkvæmdanefnd eftir því við skipulags- og umhverfisnefnd að breyttar vegtengingar við íþróttavelli og tjaldsvæði verði settar í skipulagsferli.
Þar er horft til þess að aðgengi verði um Auðbrekku og vegtenging að tjaldstæði frá þjóðvegi verði lokað.

Skipulags- og umhverfisnefnd svaraði erindinu á eftirfarandi hátt:
Skipulags- og umhverfisnefnd felur skipulags- og byggingarfulltrúa að láta vinna drög að skipulagslýsingu vegna deiliskipulags fyrir tjaldstæði og íþróttavelli.

Drög að skiplagslýsingu vegna deiliskipulags fyrir tjakdtæði og íþróttavelli hafa ekki borist ennþá.
Framkvæmdanefnd ítrekar fyrri beiðni til skipulags- og umhverfisnefndar um að vegtengingar við íþróttavelli og tjaldsvæði verði settar í skipulagsferli.
Jafnframt beinir nefndin því til skipulags- og umhverfisnefndar að skoðaðar verði aðrar mögulegar vegtengingar að þessum svæðum.

24.Reglubundin skoðun - Sundlaugin á Raufarhöfn

Málsnúmer 201802088Vakta málsnúmer

Fyrir liggur úttekt Vinnueftirlits á sundlauginni á Raufarhöfn.
Fyrir framkvæmdanefnd liggur að taka afstöðu til þeirra athugasemda sem gerðar eru í þeirri úttekt.
Framkvæmdanefnd felur framkvæmda- og þjónustufulltrúa að gera kostnaðar- og úrbótaáætlun fyrir lok apríl 2018 og leggja fyrir framkvæmdanefnd.

Fundi slitið - kl. 20:15.