Fara í efni

Samstarfssamningur Hvalasafnsins SES og Garðarshólms SES

Málsnúmer 201304054

Vakta málsnúmer

Bæjarráð Norðurþings - 72. fundur - 18.04.2013

Fyrir bæjarráði liggur erindi frá Hvalasafninu SES og Garðarshólma SES um samstarfssamning félaganna um uppbyggingu safna- menningar- og fræðastarfsemi á lóð Hvalasafnsins á Húsavík. Bæjarráð leggur fram eftirfarandi yfirlýsingu vegna samstarfssamning félaganna: Bæjarráð Norðurþings lýsir yfir ánægju og fullum stuðningi við áform Hvalasafnsins á Húsavík ses og Garðarshólma ses um sameiginlega uppbyggingu safna-, menningar- og fræðastarfsemi á lóð Hvalasafnsins. Nýverið var undirrituð samstarfsyfirlýsing stofnananna um þessi áform en starfsemi beggja felst og mun felast í sýningum, rannsóknum og fræðslu. Ljóst er að mikil tækifæri felast í því að byggja upp starfsemi stofnananna á sama stað. Þannig verða til augljós samlegðaráhrif og hagræðing við nýtingu húsnæðis, starfsfólks og í hinum almenna rekstri félaganna. Einnig skapast út frá staðsetningunni miklir möguleikar á nánum tengslum beggja stofnana við þá fræða- og rannsóknastarfssemi sem fyrir er á svæðinu innan veggja Þekkingarsetursins á Húsavík. Norðurþing hefur lengi horft til þess að koma upp menningarsal sem getur hýst hina ýmsu viðburði, hvort sem þeir eru á vegum sveitarfélagsins eða annarra aðila. Við uppbyggingu og hönnun á byggingarreit Hvalasafnsins hafa verið settar fram hugmyndir um að samþætta menningarsal þeirri starfsemi sem fyrirhuguð er á lóðinni. Yrði bygging salarins mikil lyftistöng fyrir menningarlíf á Húsavík og nágrenni. Auk almenns stuðnings við samstarf og almenn áform um uppbyggingu á lóð Hvalasafnsins á Húsavík, lýsir Norðurþing því einnig yfir vilja til að koma með beinum hætti að þeirri uppbyggingu sem snýr að byggingu menningarsalar. Hvalasafnið á Húsavík hefur nú á þriðja ár unnið að undirbúningi við að fá grind af steypireyð er rak á Skaga 2010. Einsýnt er að slíkur gripur á heima á Hvalasafninu, eina sérhæfða hvalasafni landsins. Steypireyðargrind myndi auka aðdráttarafl og ímynd Húsavíkur sem áfangastaðar til hvalaskoðunar og sýning hennar innan veggja sameiginlegs húsnæðis Hvalasafnsins og Garðarshólma myndi því falla vel að þeirri uppbyggingu sem fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélag hafa unnið að á Húsavík í tengslum við hvalaskoðun, sýningu, fræðslu og rannsóknir á hvölum síðustu tvo áratugi. Ljóst er að grindin er stór áhrifaþáttur í þróun og áframhaldi þeirrar uppbyggingar og samstarfs sem Hvalasafnið og Garðarshólmur áforma. Því er mikilvægt að stjórnvöld styðji uppsetningu grindarinnar á Húsavík til framtíðar með afgerandi hætti. Fellur það einnig vel að yfirlýstu markmiði stjórnvalda um aukna dreifingu ferðamanna um landið. Bæjarráð Norðurþings skorar því á mennta- og menningarmálaráðherra, sem æðsta vald safnamála hér á landi, að lýsa því yfir að beinagrind steypireyðarinnar verði sett upp á Húsavík.