Fara í efni

Vegagerðin óskar eftir framkvæmdaleyfi fyrir Bakkaveg (857) vegur, jarðgöng og framkvæmdir þeim tilheyrandi

Málsnúmer 201507021

Vakta málsnúmer

Skipulags- og byggingarnefnd Norðurþings - 130. fundur - 14.07.2015

Óskað er eftir leyfi til að leggja 2,6 km langan veg frá Bökugarði að skilgreindu iðnaðarsvæði PCC á Bakka. Vegurinn mun liggja í tæplega 1 km löngum jarðgöngum í Húsavíkurhöfða. Við Bökugarð þarf að brimverja veginn og leggja fráveituútrás. Sótt er um leyfi til efnistöku í tveimur námum vegna framkvæmdanna. Annarsvegar er óskað eftir leyfi til að taka 6.200 m³ af efni úr námu E-1 í Krókalág og hinsvegar sótt um leyfi til að taka allt að 149.900 m³ af efni úr námu E-26A í Skurðsbrúnum. Leggja þarf 2,8 km langan námuveg að námu E-26A og er sótt um leyfi til þess. Vegna jarðgangnaframkvæmda er sótt um leyfi til losunar umframefnis á þremur stöðum. Við sorpförgunarsvæði í Laugardal er óskað eftir leyfi fyrir losun lausra jarðefna sem ekki nýtast til vegagerðar. Einnig er óskað heimildar til efnislosunar við Norðurgarð eins og samþykkt hefur verið í deiliskipulagi sem og sunnan Suðurgarðs. Gerð er ítarleg grein fyrir fyrirhuguðum framkvæmdum í erindi og auk þess vísað til kynningarskýrslu Vegagaerðarinnar og Norðurþings um Bakkaveg og Húsavíkurhöfn frá janúar 2014. Stefnt er að því að framkvæmdir við vegagerðina hefjist í árslok 2015.

Skipulagsstofnun komst að þeirri niðurstöðu í apríl 2014 að lagning Bakkavegar frá hafnarsvæði á Húsavík um jarðgöng að iðnaðarsvæði á Bakka ásamt fyrirhuguðum breytingum á Húsavíkurhöfn væru ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Skipulagsstofnun komst einnig að þeirri niðurstöðu skv. tilkynningu dags. 15. apríl 2015 að ný efnisnáma E-26A í Skurðsbrúnum og nauðsynlegur námuvegur séu ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif með tilliti til eðlis framkvæmdarinnar, staðsetningu hennar og eiginleika hugsanlegra áhrifa hennar og því skuli sú framkvæmd ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Skipulags- og byggingarnefnd Norðurþings telur að framkvæmdin sé öll í samræmi við gildandi aðalskipulag og deiliskipulög, nema það sem snýr að efnistöku úr námu E-26A. Stefnt er að því að breyting aðalskipulags og nýtt deiliskipulag fyrir efnistöku úr E-26A liggi fyrir á næstu vikum.

Skipulags- og byggingarnefnd leggur til við bæjarráð, í umboði bæjarstjórnar, að Vegagerðinni verði veitt framkvæmdaleyfi til vegagerðarinnar og þeirra tengdu framkvæmda sem tilgreindar eru í umsókn. Framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku í námu E-26A er háð lokafrágangi aðalskipulagsbreytingar og deiliskipulags efnistökusvæðisins. Framkvæmdir við vegagerðina hefjist ekki fyrr en leyfi hefur fengist hjá Minjastofnun fyrir röskun fornleifa sem spillast munu við framkvæmdina.

Bæjarráð Norðurþings - 146. fundur - 16.07.2015

Fyrir bæjarráði liggur bókun 130. fundar skipulags og byggingarnefndar Norðurþings. Eftirfarandi er úr henni:

"Óskað er eftir leyfi til að leggja 2,6 km langan veg frá Bökugarði að skilgreindu iðnaðarsvæði PCC á Bakka."

"Skipulags- og byggingarnefnd leggur til við bæjarráð, í umboði bæjarstjórnar, að Vegagerðinni verði veitt framkvæmdaleyfi til vegagerðarinnar og þeirra tengdu framkvæmda sem tilgreindar eru í umsókn. Framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku í námu E-26A er háð lokafrágangi aðalskipulagsbreytingar og deiliskipulags efnistökusvæðisins. Framkvæmdir við vegagerðina hefjist ekki fyrr en leyfi hefur fengist hjá Minjastofnun fyrir röskun fornleifa sem spillast munu við framkvæmdina."
Bæjarráð samþykkir tillögu skipulags- og byggingarnefndar