Fara í efni

Tillaga um sameiningu lóða Norðurgarðs 7 og 9

Málsnúmer 201804134

Vakta málsnúmer

Skipulags- og umhverfisnefnd - 27. fundur - 17.04.2018

Örlygur Hnefill Örlygsson leggur til að lóðirnar að Norðurgarði 7 og 9 verði sameinaðar og þar byggð slökkvistöð frekar en á lóðinni að Norðurgarði 5. Örlygur telur að með sínu fallega útsýni og staðsetningu gæti lóðin að Norðurgarði 5 verið ein áhugaverðasta lóð sem úthlutað verði innan Norðurþings á næstu árum og mikilvægt að hún verði byggð upp af myndarskap.
Greinargerð frá Örlygi Hnefli Örlygssyni vegna tillögu um sameiningu lóða að Norðurgarði 7 og 9:
"Við skipulag landfyllingar í norðurhöfn var lagt upp með að ný slökkvistöð yrði staðsett á austustu lóð fyllingarinnar, að Norðurgarði 5. Þegar sú ákvörðun var tekin var stefnt að því að björgunarsveit yrði einnig með aðstöðu í húsinu og þótti lóðin því henta vel vegna aðgengis björgunarbáta að sjó. Jafnframt var horft til þess að tvær lóðir vestan við fyrirhugaða slökkvistöðvarlóð, að Norðurgarði 7 og 9, gætu nýst undir byggingar í þjónustu við iðnaðarstarfssemi á hafnarsvæði. Síðan þá hefur orðið ljóst að björgunarsveit verður ekki með aðstöðu í hinni nýju slökkvistöð og ekki hefur reynst eftirspurn eftir lóðunum að Norðurgarði 7 og 9 frá því að skipulagið var kynnt.

Lóðin að Norðurgarði 5 liggur að lítilli sandfjöru þar sem fram rennur heitt vatn undan höfðanum. Af lóðinni er útsýni yfir fjöruna og að Húsavíkurslippi, og í fjærmynd svæðisins er miðhafnarsvæðið með sinni vaxandi ferðaþjónustu og fallegum húsum.

Mikilvægt er að verja þann hluta fjörunnar sem eftir er, en stærstur hluti hennar er nú kominn undir fyllingar, og tryggja þarf að uppbygging umhverfis sandfjöruna verði snyrtileg og aðlaðandi, enda má öllum sem þekkja hafstrauma og veður á þessu svæði vera ljóst að þegar Garðar Svavarsson og hans fólk kom hér að landi voru bátar dregnir upp í fjöru á þessum slóðum, í skjóli fyrir veðri og vindum. Svæðið hefur því sögulegt gildi fyrir Húsvíkinga og Ísland allt.

Lóðin að Norðurgarði 5 er einnig mjög sýnileg frá miðhafnarsvæðinu, sem og úr bátum sem sigla út og inn úr miðhöfninni. Ásýnd þessa svæðis skiptir miklu um hvernig við þróum áfram ímynd Húsavíkur sem ferðamannastaðar til næstu áratuga. Má horfa til ýmissa bæja víða um land sem hafa vandað sig við uppbyggingu og breytingar á hafnarsvæðum sínum.

Lóðin hefur ótvíræða kosti fyrir uppbyggingu á þjónustustarfsemi, t.d. mætti úthluta henni til uppbyggingar á veitingastöðum, safni, eða verslun. Lóðir sem þessar eru víða erlendis einnig vinsælar til íbúðabyggðar, svonefndar "waterfront"-lóðir. Einnig mætti sjá fyrir sér á þessari lóð mörg smærri hús, jafnvel gömul hús sem flutt væru á lóðina, í bland við ný hús byggð í gömlum stíl. Þegar hefur verið gert ráð fyrir að útlistaverk verði sett upp á fremsta odda fyllingarinnar, við umrædda lóð. Leggur undirritaður mikla áherslu á að allir kostir verði skoðaðir og vandað verði til vals þegar kemur að úthlutun lóðarinnar að Norðurgarði 5.

Verði slökkvistöð byggð upp á sameinuðum lóðum Norðurgarði 7 og 9 mun sú bygging einnig loka á milli lóðarinnar að Norðurgarði 5 og þeirra þungastarfssemi sem mun fara fram vestar á landfyllingunni. Það má því færa rök fyrir því að lóðin að Norðurgarði 5, með sitt fallega útsýni og staðsetningu, gæti verið ein verðmætasta lóð sem Norðurþing hefur að úthluta til spennandi uppbyggingar á næstu árum."

Meirihluti skipulags- og umhverfisnefndar telur tilefni til að endurskoða notkun lóðanna og vísar því til umfjöllunar í hafnanefnd. Jónas sat hjá við þessa afgreiðslu.

Hafnanefnd - 23. fundur - 23.04.2018

Örlygur Hnefill Örlygsson leggur til að lóðirnar að Norðurgarði 7 og 9 verði sameinaðar og þar byggð slökkvistöð frekar en á lóðinni að Norðurgarði 5. Örlygur telur að með sínu fallega útsýni og staðsetningu gæti lóðin að Norðurgarði 5 verið ein áhugaverðasta lóð sem úthlutað verði innan Norðurþings á næstu árum og mikilvægt að hún verði byggð upp af myndarskap.

Meirihluti skipulags- og umhverfisnefndar telur tilefni til að endurskoða notkun lóðanna og vísar því til umfjöllunar í hafnanefnd.
Hafnanefnd setur sig ekki upp á móti sameiningu lóða við Norðurgarð 7 og 9 verði þörf á því.
Lóðinni að Norðurgarði 5 hefur hins vegar þegar verið úthlutað til Eignarsjóðs fyrir byggingu slökkvistöðvar. Umtalsverðum kostnaði hefur verið varið í undirbúning lóðarinnar fyrir umrædda byggingu.
Hafnanefnd hafnar því erindinu