Fara í efni

Kolviðarsjóður óskar eftir framkvæmdarleyfi til skógræktar á Ærvíkurhöfða

Málsnúmer 202006012

Vakta málsnúmer

Skipulags- og framkvæmdaráð - 70. fundur - 09.06.2020

Kolviðarsjóður óskar heimildar til að rækta skóg á 102 ha svæði á Ærvíkurhöfða. Sveitarfélagið hefur þegar leigt landið til Kolviðarsjóðs. Leigulandið í heild er 114,6 ha en undanþegið skógrækt eru hlutar jaðra (til að milda ásýnd útlína skógræktar), umferðarleiðir og melar. Markmið með skógræktinni er að draga úr styrk koldíoxíðs í andrúmslofti, binda jarðveg og hindra jarðvegseyðingu. Allir skógar Kolviðar eru opnir almenningi til útivistar og yndisauka. Gert er ráð fyrir fjölbreyttum blandskógi og áætlað að plantað verði í landið um 270.000 trjáplöntum á næstu fimm árum. Lögð verður áhersla á að skógur falli vel að landslagi, forðast verði að gróðursetja í beinum línum og lágvaxnari tegundir notaðar til að mýkja ásýnd. Gróðursetningarsvæðið er að langmestu leiti ófrjótt graslendi (gömul tún) en einnig mólendisgeirar. Í greinargerð með umsókn kemur fram að svæðið nýtur ekki verndar skv. náttúruverndarlögum. Þar er ekki að finna votlendi af neinu tagi. Ekki eru friðaðar fornleifar á svæðinu. Fuglalíf er fábreytt og rýrt og ekki að vænta sjaldgæfra plöntutegunda.
Skipulags- og framkvæmdaráð telur að fullnægjandi grein sé gerð fyrir fyrirhugaðri framkvæmd í erindi. Fyrirhuguð skógrækt er í landi sem ekki nýtur sérstakrar verndar skv. náttúruverndarlögum, ekki eru þar þekktar varpstöðvar sjaldgæfra fuglategunda né vaxtarstaðir sjaldséðra plantna og ekki eru kunnar fornminjar sem raskast myndu við framkvæmdir. Landið er að langmestu leiti rýrt graslendi en einnig er þar að finna mólendi og gróðurlitla mela eins og fram kemur í erindi og sjá má af loftmyndum. Með vísan til ákvæða 2. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum telur ráðið ekki tilefni til frekara mats á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Ráðið fellst á framkvæmdina með eftirfarandi skilyrðum:

1. Ekki má raska landi né gróðursetja tré við fornminjar sem kynnu að finnast við framkvæmdina.
2. Ef framkvæmdaaðili rekst á sjaldgæfar plöntur eða fugla innan framkvæmdasvæðis skal fyllstu varkárni gætt að raska ekki búsvæði þeirrar tegunda með framkvæmdum eða gróðursetningu.

Silja óskar bókað:
Samkvæmt samningi verður svæðið útivistarsvæði í framtíðinni og gert aðgengilegt. Nú þegar eru á svæðinu óformlegir göngu- og reiðstígar og vil ég hvetja hlutaðeigandi að eiga samtal við hagaðila s.s. hestamannafélagið Grana um aðgengi að þeim á uppgræðslutíma.
Guðmundur og Heiðar Hrafn taka undir bókun Silju.